Gefst fólk upp á að greiða í lífeyrissjóði?

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Er í lagi að skerða lífeyri aldraðra frá almannatryggingum vegna þess að viðkomandi eldri borgari fær lífeyri úr lífeyrissjóði? Nei, það er ekki í lagi. Það er sambærilegt og ef stjórnvöld færu beint inn í lífeyrissjóðina og tækju hluta þeirra traustataki. Sjóðfélagar, eldri borgarar, eiga lífeyrinn í lífeyrissjóðunum. Ekki má skerða hann, hvorki beint né óbeint. Lífeyrissjóðirnir áttu að vera viðbót við almannatryggingar. Það var grundvöllur stofnunar lífeyrissjóðanna að svo yrði. Það var óskráð samkomulag um það. Stjórnvöld hafa rofið þetta samkomulag. Það er því engan veginn öruggt, að launafólk haldi áfram að greiða í lífeyrissjóð 15,5%. Það er há upphæð. Ef launafólk á að halda áfram að greiða i lífeyrissjóði verður að hætta skerðingum. Það verður að hætta þeim strax.

Eiga inni tugi milljarða hjá ríkinu

Búið er að stefna ríkinu vegna þess, að í janúar og febrúar á þessu ári skerti Tryggingastofnun í heimildarleysi lífeyri eldri borgara hjá almannatryggingum, ef þeir höfðu lífeyri úr lífeyrissjóði. Þarna tók ríkisvaldið 5 milljarða af öldruðum ófrjálsri hendi. Ég tel, að þetta sé gjörunnið mál. Síðan þarf einnig að stefna ríkinu vegna skerðinga tryggingalífeyris á undanförnum áratugum. Þar er ekki um að ræða eins gjörunnið mál, þar sem lítið finnst af skriflegum gögnum um það hvaða áhrif lífeyrissjóðirnir ættu að hafa á réttindi aldraðra þar. Það er um tugi milljarða að ræða. Það eru gífurlega háar fjárhæðir, sem eldri borgarar telja sig eiga inni hjá ríkinu.

Fyrri ríkisstjórn bauð 185 þús. á mánuði

Þegar nýtt frumvarp um almannatryggingar var lagt fram 2016 var ekki gert ráð fyrr neinni hækkun lífeyris til þeirra, sem voru á „strípuðum“ lífeyri. Þeir áttu áfram að hafa 185 þúsund kr. á mánuði eftir skatta, ef þeir voru í hjónabandi eða sambúð og 207 þúsund á mánuði eftir skatt, ef þeir voru einhleypir. Allar „kjarabæturnar“, sem fyrri ríkisstjórn bauð upp á, voru í formi minni skerðinga tryggingalífeyris vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. En það voru ekki kjarabætur. Ef þú tekur fjármuni af eldri borgara og skilar síðan hluta þess til baka ertu ekki að veita honum kjarabætur. Það er líkara því, að verið sé að skila hluta af þýfi! Eitt þúsund manna baráttufundur Félags eldri borgara í Reykjavík í Háskólabíói knúði fyrri ríkisstjórn til þess að breyta frumvarpinu og setja inn örlitlar kjarabætur til lægst launuðu lífeyrisþeganna.

Skerðing verði stöðvuð strax

Krafa mín er þessi: Skerðing á lífeyri aldraðra hjá almannatryggingum verði strax stöðvuð og leiðréttingar veittar aftur í tímann. Ríkisvaldið er orðið vant því að veita afturvirkar launauppbætur. Það getur því eins veitt öldruðum þær. Mér er ljóst, að þessi leiðrétting kostar talsverða fjármuni. En það er ekki fyrirstaða. Það eru nægir peningar til í þjóðfélaginu. Og ríkið hefur sparað sér gífurlega fjármuni með því að skerða lífeyri aldraðra frá almannatryggingum áratugum saman.

Grein Björgvins birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. júlí 2017.

Ritstjórn júlí 13, 2017 11:29