Víða á Vesturlöndum hafa menn áhyggjur af því hve hratt þjóðirnar eldast. Auknar líkur á að ná háum aldri eru vissulega ánægjulegar en meðan fæðingartíðni lækkar jafnframt því að langlífi eykst verður aldurssamsetning þjóða óhagstæð. Til þess að halda samfélaginu gangandi á sem hagkvæmastan máta og tryggja velferð allra þegna þarf stærra hlutfall virkra á vinnumarkaði en hlutfall þeirra sem annað hvort hafa ekki náð aldri til að vinna eða eru hættir að vinna.
Efnahags- og þróunarsamvinnustofnun Evrópu OECD hefur líst áhyggjum vegna þessa og einnig stjórnvöld í Bretlandi, Hollandi og Noregi. Enn sem komið er standa Íslendingar nokkuð vel hvað þetta varðar því í fjölskyldum hér fæðast enn fleiri börn en víðast í nágrannalöndunum. Engu að síður er ástæða til að hafa áhyggjur af og auga með þessari þróun hér á landi jafnt og annars staðar. Búist er við að hún fari vaxandi og talað er um að eftir um það bil tuttugu ár muni reynast erfitt að halda lífeyriskerfinu í Bretlandi gangandi verði ekki breyting á. Þar hafa stjórnvöld leitað til sérfræðinga og beðið þá að greina stöðuna og finna leiðir til þess að vinnumarkaðurinn nái að standa undir og fjármagnavelferðarkerfið í framtíðinni. Hér hefur ellilífeyrisþegum fjölgað úr tæpum 8% landsmanna í 11% á tíu ára tímabili. OECD hvetur stjórnvöld í Evrópu til að huga að þessum vanda og setja sér stefnu til þess að tryggja að hægt verði að veita öldruðum áhyggjulaust ævikvöld án mismununar.
Hingað til hefur verið algengast að aldursskipting samfélagsins sé á þá vegu að mikill meirihluti þjóðarinnar sé ungur. Gera má ráð fyrir að ef aldurssamsetningin breytist mikið hafi það áhrif á allar stofnanir samfélagsins. Reikna má með að endurskoða þurfi eftirlaunaaldur, eins og reynt að var að gera í Frakklandi og kostaði öflug mótmæli, endurskipuleggja heilbrigðiskerfið, skapa ný samgöngukerfi og skoða skipulag og uppbyggingu húsnæðis.
Ábyrgð fjölskyldna meiri
Gera má ráð fyrir versnandi heilsufari með auknum aldri og það mun óhjákvæmilega skapa álag á alla almannaþjónustu. Hraði hið opinbera ekki aðlögun sinni að þessum breyttu aðstæðum mun álag á fjölskyldur einnig aukast því líklega mun ábyrgð þeirra á umönnun eldri meðlima verði meiri. Þetta mun einnig hafa áhrif á virkni hinna yngri á vinnumarkaði og skapa frekari togstreitu í efnahagslífinu vegna þess að sífellt færra fólk stendur undir rekstri hins opinbera.
Meðal hugmynda sem lagðar hafa verið fram í Bretlandi er að veita aukinn stuðning aðstandendum er sjá um aldraða ættingja sína án þess að þiggja laun fyrir. Einnig er bent á að margt eldra fólk hefur næga orku til að vinna og áhuga á að hala því áfram. Með því að gera þeim kleift að vinna áfram án þess að skerða réttindi sín eða minnka tekjur mun hjálpa samfélaginu að viðhalda þeirri velferðaþjónustu sem það vill halda uppi. Stuðningur við þá sem vilja vinna felst meðal annars í að ryðja úr vegi fjárhagslegum hömlum og styðja þá sem vilja læra nýja tækni og setja sig inn í nýjungar í sínum fögum.
Að læra, tileinka sér nýja þekkingu og verða hæfari á öllum sviðum er mikilvægt á öllum aldri. Margt eldra fólk hefur mikla ánægju af námi og hefur bætt við sig menntun eftir að það hætti að vinna. Ef því er gert kleift að nýta sér þá þekkingu með því að starfa á nýjum eða sama vettvangi og það var á áður mun það skapa mikil verðmæti fyrir samfélagið. Rannsóknir hafa einnig sýnt að með stöðugri endurmenntun eykur fólk ekki bara andlega krafta sína heldur nýtur það almennt betri líkamlegrar heilsu líka. Endurmenntun skapar þannig ábata fyrir einstaklinginn, vinnuveitendur og samfélagið í heild. Aðlögunarhæfni er því ómetanlegur eiginleiki í samfélagi sem er að eldast hratt.
Húsnæðismál áhyggjuefni
Annað áhyggjuefni eru húsnæðismál. Hér á landi eiga flestir sitt eigið húsnæði og það getur reynst snúið þegar og ef það hættir að henta fólki eftir að aldurinn færist yfir. Stjórnvöld þurfa að gera átak í að finna leiðir til að byggja upp húsnæði er hentar eldra fólki á verðbili sem hentar öllum. Í Bretlandi hafa menn miklar áhyggjur af því að fjöldi aldraðra einstaklinga býr í heilsuspillandi húsnæði, ýmist vegna þess að hið opinbera, leigusalar eða hinn aldraði sjálfur hafa vanrækt viðhald. Þröngir stigar, óslétt gólf, illa útbúin eldhús og illa loftræst hús eru þar mikið vandamál. Hér á landi hefur mygla herjað á bæði í eldra og nýju húsnæði og vitað er að eldra fólk er viðkvæmara fyrir henni. Stórar íbúðir og hús á fleiri en einni hæð geta reynst erfið viðureignar þegar heilsan tekur að gefa sig. Þá er mikilvægt að menn hafi val um að kaupa eða fá leigt hentugra húsnæði.
Breskir sérfræðingar leggja einnig til að fólki verði gert kleift að búa heima lengur en nú er og heimilisaðstoð verði stóraukin. Slík hjálp mun verulega draga úr þörfinni á hjúkrunarheimilum og innlögnum á sjúkrahús en þau úrræði eru dýrari. Rannsóknir sýna líka að öldruðum líður betur í sjálfstæðri búsetu á eigin heimili.
Þótt Íslendingar geti enn verið áhyggjuminni en margar nágrannaþjóðir okkar eru þetta eigi að síður umhugsunarefni fyrir okkur. Frjósemi íslenskra kvenna árið 2022 var 1,59 og hefur aldrei mælst lægri. Talið er að 2,1 barn þurfi að fæðast á hverja konu til að viðhalda velferðarsamfélagi á borð við okkar. Við viljum tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld en til þess að það megi verða þarf öflugan vinnumarkað og stöðuga fjölgun þjóðarinnar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.