Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar:
Mikil mótmæli hafa verið að undanförnu á götum borga í Túnis. Þau beinast gegn stjórnvöldum, vegna óánægju með hve hagur almennings í landinu hefur lítið batnað á þeim sjö árum sem liðin eru frá upphafi hins svokallaða arabíska vors. Ung kona, þátttakandi í mótmælunum, lýsti óánægjunni sérstaklega myndrænt í sjórnvarpsfrétt. Hún sagði að þeir sem stjórna í Túnis búi í höllum en almenningur sé hins vegar undir fátæktarmörkum.
Á sama tíma og almenningur í Túnis krefst réttlætis, að komast yfir fátæktarmörk og geta lifað af frá degi til dags, þá auglýsir Tryggingastofnun í dagblöðum hér á landi, að fjárhæðir elli- og örorkulífeyris hækki almennt um heil 4,7%. Þetta finnst sumum ráðamönnum rosalega flott því hækkunin sé umfram verðbólgu og þess vegna sé verið að bæta hag lífeyrisþega. Þvílík góðmennska hér á ferð. Tekið er fram í auglýsingu Tryggingastofnunar að ellilífeyrir þeirra sem búa ekki einir verði að hámarki 239.484 krónur á mánuði. Þessar heildar mánaðargreiðslur, fyrir skatta, ná ekki einu sinni því sem mánaðarlaun margra þeirra sem heyra undir kjararáð hækkuðu um samkvæmt síðustu ákvörðunum ráðsins.
Í haust verða tíu ár frá bankahruni. Í dag eru níu ár liðin frá því þáverandi ríkisstjórn hröklaðist frá völdum og í vor verða átta ár frá birtingu skýrslu rannsóknarnefndar alþingis, sem falið var að rannsaka aðdraganda og orsakir hrunsins og tengdra atburða. Fyrst eftir útkomu skýrslunnar virtist raunverulegur vilji vera fyrir því að læra af þeim mistökum sem gerð höfðu verið, og taka mið af ábendingum og tillögum skýrsluhöfunda. Stjórnmálamenn voru meira að segja almennt á meðal þeirra sem vildu lagfæringar á ýmsum sviðum. Þetta breyttist þó fljótt, enda brugðust margir af helstu aðalleikurum hrunsins við með hefðbundnum hætti þegar frá leið, með afneitun og útúrsnúningum. Sumir þeirra eru jafnvel enn við sama heygarðshornið og snúa öllu á haus þegar tækifæri gefst.
Meðal þess eftirminnilegasta sem fram kom í rannsóknarskýrslunni eru orð ágæts blaðamanns og ritstjóra. Hann var ekkert að skafa af hlutunum og lýsti þjóðfélaginu sem ógeðslegu, og að það væru engin prinsipp eða hugsjónir, bara tækifærismennska og valdabarátta. Þetta var nöturleg lýsing, vægast sagt, sem hvergi hefur verið hrakin, eftir því sem næst verður komist.
Ýmsar aðgerðir og atburðir undanfarinna ára benda ekki til þess að lærdómur hafi almennt verið dreginn af bankahruninu og tengdum atburðum. Er til að mynda nokkuð annað hægt en að kalla ákvarðanir kjararáðs ógeðslegar, þegar ráðið hækkar laun forréttindahópa langt umfram aðra, og ekki síður vegna þess hvernig ráðið pukrast með ákvarðanir sínar? Þó svo að allir viti hvaða áhrif gríðarlegar hækkanir sumra umfram aðra muni hafa, þá gera ráðamenn ekkert í málunum. Þeir segjast kannski vera óhressir með óheppilegar ákvarðanir ráðsins, en þeir sem eitthvað gætu gert, gera ekki nokkurn skapaðn hlut. Svo má spyrja hvort það hafi verið prinsipp eða hugsjónir sem réðu því að ríkisstjórnin var mynduð í lok nýliðins árs? Eða stjórnin þar á undan? Reyndar verður að hafa í huga að það er örugglega staðföst hugsjón sumra að komast til valda, hvað sem það kostar, enda hafa slíkir menn krafist þess að lyklunum verði skilað þegar öðrum en þeim hafa verið falin lyklavöld í stjórnarráðinu í kjölfar lýðræðislegra kosninga. Kannski er ósanngjarnt að gagnrýna þetta fólk fyrir að hafa ekki prinsipp eða hugsjónir. Valdagræðgi getur út af fyrir sig verið prinsipp eða hugsjón. En þarna innanborðs er líka fólk, reyndar heill stjórnmálaflokkur, hvers formaður sagði nokkrum dögum fyrir kosningar í ræðustól Alþingis, að stjórnvöld eigi ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Eftir kosningar, þegar ráðherrastólar eru í höfn, segir þetta sama fólk að það sé ekki hægt að gera allt fyrir alla í einu. Þá mega þeir sem minna mega sín nefnilega bíða; bíða eftir réttlæti. Ætli valdhafarnir í höllum Túnis hugsi ekki eitthvað svipað?