Haldinn var blaðamannafundur í morgun til að kynna úttekt Landlæknisembættisins á árangri biðlistaátaksins svokallaða, þar sem liðskiptaaðgerðum var fjölgað verulega til að stytta biðlista. Mbl.is greinir frá blaðamannafundinum á vef sínum í dag, en þar segir:
Biðtími eftir liðskiptaaðgerðum verður ekki styttur með því einu að fjölga slíkum aðgerðum. Til að ná árangri þarf samstillt átak heilbrigðisyfirvalda, Embættis landlæknis og heilsugæslunnar. Þriggja ára átak, sem átti að stytta bið eftir þessum aðgerðum, bar ekki tilætlaðan árangur. Landlæknir leggur m.a. til að þessum aðgerðum verði útvistað tímabundið. Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi sem haldinn var í morgun þar sem kynntar voru niðurstöður skýrslu Embættis landlæknis um árangur af biðlistaátakinu. „Biðtíminn hefur vissulega styst,“ sagði Alma Möller landlæknir á fundinum. „En ekki eins og vonir stóðu til.“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði að fjöldinn á biðlistunum endurspeglaði þann vanda sem Landspítali hefði lengi glímt við; sem væri skortur á legurýmum sem mætti að stórum hluta rekja til fráflæðisvandans sem myndaðist þegar aldrað fólk, sem bíður úrræða á borð við hjúkrunarheimili, dveldi langtímum á sjúkrahúsinu þar sem mikill skortur væri á hjúkrunarrýmum. Landlæknir sagði að önnur ástæða fyrir því að ekki tókst betur til með átakið væri að eftirspurn eftir liðskiptaaðgerðum hefði vaxið hraðar en reiknað hefði verið með. Fram kemur í fréttinni að til stendur að fara rækilega yfir þessi mál og hvað unnt er að gera, en ljóst er að samstillt átak margra þarf til að koma til að leysa vandann. Heilbrigðisráðherra telur til að mynda að heilsugæslan geti komið inní málið, til að undirbúa fólk betur fyrir aðgerðirnar. Landlæknir leggur til í skýrslunni að takist ekki að fjölga liðskiptaaðgerðum á þeim sjúkrahúsum þar sem þær eru nú framkvæmdar, verði þeim útvistað tímabundið til einkaaðila í heilbrigðisrekstri. Síðan segir orðrétt í fréttinni.
Spurð um hvort hluti lausnarinnar gæti m.a. falist í þessu, segir Svandís að það sé eitt af því sem sé til skoðunar. „Mér finnst þó skjóta skökku við að útvista þessum aðgerðum á meðan Landspítali er að sinna umönnun langlegusjúklinga og aldraðra sem færi betur um á hjúkrunarheimilum. Þannig að við myndum líklega fyrst skoða hvort hægt væri að útvista slíkri þjónustu í meiri mæli, áður en við færum að bjóða út flóknari þjónustu. Þetta er eitt af því sem þarf að fara yfir, en það er ljóst að það verður ekki farið í neitt slíkt á þessu ári. Það eru einfaldlega ekki til peningar til þess.“
Sjá frétt Mbl.is í heild með því að smella hér.