Offita, ofþyngd og krabbamein

Sterkar vísbendingar eru um að draga megi úr hættu á krabbameini með því að taka upp hollar venjur í mataræði og hreyfingu. Áætlað er að Evrópubúar sem stunda heilbrigða lífshætti í samræmi við ráðleggingar um forvarnir gegn krabbameini séu í 18% minni hættu á að fá krabbamein en þeir sem tileinka sér ekki slíka lífshætti, segir á vefsíðu Krabbameinsfélags Íslands. Lifðu núna endursagði hluta greinarinnar og stytti.

Hæfileg líkamsþyngd

Hæfileg líkamsþyngd er sú líkamsþyngd einstaklings sem veldur því að hann er ólíklegur til að þróa með sér þá sjúkdóma sem ofþyngd getur valdið – einkum sum krabbamein en einnig hjartasjúkdóma, sykursýki og fleira. Að vera of grannur eða of feitur getur verið óhollt og því er æskilegt að reyna að halda líkamsþyngd sinni á því bili sem talið er hæfilegt. Hæfileg líkamþyngd er þegar líkamsræktarstuðullinn er á bilinu 18,5 til 24,9 BMI. Hér er hægt að reika BMI

Mæling á mittismáli er önnur gagnleg aðferð til að fá hugmynd um hvort einstaklingur sé í aukinni hættu á heilsuvandamálum vegna of mikillar líkamsfitu. Reynist mittismál vera meira en 102 cm hjá karlmanni eða yfir 88 cm hjá konu er það vísbending um mikla áhættu en mittismál undir 94 cm hjá karli og undir 80 cm hjá konu bendir til lítillar áhættu. Tölur þar á milli gefa til kynna áhættu í meðallagi. Hætta á krabbameini eykst jafnt og þétt eftir því sem fitumagnið eykst. Mismunandi líkamsbygging fólks gerir það að verkum að breytilegt er eftir einstaklingum að hvaða gildum á heilsusamlega bilinu best er að stefna. Þannig ættu fíngerðir einstaklingar að stefna að lægsta gildinu á meðan þeir sem eru sterkbyggðir ættu að leitast við að vera með gildi nær miðju eða efri hluta bilsins.

Ofþyngd og offita

Orðin ofþyngd og offita eru oft notuð til að lýsa því þegar líkaminn hefur safnað of mikilli fitu. Fita er eðlilegur hluti af líkamanum; hún veitir einangrun og ver sum innri líffæri gegn hnjaski auk þess sem hún nýtist við gerð mikilvægra hormóna. Líkamsfita er um 17–25% af líkamsþyngd hjá eðlilegu heilbrigðu fólki og fituhlutfallið er almennt hlutfallslega hærra í konum en körlum. Eftir því sem fituhlutfallið hækkar umfram þetta fjölgar þeim heilsuvandamálum sem einstaklingurinn á á hættu að þróa með sér.

Ef líkamsþyngdarstuðull er á bilinu 25–30 BMI er talað um ofþyngd og ef hann er hærri en 30 BMI er talað um offitu. Of mikil líkamsfita gerir líkamann ónæmari fyrir hormóninu insúlíni og eykur þar með hættu á sykursýki. Á sama tíma eykur of mikil fita magn sumra hormóna sem ýta undir vöxt og skipti fruma sem getur aukið líkur á sumum krabbameinum.

Krabbamein sem offita og ofþyngd auka líkur á

Krabbameinstegundirnar sem offita og ofþyngd auka líkur á að þróist eru krabbamein í ristli og endaþarmi, nýrum, skjaldkirtli, maga, vélinda, lifur, brisi og gallblöðru, heilaæxli og mergæxli. Enn fremur aukast líkur á krabbameini í brjóstum (eftir tíðahvörf), legslímu og eggjastokkum hjá of feitum eða of þungum konum. Þetta eru nokkrar af algengustu krabbameinstegundunum í Evrópu.

Allir ættu að reyna að forðast að þyngjast eftir því sem þeir eldast. Ekki þarf að borða nema örlítið meira en nóg þykir í nokkur ár til að þyngjast töluvert og þetta getur auðveldlega gerst án þess að viðkomandi taki eftir því. Þar sem flest okkar þurfa ekki að hreyfa sig mikið við dagleg störf og vegna þess að orkuríkur matur, sér í lagi mikið unnið skyndibitafæði og sykraðir drykkir – er aðgengilegur nær alls staðar, er mjög algengt að fólk þyngist hægt og sígandi á fullorðinsárum. Að meðaltali þyngist fólk um hér um bil 400 grömm ár hvert eftir því sem líður á ævina, sem þýðir 4 kg á 10 árum og 6 kg á 15 árum. Þess vegna er mælt með því að fólk reyni að hafa stjórn á þyngdinni. Ef það er ekki gert er líklegt að líkamsþyngdin aukist hægt og sígandi án þess að það sé ætlunin.

Til að koma í veg fyrir að aukakíló bætist á líkamann þarf að borða hollan mat og mjög æskilegt er að hreyfa sig eins mikið og hægt er. Þetta gerist ekki nema viðkomandi ákveði það – þess vegna er ráðlagt að grípa til jákvæðra ráða. Þegar ætlunin er að léttast er mælt með að fækka hitaeiningum og auka hreyfingu. Áætlun um hollt mataræði ásamt aukinni hreyfingu stuðlar að meira þyngdartapi til langframa en ef aðeins er gerð áætlun um hollt mataræði eða aukna hreyfingu.

Sumir telja sér trú um að reykingar komi í veg fyrir að þeir þyngist eða eru hræddir um að þyngjast ef þeir hætta að reykja. Þetta er möguleiki en ef fólk er vakandi gagnvart vandanum er ólíklegt að það þyngist ef það heldur sig við þá holla lífshætti.Ljóst er að sá ávinningur sem reykbindindi hefur fyrir heilsuna vegur mun þyngra en þeir ókostir sem eitt til tvö aukakíló hafa í för með sér.

Alltaf ávinningur að léttast

Þegar um er að ræða of þunga einstaklinga, of feita og einstaklinga sem eru að þyngjast er alltaf þess virði að léttast. Ýmislegt bendir til þess að þegar fólk léttist minnki hættan á að fá krabbamein og miklar vísbendingar eru um að þyngdartap sé mikilvægt til að minnka hættu á að fá sykursýki og geti jafnvel átt þátt í að lækna hana, og draga úr tilteknum áhættuþáttum hjartasjúkdóma og heilablóðfalla eins og háu kólesteróli í blóði og háum blóðþrýstingi.

Góðu fréttirnar eru þær að það er sama hversu mikil ofþyngdin er, heilsufarslegur ávinningur þess að léttast kemur strax fram þótt ekki séu nema nokkur kíló farin. Þótt æskilegast sé að ná þyngdinni niður þannig að líkamsþyngdarstuðullinn falli innan heilsusamlegra marka (18,5–24,9), þar sem hámarksávinningur fyrir heilsuna næst, hefur allt þyngdartap góð áhrif. Markmiðið er því raunhæft og það er sannarlega þess virði að léttast, segir á síðu Krabbameinsfélagsins. Greinina í heild er hægt að lesa hér.

Ritstjórn janúar 25, 2018 09:37