Margir sem eru komnir á efri ár, hafa gríðarlega mikinn áhuga á forfeðrum sínum. Séra Bára Friðriksdóttir sem lagt hefur stund á öldrunarfræði segir að það sé eðlilegur hluti af öldrunarferli manneskjunnar. Menn séu að endurmeta líf sitt, gera upp ýmislegt og sjái sjálfa sig sem hlekk í órofakeðju forfeðra og -mæðra. Við það hverfi óttinn við dauðann. Þess eru líka dæmi að menn skrifi bækur um fólkið í ættinni sinni, ýmist til útgáfu eða heimanota. Hólmfríður K. Gunnarsdóttir skrifaði til dæmis bókina … hjá grassins rót. Hún er skemmtilega fram sett, vel skrifuð. Á kápunni segir meðal annars:
Maðurinn er aldrei einn. Allir eiga formæður og forfeður sem hvert og eitt á sína sögu. Oft er saga forfeðranna einhvers staðar rakin en saga formæðranna skrifuð í öskuna. Hér segir af fólki sem elskaði og missti, gladdist og hryggðist, tók því sem að höndum bar enda oftast ekki um annað að ræða. Þetta fólk var ekki merkilegra en annað fólk ekki heldur ómerkara. Þjónustan á Bessastöðum, sem eignaðist barn í lausaleik, sýslumannsdóttirin í Fljótshlíðinni og stúlkan af Laxárdalnum, sem flúði með barnið sitt í fanginu yfir mýrar og móa vestur í Ameríku, eru allar horfnar af sjónarsviðinu.
Hólmfríður vitnar í ýmsa rithöfunda í bókinni, meðal annarra Isabel Allende. Hún segir á látlausan hátt frá sínu fólki, en gerir glögga grein fyrir því að sagan er persónuleg og ekki víst að aðrir hafi séð hlutina á sama hátt og hún. Við grípum hér niður í kafla úr bókinni, þar sem Hólmfríður skrifar um móður sína. Sigríði Stefánsdóttur sem var fædd árið 1903.
Mömmu þótti afar vænt um pabba sinn. Það veit ég þvi að hún sagði það oft og sú ást var áreiðanlega gagnkvæm.
Hún sagði mér meðal annars að sig hefði langað mikið að fara í kvennaskóla eins og mamma hennar hafði gert og Hildur, systir hennar. (Bræðurnir voru auðvitað sendir suður í Lærða skólann, útbúnir að heiman með ullarföt til skiptanna og kæfubelgi í nesti.) En pabbi hennar gat ekki hugsað sér að sjá af henni heilan vetur og bauðst í staðinn til að kaupa handa henni orgel. Hún þáði orgelið, sem nýttist henni vel til æviloka, en oft hafði hún á orði að það hefði nú verið gagnlegt að fara í húsmæðraskóla!
Ég held að henni hafi þótt það dálítið leitt að hafa ekki notið sömu skólagöngu og títt var um heimasætur á betri bæjum á þeim tíma þegar hún var ung en víst er um það að orgelið varð okkur öllum til yndis – og henni líka.
Orgelið er enn í ættinni og Dansk melodibog, sem hún spilaði svo oft upúr, er hjá mér, slitin af mikilli notkun. (Dansk melodibog var líka höfð í hávegum í Laxnesi þegar Halldór var að alast þar upp.)
Ég skildi söguna um orgelið alltaf þannig að hún lýsti elsku afa á mömmu en svo brá við þegar ég sagði ömmustelpunum hennar söguna að þær töldu hana skýrt merki um kvennakúgun. Það hafði okkur mömmu ekki komið til hugar.
Mamma sagði líka að Bodda og Imba, bróðurdætur hennar og fóstursystur, hefðu átt það til að segja: „Hvað ætli þú vitir, sem aldrei hefur komið inn fyrir skóladyr.“
Aldrei skal dæma fortíðina með mælistiku nútíðarinnar, svo mikið breytist með tímanum.
Þessi orð sem mamma hafði eftir frænkum sínum, voru auðvitað sögð af barnaskap og eitt er víst að mamma lagði þau ekki út þeim til lasts heldur væri það laukrétt að hún hefði aldrei farið í skóla. En pabbi hennar kenndi henni heima eins og alsiða var fyrr og síðar hjá prestum.
Við systkinin fórum ekki heldur í barnaskóla en þegar við komumst á legg voru breyttir tímar og jafnvel stúlkur settar í menntaskóla eins og raunin var um mig.
En viðhorfsbreytingin var ekki meiri en svo að þegar ég varð stúdent sagði mamma við mig: „Ég ætla að biðja þig fyrir það, Fríða mín, að læra ekki meira. Nóg er nú samt!“
Ég vissi alveg hvað hún átti við. Hún óttaðist að meiri lærdómur yrði til þess að ég mundi pipra eða eitthvað þaðan af verra.“