Góðar konur gleymast

Á Arnarhóli í nýafstöðnu kvennaverkfalli mátti sjá bregða fyrir skilti sem á stóð: Góðar konur gleymast. Þannig vildi til að undirrituð hafði nýlokið við að lesa Aldrei nema kona eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur hugsaði þess vegna; Sveinbjörg hefur tryggt að þessar góðu konur munu aldrei gleymast. Bara það eitt gerir bók hennar verðmæta en þar fyrir utan er hún listavel skrifuð og frábærlega unnin.

Augljóst er að Sveinbjörg hefur kynnt sér vel aðstæður kvenna á seinni hluta átjándu aldar og byrjun þeirrar nítjándu hér á landi. Þær Guðrún Gísladóttir og Steinunn Oddsdóttir, formæður hennar, spretta hér lifandi fram á þessum blöðum. Þótt Aldrei nema kona sé skáldsaga að stórum hluta er hún engu að síður byggð á heimildum og grimmur veruleiki kvenna sem bjuggu við óblíða náttúru, sára fátækt og ofbeldi af hálfu hálfu valdameiri karla.

Þótt allir mótist vissulega af þeim kjörum sem þeim eru búin í þessu lífi er mennska sumra óneitanlega meiri en annarra. Þessar konur misstu börnin sín frá sér ýmist í hendur annarra eða í gröfina og sáu þau jafnvel aldrei aftur. Sorgin hlýtur að hafa verið nístandi þótt vonin um örlítið betri afkomu þeim til handa fylgdi þeim úr garði. Okkur nútímafólki er eiginlega óskiljanlegt hvernig hægt var að lifa af og eygja einhverja hamingju við þessar aðstæður. En Sveinbjörgu tekst að flétta inn í söguna gleði líka. Hvernig þessar konur glöddust við vinnuna, við að finna sér aukast ásmegin og ekki síst þegar þær gátu sýnt öðrum umhyggju. Mörg þeirra verðmæta eru lítils metin í dag og þess vegna er svo hollt að lesa um fólk sem aldrei missir kjarkinn eða vonina.

Það var einhvern veginn svo óskaplega við hæfi að klára síðustu línur þessarar bókar rétt áður en haldið var til mótmæla á Arnarhóli, þar sem krafist var sömu launa fyrir sömu vinnu og útrýmingar kynbundins ofbeldis. Þótt það komi nokkrum öldum of seint fyrir þessar konur er rétt að minnast þeirra á slíkum tímamótum og taka undir með konu sem hélt á skiltinu, Takk mamma. Fyrir þeirra og annarra mæðra óbilandi vinnu og fórnfýsi erum við hér í dag.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 25, 2023 21:59