Litið í bakspegilinn á aðventunni

Markús Örn Antonsson

Markús Örn Antonsson

Markús Örn Antonsson fyrrverandi útvarpsstjóri skrifar

Ég var staddur í plötusafni Ríkisútvarpsins í Efstaleitinu árið 1995. Fletti leitandi í gegnum bunka af lakkhljómplötum, sem skornar höfðu verið með upptökutæki útvarpsins fyrir hálfri öld og síðar. Skyldi þetta vera hún? Jú. Ekki var um að villast. Þetta var mikill hlemmur. Nú væri sennilega nærtækast að segja að platan sé eins og 16 þumlunga pizza að stærð. Þetta var útvarpsupptaka með söng okkar í barnakór Laugarnesskólans um jólin 1953. Ingólfur Guðbrandsson æfði þennan kór og stjórnaði af mikilli hugsjón og alkunnum dugnaði. Þá var ég tíu ára og söng alt-rödd, frekar en sópran, minnir mig. Hljómleikarnir voru haldnir í Laugarneskirkju og á efnisskránni voru jólalög, sem ekki heyrðust mjög oft á þeim árum, svo sem ”Nóttin var sú ágæt ein”, ”Það aldin er út er sprungið” og ”Bjart er yfir Bethlehem”. Ingólfur Jónsson frá Prestsbakka, sem var kennari við Laugarnesskólann, orti ”Bjart er yfir Bethlehem” og var það einmitt barnakór skólans, sem frumflutti ljóð hans við hið fagra sálmalag frá miðöldum. En daglegt líf hjá tíu ára strák í Reykjavík snerist um margt fleira í miðjum desember 1953 en að koma fram á jólatónleikum í hvítri skyrtu með þverslaufu.

Fyrsta götuskreytingin

Við Reykjavíkurbörnin fylgdumst að vonum spennt með fréttum af því að nú ætti í fyrsta skipti að skrautlýsa Austurstrætið fyrir jólin. Fegrunarfélagið, kaupmenn og Rafmagnsveitan tóku höndum saman um að prýða borgina. Búðarglugginn hjá blómaverzluninni Flóru í Austurstræti var útnefndur ”Jólaglugginn 1953” í atkvæðagreiðslu almennings. Skreytingin hjá Flóru var byggð á ævintýrinu um Hans og Grétu. Aðrir eftirtektarverðustu sýningargluggarnir þessi jólin voru í verzlun Haraldar Árnasonar austast í Austurstrætinu, hjá Blómum & ávöxtum og í þriðja sæti var Véla- og raftækjasalan í Bankastræti. Sjálfur var ég alltaf mjög hrifinn af listrænum gluggaskreytingum í skóverzlun Lárusar G. Lúðvígssonar í Bankastræti. Og litli glugginn í Austurstræti með auglýsingabókinni Rafskinnu og rafknúnum jólasveini sem hneigði sig og sneri höfðinu til hægri og vinstri, gladdi augu vegfarenda fyrir jólin. Svo kom Oslóartréð á Austurvöll í þriðja sinn með viðeigandi hátíðarræðum áður en ljósin á því voru tendruð. ”Það er óhætt að segja: Reykjavík hefur aldrei klæðst þvílíkum dýrðlegum ljósaskrúða. Svo sannkölluðum hátíðarbúningi”, skrifaði einn af fastapennum dagblaðanna. ”Eiga þeir sem hér hafa staðið að framkvæmdum miklar þakkir bæjarbúa skyldar. Raddir hafa heyrst um að viðbúið sé að allur þessi ævintýraljómi í miðbænum kunni að verða til þess að mannsöfnuður kunni að safnast þar saman meira en góðu hófi gegnir á gamlárskvöld og láta þar ærilega. En mér finnst óþarfi að ætla Reykvíkingum það illt að þeir láti hátíðarljósin æra sig til nokkurra ódæða. Slíkt væri í senn til skaða og skammar.”

Það lifnaði mjög yfir blaðaauglýsingum enda meiri innflutningur heimilaður en alla jafna: ”Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Jólaávextirnir eru komnir. Ítölsk úrvalsepli, vínber, sæt og safamikil, appelsínur, melónur, greipaldin, konfekt, rúsínur, döðlur, fíkjur”. Ekkert var betri staðfesting á komu jólanna á skömmtunar- og haftaárum en einmitt þessi auglýsing frá Silla og Valda. Ferskir ávextir voru ekki á borðum nema um jólin. Alls ekki fáanlegir. Í bernsku minni var ég vanur að fara með ömmu minni á jólatrésskemmtun. Þá biðum við börnin spennt eftir komu jólasveinanna á skemmtunina, en þeir færðu okkur einmitt epli að gjöf.

Allt útlit var fyrir að jólahaldið í bænum yrði sæmilega ótruflað að þessu sinni. Gleðileg jólafrétt: Gullfoss var væntanlegur til Reykjavíkur 12. desember með 12000 jólatré frá Danmörku. Hin síðustu tvö ár höfðu verið miklir erfiðleikar í sambandi við jólatrjáasöluna. Í annað skiptið varð að kasta öllum trjánum í sjóinn á leiðinni til Íslands vegna smithættu af völdum gin- og klaufaveiki í Danmörku en í seinna skiptið skall á verkfall, sem leystist ekki fyrr en nokkrum dögum fyrir jól. Margt í jólasiðum okkar er upprunnið í Danmörku og dönsk jólalög hljómuðu í í útvarpinu.

 Áramótabrennur í stað skrílsláta

Gagntekinn af sparnaðaranda fannst mér rétt að komast eins ódýrt og kostur væri frá jólagjafakaupum þetta árið. Barnabækur kostuðu allt frá 5 krónum. En svo mátti láta reyna á samspil hugar og handar og búa til eitthvað af eigin rammleik sem skæri sig úr. Tómstundaþátturinn í útvarpinu var alltaf yfirfullur af nýtilegum leiðbeiningum um útskurð, pappírsföndur eða bókband. Klippa, æ, ég klippti skakkt. Líma, ansans, nú sullaði ég líminu yfir allt föndurverkið og ofan á buxurnar mínar. Puttarnir útataðir. Leiðbeinandi tómstundaþáttarins var kominn 2 ½ mín. fram úr mér og þá gafst ég upp.

„Heimatilbúin sápa“ hét fræðsluþáttur, sem kona nokkur flutti í útvarpið. ”Þarna er komin jólagjöfn frá mér í ár,” hugsaði ég og ákvað að búa til lítil og nett sápustykki, fallega innpökkuð, handa mömmu, ömmu og frænkunum. Og þetta gat sjálfsagt líka gengið handa karlmönnum. Kannski sem raksápa? Ég tók vel eftir uppskriftinni á heimalagaðri sápu úr alíslenzku hráefni. Þarna var maður svo sannarlega á þjóðlegum nótum. Hráefnið átti að vera stórgripamör. Hvar fengi ég hana? Eina vonin væri sennilega hjá þeim Gunnari í Von eða Þorbirni í Borg. Ég var málkunnugur þessum kjötkaupmönnum á Laugaveginum. Fyrirhugaðar tilraunir mínum í sápugerð úr stórgripamör voru þó andvana fæddar. Þeim var kröftuglega mótmælt á heimilinu og móðir mín lagði blátt bann við því að hennar eldhús og pottar yrðu notaðir við svo lyktarsterkan heimilisiðnað. Valkvíði minn vegna jólagjafa gekk yfir á Þorláksmessu og framundan voru gleðileg jól. Áramótin voru líka með þeim friðsamari í manna minnum. Blaðið andaði léttar á nýju ári 1954: ”Áramótabrennur í stað skrílsláta settu svip sinn á gamlárskvöld. Ánægjuleg áramót voru um land allt og veður milt og gott. Fjölmenni var á götum Reykjavíkur. Stráklingar höfðu sig lítilsháttar í frammi og tók lögreglan nokkra þá verstu og geymdi fram yfir miðnætti. Þá ók hún þeim heim til foreldra sinna. Ölvun var talsverð eins og vænta mátti.”

 

 

 

 

Ritstjórn desember 21, 2014 10:20