Þorsteinn, þú heldur áfram!

Markús Örn Antonsson

Markús Örn Antonsson

Markús Örn Antonsson fyrrverandi útvarpsstjóri skrifar

Nýlega var ég að vinna að verkefni um norrænt samstarf. Við mér blasti mynd af fánaborg Norðurlandanna fimm, sem einhverjir myndu reyndar segja að ættu að vera sjö eða átta saman. Upp í hugann komu ýmsar leifturmyndir, þar sem þessi tákn norrænnar velsældar blöktu saman hér heima og á erlendri grund. Í seinni tíð hef ég þó tekið eftir að á hinum Norðurlöndunum verður íslenski fáninn æ sjaldséðari við fyrirtæki og stofnanir sem vilja tengja sig við þessi samnorrænu vörumerki, hvað sem því kann að valda.

Það rifjaðist upp fyrir mér, að sjálfur veitti ég félagsskap hinna fimm fána fyrst athygli þegar ég var nýorðinn 8 ára. Þetta var þegar fyrsta samnorræna sundkeppnin var að bresta á; vorið 1951. Íslendingum var mikið í mun að koma sér á framfæri sem alfrjálsri þjóð í norrænum selskap. Það fór af stað þjóðarvakning um að allir sem vettlingi gætu valdið tækju þátt í „buslinu“ eins og það var kallað. Mönnum var uppálagt á að rifja nú upp sundtökin og þeir sem ekki kunnu þau voru settir á námskeið. Ég var í þeim hópi og fjöldi annarra barna á mínu reki.

Öllum tiltækum áróðursmeðulum var beitt

Höfðað var til heiðurs þjóðarinnar og unga fólkinu innprentað að svamla í kjölfar fornkappa, sem lesa mátti um í Íslendingasögum. Ósjaldan bar Drangeyjarsund Grettis Ásmundarsonar á góma í þeirri orðræðu, eða þá sundkeppni Kjartans Ólafssonar og Ólafs konungs Tryggvasonar í Niðarósi. Af síðari tíma sundafrekum var gjarnan rifjað upp Viðeyjarsund og Drangeyjarsund Erlings Pálssonar, sem var yfirlögreguþjónn í Reykjavík á bernskuárum mínum. Við þekktum hann í sjón. Öllum áróðursmeðulum sem tiltæk voru árið 1951 var beitt í blöðum og útvarpsávörpum landsfeðranna til að fylla hjörtu landsmanna, og þó aðallega lungu og þind, eldmóði til að synda 200 metra bringusund samfellt og hjálparlaust og auka þar með hróður og sigurlíkur Íslands á hinum samnorræna vettvangi.

Í tímunum okkar hjá Jóni Inga Guðmundssyni, sundkennara, sem fóru fram í litlu sundlauginni í Austurbæjarskólanum, steig þjóðernisandinn í hæstu hæðir þegar minnst var á 200 metrana og norrænu sundkeppnina. Allt það tal ýtti vafalaust undir hraðari framfarir í sundnáminu en á öðrum námskeiðum fyrr og síðar. Sundkeppnin stóð frá 20. maí til 10. júlí og var rétt að byrja þegar námskeiðinu okkar lauk. Nokkrum tókst að synda 200 metrana og Jón Ingi verðlaunaði okkur með hinu eftirsótta barmmerki keppninnar, þríhyrndu með gulllitum sundkappa á bláum grunni.

Baráttan um konungsbikarinn

Næstu vikur og dagar liðu varla án þess að blöðin flyttu þátttökutölur með úrslitaspám færustu sérfræðinga. Frá upphafi voru Íslendingar taldir eiga góða möguleika vegna almennrar sundkunnáttu en hins vegar var afar torskilinn útreikningur „jöfnunartölu“ fyrir Ísland talinn óhagstæður. Myndir voru birtar af silfurbikar, sem Hákon 7. Noregskonungur hafði gefið til keppninnar og alltaf mátti lesa eitthvað nýtt um sérstakar aðgerðir til að styrkja stöðu landsmanna í baráttunni um bikarinn. Í sundlaugum um land allt voru haldin sérstök námskeið fyrir yngri og eldri, ekki síst þá síðarnefndu sem voru farnir að stirðna í liðunum og fatast sundtökin.

„Við höfum fyrirliggjandi ýmsar gerðir af sundskýlum fyrr karlmenn og drengi. Einnig sundboli fyrir telpur,“ auglýsti einn heildsalinn. Þarna voru fullorðnar konur ekki nefndar á nafn. Við strákarnir pískruðum um það að líklega myndu frúrnar synda allsberar og hlógum ógurlega. En þarna var markhópur sem sérstök ástæða þótti til að gefa gaum. Konur í stétt íþróttkennara hvöttu aðrar konur til sjávar og sveita til dáða og héldu fyrir þær sérstök námskeið sem enduðu með 200 metrunum.

Lygilegar frásagnir af svindli í sundkeppninni

Flugufregnir af alls konar samnorrænu svindli í þessari sundkeppni fóru eins og logi um akur. Þær bárust frá Danmörku og öðrum löndum keppinauta okkar. Sagt var að Danir hefðu heimilað skriðsund, flugsund, baksund og jafnvel hundasund og aðrar heimatilbúnar séraðferðir. Héðan af heimavígstöðvunum gusu líka upp lygilegar frásagnir af því hvernig ósyndu fólki lukkaðist að spyrna sér af tröllauknu afli bakkanna á milli í Sundhöllinni án þess að þurfa að nokkurn tíma að taka sundtökin. Einhver hafði sést á baksundi eða að krola. Sussum svei! Hófst nú mikill spuni um ævintýralegar uppákomur. Kona ein átti að hafa fengið aðstoð eiginmannsins sem synti kafsund undir henni og hélt henni uppi en til hans sást þegar hann kom upp til að anda. Við krakkarnir höfum gaman af lygasögunni um karlinn sem pukraðist með rjómaþeytara „neðansjávar“ eins og utanborðsmótor.

Fólki hafði hlaupið kapp í kinn en almennt var stefnt að íslenskum sigri af miklum metnaði og án þess að hafa rangt við. Við vorum sennilega kaþólskari en páfinn hvað það varðar. Í einu dagblaðanna mátti lesa sögu af gömlum manni sem var að synda tvö hundruð metrana. Þegar hann átti um fimmtíu metra ófarna var hann farinn að blána í framan og bersýnilega alveg að gefast upp. En þá gall við rödd aldraðrar konu á bakkanum: „Þorsteinn, þú heldur áfram!“ Þar var eiginkona hans og rödd hennar hljómmikil og skipandi. Og Þorsteinn gafst ekki upp. Hann lauk sundþrautinni til heiðurs konu sinni og fósturjörð, að sögn blaðsins.

Þar lágu Danir í því

Auðvitað sigruðum við Íslendingar í þessari fyrstu samnorrænu sundkeppni. Úrslitin voru kunngerð um haustið. Manni fannst stigatalan einstaklega fyrirferðarmikil og glæsileg, enda byggð á hinni óskiljanlegu „jöfnunartölu“. Ísland hlaut nefnilega 540555 stig. Á Íslandi tók 24,99% allra landsmanna þátt. Finnar voru í öðru sæti með 6%; Danir í því þriðja með 2,5% þátttöku. Silfurbikarinn konungsnautur var okkar. „Þar lágu Danir í því“ var líka niðurstaða sem Íslendingar hlökkuðu yfir, þegar aðeins sjö ár voru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi og handritadeilan við Dani óleyst!

 

Ritstjórn september 29, 2014 16:10