Síminn, vinátta og ást

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Ég hlustaði nýlega á þáttaröð í BBC um sögu vináttunnar. Þar kom margt fróðlegt og skemmtilegt fram. Meðal annars var sagt frá því að í gegnum söguna voru það fyrst og fremst karlmenn sem bundust vináttuböndum. Þeir mynduðu með sér bræðralög af alls kyns gerðum: hernaðarbandalög, stjórnmálabandalög, iðnaðarbandalög, og líka Frímúraregluna, Oddfellow, Lions og Rotary hreyfinguna, svo nokkur vel þekkt karlasamtök séu nefnd. Konur tengdust hins vegar fyrst og fremst sínum nánustu, foreldrum og systkinum, mökum sínum, börnum og barnabörnum, enda voru þær fáar konurnar fyrr á tímum sem létu að sér kveða utan heimilisins.

Iðnbyltingin og þróun borga sem fylgdi í kjölfarið, breytti miklu fyrir konur hvað kvennavináttu varðar. Oft fluttu þær einar síns liðs úr sveit í borg í leit að vinnu og þurftu að reiða sig á stuðning óskyldra, og þá oftast annarra kvenna, til að hafa það af. Það var margt annað fróðlegt um vináttu kvenna sem kom fram í þáttum BBC, en það sem mér fannst einna skemmtilegast var að heyra um áhrif símans á eflingu kvennavináttu á tuttugustu öld. Það var eitthvað sem ég kannaðist afar vel við.

Á æskuheimili mínu var sérstakt símaherbergi, og oftar en ekki hvarf mamma þar inn og dvaldi langdvölum við að tala við vinkonur sínar, oft okkur systrum til mikillar armæðu. Símaherbergið var helgur staður og aðeins mátti trufla mömmu þar þegar stórslys hafði átt sér stað. Amma talaði líka mikið við vinkonur sínar í símann. Síminn hjá henni var í holi, sem var svo lítið að þar komst ekki fyrir stóll, svo amma stóð alltaf þegar hún talaði í símann. Holið var teppalagt, en amma hafði breitt litla mottu á gólfið fyrir framan símann, þar sem hún stóð. Ég taldi hana hafa gert það til að hafa mýkra undir fæti, en einn af tengdasonum ömmu sagði að hún hefði sett mottuna á þennan stað til að breiða yfir slitið sem gólfteppið hefði orðið fyrir öll þau ár sem hún hafði staðið og talað við vinkonur sínar í símann. Ég vissi ekki hverju ég átti að trúa, en ég hafði aldrei hugrekki til að kíkja undir mottuna til að ganga úr skugga um hið rétta í málinu.

Þegar amma eltist urðu símtölin færri og styttri, en að sama skapi urðu ferðir hennar og afa í jarðafarir æ fleiri. Þau skráðu jarðafarirnar samviskusamlega í dagatalið sitt og á tilteknum dögum gengu þau prúðbúin arm í arm út úr húsinu sínu við Ásvallagötuna, tóku stefnuna til norðurs upp Bræðraborgarstíginn þar til þau komu að Túngötunni. Þaðan gengu þau eins og leið lá fram hjá Landakoti, rússneska sendiráðinu, Hjálpræðishernum og Alþingishúsinu að Dómkirkjunni. Að athöfn og erfidrykkju lokinni gengu þau heim sömu leið og fóru sér hægt. Það var sárt að kveðja gamla vini.

Einn dag sem oftar fóru þau í jarðaför í Dómkirkjunni. Þau voru fyrstu gestirnir og voru svolítið hissa þegar kona, með hlýlegt bros á vör, bauð þeim að taka af sér yfirhafnirnar. Slíkt tíðkaðist ekki við jarðarfarir, en þau réttu konunni þegjandi yfirhafnir sínar og settust í sín föstu sæti. Brátt fylltist kirkjan af prúðbúnu fólki og könnuðust þau við fáa. En það var bara eins og gengur, og það var ekki fyrr en brúðgumi og faðir hans tóku sér stöðu við altarið að þau áttuðu sig á því að þau höfðu farið dagavillt og voru nú lent í brúðkaupi en ekki í jarðaför.

Þau voru að vonum felmtri slegin, en þar sem þau vildu ekki vekja athygli að mistökum sínum sátu þau sem fastast, en um leið og athöfninni lauk, létu þau sig hverfa og gengu saman heim, arm í arm. Ekki veit ég hvað fór þeim á milli á leiðinni heim, en ég hef leyft mér að ímynda mér að þau hafi verið sporléttari en venja var og léttari í lund. Ég hef líka leyft mér að ímynda mér að þau hafi farið að rifja upp sín fyrstu kynni, en þar kom síminn heldur betur við sögu. Sem ungur maður rak afi kaupfélag í Landeyjum. Eitt sinn þurfti hann að senda vistir með báti til Vestmannaeyja og hringdi á símstöðina þar. Þar var amma símamær og svarði í símann. Afa fannst þessa unga kona hafa svo fallega rödd að hann hét því að bregða sér til Eyja við fyrsta tækifæri og kíkja á hana. Sem og hann gerði og þegar hann sá hana, þá vissi hann, eins og hann sagði mér síðar, “hver yrði móðir barnanna hans.”

 

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir janúar 2, 2015 10:00