Jólin hér og nú

Inga Dagný Eydal.

Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur skrifar

Ég ætti kannski að taka það fram í byrjun þessara skrifa að ég er ekki trúuð kona. Samt held ég jól og þau eru mér mikils virði. Og þótt ég trúi því ekki að Jesú hafi fæðst í desember eftir stutta meðgöngu, verið eingetinn og að hann hafi frelsað heiminn,- þá trúi ég á ljósið og kærleikann. Og þess vegna held ég jól. Og þannig trúi ég á birtuna sem er bæði forsenda fyrir lífinu öllu og þá sem á sér líka stað í huga fólks. Það er birtan í hugum þeirra sem eru með kærleik í hjartanu og kunna að sýna einlæga samhyggð með öðru fólki. Þar skín ljós sem er vel sýnilegt í því sem það segir og gerir.  Þetta fólk finnum við næstum því hvar sem er í samfélaginu en þó kannski mest og best í hópi þeirra sem vinna við að annast um annað fólk.

Þess vegna finnst mér vel við hæfi að taka þátt í hátíðahöldum þessarar gömlu sólstöðuhátíðar með því að fagna ljósinu. Leyfa birtunni að ná til okkar í skammdeginu, skreyta umhverfið með ljósum en líka að leyfa þeim að ná svolítið lengra inn á við. Jólin geta verið tími tilfinninga, -gleði, sorgar, kvíða, hamingju, samkenndar og eiginlega allrar flórunnar,- líka tilfinninga sem við skiljum ekki alveg og kunnum ekki að nefna.  Og  það er allt í lagi, það er einmitt frábært að eiga tíma til að sættast við allar þessar flóknu tilfinningar okkar.

Við viljum samt helst eiga gleðilega jólahátíð og góðar stundir með þeim sem við elskum. Þannig voru jólin sem við mörg hver upplifðum í bernsku og það eru tilfinningarnar sem við viljum að tengist jólunum.  Við munum eftir óþreytandi mæðrum sem bökuðu, skreyttu og pökkuðu inn og við viljum svo fyrir alla muni vera líka óþreytandi dugnaðarforkar í desember. Við viljum skapa umgjörð fyrir allar góðar minningar, hafa ilm af krásum og þrifum og dýrðlegum veislum þar sem allt er fullkomið og gott. Við viljum gefa góðar gjafir sem hitta í mark og gleðja og þar sem við erum jú fædd með þörf fyrir að bera okkur saman við aðra, viljum við líka vera samkeppnishæf í jólaævintýrinu. En svo er bara svo margt sem gleymist í öllum þessum væntingum um dásamlega tíma. Mörg okkar eru þreytt í skammdeginu, streitan í samfélaginu er yfirþyrmandi,  við borðum góðgæti allan ársins hring, við eigum allt sem við þurfum, það er erfitt að gera okkur dagamun. Svo eru líka margir sem búa við skort, og skorturinn er sérstaklega sár á jólunum. Aðrir eru einmana eða sorgmæddir. Nú svo eru þessar óþreytandi mæður og feður bara í fullri vinnu, námi og félagsstörfum, þau eru að skutla í fimleika og handbolta í skammdegisumferðinni og þau eru í tölvunni sinni að fara yfir póstinn sinn,- lífið þeirra er flókið. Það eru nýjar forsendur í jólahaldinu og við getum einungis minnst fyrri tíma, ekki endurlifað þá.

Líf formæðra okkar var sjálfsagt líka flókið og ég veit ekkert hvernig þær fóru að þessu en samanburður við þær og við fyrri tíma er gagnslaus. Dugnaður þeirra er falleg minning en á kannski ekkert skylt við okkar veruleika. Núið okkar er núna og flest horfumst við í augu við það að ef að jólin eiga að ná að skína inn í hjartað og vera tími gleði og samveru þá verðum við að forgangsraða. Skoða vandlega hvað skiptir okkur mestu máli að gerist á jólunum og gera það. Sleppa hinu. Sleppa því sem við gerum af því að við höldum að við eigum að gera það og gera bara það sem gleður okkur og okkar. Gefa upplifanir eða vinargreiða í stað þess að kemba internetið við að reyna að finna eitthvað handa þeim sem á allt. Og gefast svo upp og gefa peninga eða inneign á kreditkorti sem er ekki jólagjöf heldur tilfærsla á fjármunum.

Farsóttin skapar okkur umgjörð um þessi jól líkt og í fyrra og vissulega er það slæmt en við getum líka tekið það sem er gott úr þeim aðstæðum svo sem það, að tími stórra fjölskylduveisla og jólaboða er sannarlega ekki núna. Meira að segja jólahlaðborðin eru. með nýju sniði. Núna er tími til að gleðjast með okkar allra nánustu og ef það gleður okkur mest að hámhorfa á Netflix með konfektskálina nærtæka, þá eru það bara góð jól. Ein helgi af því að gera það sem við leyfum okkur ekki að öllu jöfnu.

Þriggja ára sonarsonur minn sagði við mig þar sem ég sat og skrollaði í símanum mínum fyrir nokkru, ,,amma viltu hætta að vinna núna” og það er góð áminning.  Hættum að vinna í “símanum”, hættum að brasa svona mikið og verum raunverulega til staðar um stund.

Gleðileg jól.

Inga Dagný Eydal desember 20, 2021 07:30