Minningar

 

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig T. Sæmundsdóttir, fyrrverandi ritstjóri skrifar.

Ein af mínum fyrstu minningum er frá því að ég var fjögurra ára og við fjölskyldan fluttumst frá Patreksfirði til Hafnarfjarðar. Við vorum fimm systkinin, tveir drengir og þrjár stúlkur, og sjötta barnið á leiðinni. Ákveðið var að við systur færum saman suður með millilendingu í Stykkishólmi. Reyndar var um raunverulega millilendingu að ræða þar sem við flugum að vestan með Catalinaflugbáti sem lenti á sjónum framan við þorpið. Ætlunin var að við dveldum um tíma hjá Franciskussystrunum, sem þá ráku sjúkrahús í Stykkishólmi, en mamma kæmi síðan landleiðina á eftir okkur. Ég var yngst okkar systra en þær voru sex og sjö ára þegar umrætt ferðalag var farið. Ég man ekkert eftir fluginu en veit að við systur vorum einar á ferð. Ég var í fallegri kápu og með húfu í stíl og systur mínar voru líka mjög fallega klæddar. Pabbi sigldi með fisk á markaði erlendis og hafði keypt úti í hinum stóra heimi fallegu fötin sem við klæddumst.

Þegar vélin var lent á sjónum var systrum mínum fyrst hjálpað um borð í bát sem sótti okkur að flugvélinni. Ég var hins vegar svo lítil að bátsverjar þurftu að teygja sig eftir mér og mér var hálfpartinn hent í fangið á þeim. Ég var skelfingu lostin en grét ekki. Þrjár nunnur stóðu á bryggjunni og biðu eftir okkur. Þær voru klæddar í sinn hefðbundna hvíta nunnubúning og í gráum skósíðum skykkjum yfir. Þegar okkur systrum hafði verið hjálpað upp á bryggjuna tóku þær á móti okkur með opinn faðminn og hver og ein þeirra breiddi gráu skykkjuna sína yfir eina litla stelpu. Hlýtt faðmlag þeirra sýndi að við vorum velkomnar og ekkert var að óttast.

En ég man bara ekki hvort við vorum hræddar. Ég man ekki eftir flugferðinni eða farangri og ég man heldur ekki hvort ég var enn með húfuna á höfðinu þegar ein systirin tók mig í fangið. Og ég hvorki man eða veit hvort aðrir fullorðinir voru með okkur um borð. Það er langt síðan ég hef hugsað um þetta ferðalag okkar systra og ég veit satt að segja ekki hvað af framansögðu eru mínar eigin minningar. Trúlega hafa systur mínar lagt sitt til sögunnar enda hafa þær vafalaust verið eftir á frekar til frásagnar en ég. Það er heldur ekki ólíklegt að nunnurnar hafi sagt mömmu frá upplifun sinni af ferð okkar systra og hún seinna meir sagt okkur frá þessu óvenjulega ævintýri. Sjálf hef ég síðan sagt frá þessari frægðarför og vafalaust bæði stílfært og bætt við til þess að gera frásögina meira lifandi og skemmtilega. Auðvitað er misjafnt hvað situr eftir í minninu og trúlegt að stórviðburðir, áföll eða ævintýri lifi áfram með okkur í einni eða annarri mynd.

Við lifum sannarlega óvenjulega tíma enda geisar heimsfaraldur sem ekki sér fyrir endann á. Reyndar er ég bjartsýn að eðlisfari og er sannfærð um að fyrr en varir muni finnast bóluefni þannig að við getum lifað óhult. Minningar frá þessum tíma eiga örugglega eftir að lifa lengi í allskonar myndum. Fjölmiðlar skrá söguna frá degi til dags og rithöfundar munu skrifa bækur þar sem veiran og ýmislegt henni tengt kemur fyrir. Eins eigum við eftir að sjá fleiri en eina kvikmynd þar sem faraldurinn er aðalefnið. En eins og jafnan í lífinu þá gerist ýmislegt sem hefur áhrif á líf okkar og tilveru en er hvergi fest filmu eða skrifað niður. Og öll þessi litlu atriði hafa varanleg og mótandi áhrif á okkur ekki síður en stórviðburðir þó fordæmalausir séu.

Unglingarnir sem í haust hefja nám í framhaldsskóla standa frammi fyrir allt öðrum veruleika en þau áttu von á að mæta. Þau fá ekki að sækja tíma í skólanum nema mjög stopult, þeim býðst ekki að hitta félagana í mötuneytinu og hlæja og njóta lífsins meðan setið er að snæðingi. Eins og staðan er núna verða heldur ekki haldin hefðbundin nýnemaböll þar sem þau skemmta sér, sýna sig og sjá aðra. Og þar með er ég komin að kjarna málsins í þessum stutta pistli mínum: Hverjar verða þeirra minningar frá þessum fordæmalausu tímum. Verða það minningar sem eru mótaðar af hefðum sem hafa viðgengist, minningar af ástandinu eins og það er eða kannski minningar sem endurspegla ástand sem þau helst vildu að hefði ríkt? Best gæti ég trúað að þegar þau rifja seinna meir upp þennan tíma myndu þau eftir skemmtunum í skólanum, partíum með skólafélögunum, sigrum og ósigrum yfir námsefninu og síðast en ekki síst vináttuböndum sem hafa bundist fyrir lífstíð. Því að þegar kemur að minningum þeirra er veiran löngu gleymd og grafin og helst handþvottur og mikið hreinlæti sem minna á að hér ríktu “fordæmalausir tímar”.

Gullveig Sæmundsdóttir september 28, 2020 07:34