Hendið beltinu eftir breytingaskeiðið

Heiðar Jónsson

Konur fara gjarnan að safna á sig kviðfitu þegar aldurinn færist yfir og verða svo gott sem mittislausar. Þær geta fengið ístru þó þær fitni að öðru leyti ekki sérstaklega.  „Þá er kominn tími til að leggja beltinu“, segir Heiðar Jónsson snyrtir, sem hefur áratugum saman kennt konum hvernig þær eigi að klæða sig, miðað við vaxtarlag. En almennt segir hann klæðnað spurningu um stíl. Áttræð kona geti klætt sig eins og hún væri tvítug, á meðan fertug kona gæti ekki gert það. Sem dæmi um þetta tekur hann Yoko Ono.  „Hún er lítil og fíngerð kona, sem ætti ekki að bera stóra fylgihluti sem bera hana ofurliði. En hún notar stóra fylgihluti, alltof stórar töskur, stóra hatta og stór sólgleraugu. Er alltaf með stór belti sem bera hana ofurliði. En hún getur gert þetta af því að hún er Yoko Ono“, segir hann hlæjandi.

Þarf að draga athyglina frá mittisleysinu

Það gæti komið að því að þessi kona yrði að henda beltinu

„Ef konur eru komnar með ístru, verða þær að horfa gagnrýnum augum á vaxtarlag sitt í speglinum“, segir Heiðar. „Ef mittið er farið þarf að horfa á það sem er fallegt við manneskjuna. Er hún með fallega fætur, eða góðan barm? Hún þarf að klæða sig þannig að það dragi athyglina frá göllunum, að því sem prýðir hana. Hún þarf svo að vera í eins háum brjóstahaldara og mögulegt er til að aðskilja barm og ístru, sem vilja renna saman. Axlasniðið skiptir máli fyrir konuna sem er mittislaus, þannig að flíkin fari vel yfir herðar og axlir. Ég hef aldrei skilið að föt í stórum stærðum séu til dæmis með púffermum. Það er stórfurðulegt og óklæðilegt fyrir konu sem er stór og mikil“, segir hann.

Fáar konur halda mittinu

Heiðar segir að það sem skipti meginmáli sé að draga athyglina frá mittisleysinu að til að mynda fallegum fótleggjum og barmi. Hann segir líka ástæðu fyrir konur sem eru farnar að eldast að klæðast kjólum með ermum. Armarnir séu farnir að láta á sjá og þær þurfi ermar „En ekki púffermar“, ítrekar hann. „Ég get tekið sem dæmi mittislausa eldri konu sem var vön að skarta skrautlegum beltum. Hún getur það ekki lengur, en hún getur farið í rauða skó við einlitan fatnað og verið með rauðan stóran skartgrip ofarlega á barmi undir öxl“, segir hann og bætir við að það sé ekki algilt að konur missi mittið eftir breytingaskeiðið, en konurnar sem haldi mittinu fram eftir öllum aldri séu fáar.

Hér er „Wrap around“ eða „slå om“ kjóll

Allar konur ættu að eiga svona kjól   

Sem dæmi um fatnað sem henti konum sem hafa orðið að sjá á eftir mittinu eftir breytingaskeiðið, nefnir Heiðar litla jakkann sem nær ekki niður í mitti, yfir kjól. Einnig fallega kjóla utanyfir þrengri flík sem kemur niður undan kjólnum.  Hann segist vera mikill aðdáandi kjóla eftir Diana von Furstenberg. „Hún er sú sem gerði skyrtukjólinn sem fer í kross og er bundinn út á aðra hliðina. Allar vel klæddar konur ættu að eiga svona flík“, segir hann. Kjólinn sem gengur undir heitinu „wrap around dress“, þarf ekki að binda í mittinu. Það er hægt að binda hann fyrir ofan eða neðan mitti.

Fleiri flíkur má nefna sem alltaf er gott að hafa við hendina, ef mittislausar konur vilja klæða sig uppá. Heiðar nefnir Kennedy jakkann yfir kjól, hvort sem er stuttan eða niður fyrir mitti. Þá skipti ermasídd jakkans líka máli. Túnikur má nota yfir hvers konar fatnað og sama gildir um falleg sjöl, þau geta gert mikið fyrir allar konur og klætt af þeim fitu sem hefur safnast á magann.

 

Ritstjórn maí 29, 2023 22:15