,,Gott að vera sinn eigin herra“

Séra Sigurður í fullum skrúða á Skálholtshátíð.

,,Besti tíminn til að huga að starfslokum þínum er áður en forstjórinn fer að hugleiða þau,“ var haft eftir viturri konu eitt sinn.

Þó að þessi spakmæli séu höfð í huga þá eru þeir ekki margir sem ákveða að fara á eftirlaun áður en 60 ára aldrinum er náð. Séra Sigurður Kr. Sigurðsson gerði það og það var þó enginn forstjóri sem hafði þau völd í hans lífi að hugleiða starfslok Sigurðar. Þetta var ákvörðun hans og Kristínar Jóhannesdóttur, konu hans. Sigurður var búinn að vera sóknarprestur á Höfn í Hornafirði í 21 ár og Kristín organisti og kórstjóri á Höfn.

Stutta sagan

Hvers vegna ákvaðstu að hætta störfum svona snemma, Sigurður?

,,Þetta var nú ekki nein skyndiákvörðun og átti sér nokkurn aðdraganda. Er ekki alltaf góð saga á bak við allar ákvarðanir? Stutta sagan snýst um börnin okkar og barnabörnin. Við eigum þrjú börn og átta barnabörn á aldrinum 6 árs til 18 ára sem öll bjuggu þá í Reykjavík og við Kristín bjuggum á Höfn í Hornafirði. Fjarlægðin var mikil og okkur langaði að vera nær börnunum, ekki síst barnabörnunum, að fá að sjá þau vaxa og dafna. Þannig að við vorum farin að ræða þessi mál árið 2014 þegar ég var bara 59 ára gamall. Ég lagði töluverða vinnu í að skoða kosti og galla þess að hætta og auðvitað ekki síst í að skoða lífeyrissjóðsmálin. Ég var á gömlu 95 ára reglunni og gat þess vegna látið af störfum árið 2016 og haldið fullum réttindum ekki nema 61 árs. Eftir að hafa hugsað mig vel og vandlega um þá ákvað ég að nýta mér þessi réttindi og sagði starfi mínu lausu. Lengri sagan er kannski bara líf mitt og hver ég er og hvernig ég hef lifað lífinu.“

Lengri sagan

Eigum við þá ekki að skoða lengri söguna til að byrja með?

,,Ég er einn af þeim lánsömu í lífinu og átti góða æsku og fékk gott uppeldi. Við bjuggum á Grímsstaðaholtinu fyrstu ellefu ár lífs míns en þá tók Bústaðahverfið við okkur og þar bjó ég unglingsár mín. Leiðin lá í Menntaskólann við Tjörnina og þaðan útskrifaðist ég á tuttugasta aldursári 1975. Ég hafði enga hugmynd um hvað mig langaði að gera í lífinu og var í sjálfu sér ekki með neinar framtíðaráætlanir. Mér bauðst vinna á verkstæði sem kallaðist Sedrus og þar vann ég við húsgagnabólstrun. Yfirmaður minn stakk upp á því við mig að fyrst ég væri að vinna við þetta fag þá væri kannski bara upplagt að ég myndi fara í Iðnskólann í Reykjavík og læra húsgagnabólstrun sem ég og gerði. Vandamálið var að iðnnemakaupið var mjög lágt og þar sem ég var kominn með fjölskyldu þá var náminu sjálfhætt. Ég og fyrri konan mín vorum búin að eignast dreng, Hauk, áður en ég varð tvítugur og það var ekkert annað að gera en að taka það hlutverk alvarlega og bera ábyrgð á þessari litlu fjölskyldu. Eftir á að hyggja þá er ég viss um að ég hefði haldið áfram í húsgagnabólstruninni ef aðstæður hefðu verið aðrar því ég hafði mjög gaman af þessu fagi. Ég skoðaði ýmislegt eins og t.d. blaðamennsku sem heillaði mig en það kom nú ekkert út úr því. Þarna var ég 21 árs fjölskyldufaðir í leit að launaðri vinnu svo ég gæti séð fjölskyldunni farborða.“

Lögregluskólinn

,,Ég átti góðan vin, Eirík Hrein Helgason, sem var byrjaður í lögreglunni á þessum tíma og hann hvatti mig til að sækja um og mér fannst þetta fyrirtaks hugmynd og í raun nokkuð heillandi svo ég sótti um og fékk inni. Ég var síðan í lögregluskólanum frá 1976-8 en kosturinn við þetta nám var að maður fór strax á laun og það hentaði mér vel. Ég fékk vinnu hjá lögreglunni í Reykjavík. Skólinn var skemmtilegur og starfið reyndist vera það líka og í raun var þetta ævintýri fyrir ungan mann. Á þessum árum var mikil vinna í lögreglunni því það vantaði fólk og ekkert þak á yfirvinnu og ég man eftir að hafa unnið allt að 35-40 tíma vaktir í einu. Manni fannst það nú kannski ekkert mál þá en í dag sér maður að þetta var algert brjálæði þótt mér hafi líkað mjög vel í vinnunni.”

Þórshöfn á Langanesi – sveitarstjórinn

Hjónin Kristín og Sigurður í fermingarveislu árið 2018.

,,Þegar ég hafði lokið skólanum, sumarið 1978, var ég beðinn um að leysa af einn mánuð í lögreglunni á Þórshöfn á Langanesi sem ég ákvað að gera. Mér fannst það bara enn eitt ævintýrið í mínu lífi að prufa að vera lögreglumaður í litlu plássi úti á landi. Það gekk allt vel en þar var ég auðvitað einn á vakt svo maður var í vinnunni allan sólarhringinn. Þegar mánuðurinn var liðinn og ég á leiðinni suður þá var ég hvattur til að sækja um starf sveitarstjóra á Þórshöfn. Eftir að hafa ráðfært mig við konuna mína þáverandi sótti ég um starfið og fékk. Mér fannst spennandi að prufa eitthvað nýtt en það er eitt af því sem hefur einkennt allt mitt líf.

Það var mikið að gera í framkvæmdum á Þórshöfn á þessum tíma, bæði gatnagerðar- og hafnarframkvæmdum. Ég varð stjórnarformaður Útgerðarfélags Þórshafnar fyrir hönd sveitarfélagsins en fyrirtækið var á hausnum svo við fórum í það að selja togarann og náðum því áður en fyrirtækið fór í gjaldþrot.

Þessu ævintýri lauk svo í mars 1979 og við fluttum aftur til Reykjavíkur. Bæði var það þannig að mér fannst sjálfum nóg komið og konan vildi fara. Ég saknaði lögreglustarfanna og þegar það kom í ljós að ég gæti fengið vinnu aftur hjá lögreglunni í Reykjavík ákváðum við að fara frá Þórshöfn. Það var mjög gaman og gefandi að búa þarna og ég lærði margt af þeirri dvöl og kynntist mörgu góðu fólki.“

Lögreglan og Söngskólinn

Þegar Sigurður flutti til Reykjavíkur eftir dvölina á Langanesi tók við sex ára tímabil þar sem hann starfaði við ýmis lögreglustörf.

,,Ég kom víða við í lögreglunni á þessum árum. Byrjaði í almennri löggæslu og síðan í umferðardeildinni, fór svo þaðan í rannsóknarlögregluna og var þar aðallega við að rannsaka umferðarslys. Það var mikið að gera í öllum þessum deildum og mér líkaði starfið í sjálfu sér ágætlega. Þó kom að því að mér fannst þetta vera orðin of mikil endurtekning, eins og ég væri alltaf að skrifa sömu skýrsluna og mig langaði einfaldlega að gera eitthvað annað. Mér fannst starfið ekki reyna nógu mikið á mig. Þegar svona fræ er búið að sá sér og það farið að dafna þá á maður að fara. Ég var í raun búinn að fá nóg. Svo ég ákvað að hætta og gerði það.

Á þessu tímabili gerðist ýmislegt annað spennandi og skemmtilegt í mínu lífi – annað en vinnan. Ég eignaðist annað barn mitt, hana Auði 1978, og svo skráði ég mig í Söngskólann í Reykjavík haustið 1980. Það vildi svo skemmtilega til að vinur minn Eiríkur Hreinn, sem hvatti mig til að fara í lögregluskólann á sínum tíma, hafði enn og aftur afgerandi áhrif á líf mitt með því að hvetja mig til að taka inntökupróf í Söngskólann. Hann dró mig þangað í raun og veru. Ég var svo lánsamur að komast í skólann og á árunum frá 1980 – 85 tók ég 7 stig í söngnáminu samhliða fullri vinnu. Áttunda stigið var bara eftir þegar líf mitt tók enn og aftur nýja stefnu.

Auðvitað var þetta mikið álag að vera í fullri vinnu, fullu námi og með tvö lítil börn svo segja má að eitthvað hafi þurft að láta undan og við hjónin ákváðum að fara í sitt hvora áttina árið 1983. Ævintýrin héldu þó

Sigurður hefur leikið með Leikfélagi Kópavogs eftir að hann flutti frá Höfn. Hér er hann að leika á harmóniku á æfingu í leikritinu Fjallið.

áfram að banka upp á hjá mér og ég kynntist núverandi eiginkonu minni, Kristínu, eftir það en hún var í kennaranámi í Söngskólanum á sama tíma og ég var í söngnáminu. Við giftum okkur síðan árið 1986. Kristín var organisti í Víðistaðakirkju á þessum tíma og hún hvatti mig til að koma í kirkjukórinn sem ég og gerði. Þar kynntist ég kirkjustarfinu og smám saman fór trúin að þróast með mér sem leiddi til þess að ég ákvað að fara í guðfræði í Háskóla Íslands haustið 1985.

Til gamans má geta þess að ég ákvað að hætta í lögreglunni vorið 1985 því að ég var búinn að bíta það í mig að ég ætlaði að hætta og ég er þannig gerður að þá vildi ég bara hætta um leið og ég mátti. Þetta var auðvitað alger heimska því ég stóð uppi atvinnulaus og um leið launalaus. Ég var þó svo heppinn að fá starf sem strætisvagnabílstjóri um sumarið á helmingi lægri launum en ég var á í lögreglunni en þetta voru þó laun.

Plönin mín voru þau að fara í guðfræðina og taka áttunda stigið í söng samhliða en ég komst fljótlega að því að hvort tveggja er full vinna svo ég varð að velja. Það var ekki erfitt val en ég á enn eftir að taka áttunda stigið! Til gamans má þó nefna að vorið 1984 dró Eiríkur Hreinn, vinur minn títtnefndur, mig til Vínar þar sem hann var við söngnám. Þar fékk ég að syngja fyrir Svanhvíti Egilsdóttur sem og nokkra aðra merka kennara. Það varð ekkert meira úr þessu annað en yndisleg minning sem ég geymi með sjálfum mér. Því má heldur ekki gleyma að ég fékk guðfræðina í staðinn og það er mér nóg. Ég hef aldrei séð eftir þeim skiptum.“

Langaði þig til að verða söngvari að atvinnu?

,,Já, ég verð að viðurkenna það. Mér fannst það spennandi hugmynd þó að ég vissi að ég væri ekki neinn stórtenór en hugsanlega kæmist ég að sem kórsöngvari í einhverju óperuhúsinu í Evrópu. Örlögin höguðu því þó þannig að mér var ætlað að fara í guðfræðina og þá tók við enn eitt ævintýrið.“

Presturinn

Sigurður útskrifaðist úr guðfræðideild HÍ árið 1990. Hann náði því að verða skipaður sóknarprestur áður en hann útskrifaðist formlega úr Háskóla Íslands. Hvernig atvikaðist það?

Sigurður gaf saman þessi ungu brúðhjón árið 2009 í Háteigskirkju en það voru þau Sólveig dóttir hans og Kristján tengdasonur hans.

,Ég kláraði námið vorið 1990 og í lok maí rann út umsókn um starf sóknarprests í Grundarfirði. Ég mátti ekki sækja um starfið þar sem ég hafði ekki lokið vörn í lokaritgerðinni minni sem ég tók reyndar þennan sama dag. Þegar í ljós kom að ég hafði staðist prófið, fékk ég það uppáskrifað frá prófdómara. Með þann miða fór ég á skrifstofu skólans og fékk formlegt vottorð um að ég hefði staðist öll próf. Með það vottorð í vasanum fór ég á Biskupsstofu og sótti um brauðið, ásamt tveimur öðrum, en var svo lánsamur að fá embættið. Það vildi þó svo skemmtilega til að þann 14. júní var ég skipaður sóknarprestur í Grundarfirði. Ég var svo vígður 24. júní en útskriftin var ekki fyrr en 30. júní.  Það vildi reyndar svo til að ég gat ekki mætt í mína eigin útskrift þar sem ég var að gefa saman hjón í Víðistaðakirkju á sama tíma  og skólafélagar mínir voru að taka á móti skírteininu. Presturinn hafði forfallast og bað mig að bjarga málunum og gefa þetta unga par saman og ég gat ekki skorast undan því. Ég hef alltaf séð pínulítið eftir því að hafa ekki verið við útskriftarathöfnina og tekið á móti prófskírteininu sem ég hafði unnið fyrir í fimm ár.“

Grundarfjörður

Sigurður og Kristín fluttu til Grundarfjarðar, ásamt dóttur þeirra Sólveigu sem þeim fæddist árið 1988, og bjuggu þar í fimm ár eða allt fram til ársins 1995.

,,Árin okkar fimm í Grundarfirði voru góð og það er gott að búa á þessum yndislega stað. Þar voru tvær kirkjur sem ég þjónaði og Kristín fékk strax vinnu við grunnskólann en að auki stjórnaði hún barnakór þar. Starfið kom mér í sjálfu sér ekkert á óvart því segja má að ég hafi kynnt mér kirkjulífið vel á meðan á náminu stóð.

Ég eignaðist saxófón fljótlega eftir að við fluttum vestur og ég fór að læra á hann en ég hef spilað á saxófón allar götur síðan.

Fólkið var gott og okkur leið vel þarna en mig langaði að prufa ný ævintýri og í september 1995 fluttum við á Höfn í Hornafirði og ég tók við sóknarprestsembættinu þar.“

Höfn í Hornafirði

Sigurður leikur nú með Lúðrasveit Hafnarfjarðar en hér er sveitin í skemmtilegri ferð til Ítalíu

Sigurður og Kristín bjuggu í 21 ár á Höfn. Þar biðu þeirra ný og spennandi ævintýri – jafnvel fleiri en þau bjuggust við þegar þau lögðu land undir fót. ,,Hornfirðingar tóku óskaplega vel á móti okkur og við áttum rúm 20 yndisleg ár þar. Ég vann öll hefðbundin preststörf og Kristín kenndi við grunnskólann en þegar organistinn hætti tók hún við starfinu með öllu því sem því fylgdi. Tónlist hafði alltaf verið stór hluti af okkar lífi en nú skellti ég mér á fullt í spilamennskuna. Ég fór í tónlistarskólann á Höfn og lærði á trommur í tvo vetur og í kjölfarið stofnuðum við fimm félagar Mæðusveitina Sigurbjörn sem spilaði blús. Við vorum fjórir í bandinu sem hétu Sigurður og svo var einn Björn. Auk þessa spilaði ég með á saxófón í jazz bandi og á gítar með danshljómsveitinni Púkar og prelátar en í hljómsveitinni spiluðu báðir prestarnir í sýslunni, ég og sr. Einar Jónsson prestur á Kálfafellsstað. Auk þess spiluðum við Einar í Spilafjelagi Suðursveitar og nágrennis ásamt Þóri Ólafssyni bassaleikara og Vilborgu Þórhallsdóttur söngkonu. Auk þess spilaði ég öll árin með Lúðrasveit Hornafjarðar.

Árin á Höfn voru mjög góð og við eignuðumst marga góða vini þar. Það var mikið um að vera en auk þess að vera í þessum hljómsveitum þá gekk ég til liðs við Leikfélag Hornafjarðar og Leikhópinn Mána nánast strax og lék með þeim eiginlega öll árin mín þar. Segja má að ég hafi notið lífsins eins vel og hægt var þessi ár.

Við fengum bæði námsleyfi árið 2004 sem við nýttum okkur og fórum ásamt Sólveigu til Minnesota í Bandaríkjunum í Luther Seminary sem einn stærsti guðfræðiskóli Lútersku kirkjunnar vestan hafs. Ég var gestafræðimaður í eitt ár og Kristín nam kirkjutónlist en að auki sungum við í skólakórnum. Þetta var mjög góður tími.“

Hljóðfæraviðgerðir og önnur ævintýri

Nú eru liðin nokkur ár frá því þú hættir að vinna. Hvað tók við hjá þér?

,,Ég nýt þess að slaka á og geri það skammlaust en þó að maður flytji á milli staða og hætti að starfa sem prestur þá detta áhugamálin ekki dauð niður. Ég sinni þeim vel og í raun hef ég mikið að gera. Ég spila með

Sigurður sá auglýst nám í Wales og skellti sér í það og í kjölfarið opnaði hann verkstæðið Hljóðfæraviðgerðir þar sem hann gerir við saxófóna, klarínett, fagott, flautur og óbó.

Hér er Sigurður að störfum á verkstæðinu sínu Hljóðfæraviðgerðir.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar á saxófón. Við hjónin höfum setið yfir í prófum í Háskóla Íslands og höfum gaman af því. Leiklistin var búin að spila stórt hlutverk í mínu lífi á Höfn og þegar ég flutti suður þá gekk ég í Leikfélag Kópavogs. Fyrir tilviljun sá ég að það er starfandi hópur aukaleikara í kvikmyndum og ég gekk í hann og hef tekið þátt í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum eins og Ófærð og í þáttunum um Stellu Blómkvist sem og bíómyndum eins og Fullir vasar og Berdreymi. Auk þessa hef ég leikið í auglýsingum og í bíómyndum sem nemar í Kvikmyndaskólanum hafa leikstýrt. Mér finnst mjög gaman að taka þátt í þessu.

Mesta breytingin er líklega sú að ég fór til Wales og lærði að gera við tréblásturshljóðfæri. Ég er búinn að spila á saxófón í fjölda ára og mig langaði að geta haldið mínum eigin hljóðfærum við eftir að ég kom suður. Ég sá auglýst nám í Wales og skellti mér í það og í kjölfarið ákvað ég að opna lítið verkstæði, Hljóðfæraviðgerðir kalla ég það, og nú geri ég við saxófóna, klarínett, fagott, flautur og óbó. Segja má að bakgrunnur minn hafi gert mér þetta kleift en ég er með langan og góðan bakgrunn í tónlist og svo er ég nokkuð handlaginn og það að hafa unnið við húsgagnabólstrunin, þegar ég var ungur, kemur sér vel núna. Til mín kemur fólk á öllum aldri en ég hef aðallega verið að þjónusta skólahljómsveitir en einnig einstaklinga og að sjálfsögðu félaga mína í Lúðrasveitinni.“

Lífið er ævintýri

Ertu ánægður með þessa ákvörðun að hafa hætt störfum um sextugt?

,,Já, ég er mjög ánægður og hef aldrei séð eftir því að hafa hætt að starfa sem prestur. Það eru kostir og gallar við allt í lífinu og það á einnig við um þessa ákvörðun. Ég lækkaði töluvert mikið í launum en á móti kom

Þau Sigurður og Kristín dvöldu í Bandaríkjunum við nám 2004-5, hann sem gestafræðimaður og hún nam kirkjutónlist.

að við höfðum eytt miklu í að ferðast á milli Hafnar og Reykjavíkur. Auk þess má t.d. benda á að kostnaðurinn við að kynda heimili okkar lækkaði úr 25 þúsund krónum á mánuði í 3000 krónur.

Þó að launin séu lægri þá fannst okkur allt í lagi að draga saman seglin og aðlaga okkur að breyttum aðstæðum. Við áttum litla blokkaríbúð í Reykjavík sem við seldum áður en við fluttum suður og notuðum til að kaupa okkur hentugt húsnæði. Fjárhagslega gengur okkur vel og við erum í raun með prýðis afkomu en aðal kosturinn er þó að vera nálægt fjölskyldu okkar.“

Þig hefur ekki langað að halda áfram að starfa sem prestur hér á Reykjavíkursvæðinu?

,,Nei, það kom aldrei til tals og ég hefði ekki viljað það. Ég viðurkenni það fúslega að ég sakna helgihaldsins úr starfinu en ég er svo heppinn að ég hef fengið að leysa af bæði í Hafnarfjarðarkirkju og í Víðistaðakirkju auk þess sem ég var um tíma í afleysingum í Hjallakirkju og Digraneskirkju. Eins hef ég messað nokkrum sinnum með nemum í Guðfræðideild Háskóla Íslands.

Ég hef alltaf nóg að gera og svo má ekki gleyma af hverju við settumst í helgan stein en það var til að geta verið með barnabörnunum og það geri ég eins mikið og ég get. Ég hef aldrei séð eftir því að hafa farið snemma á eftirlaun, lífið er ævintýri og ég nýt þess til fulls. Það er gott að vera sinn eigin herra.“

 

Halldóra Sigurdórsdóttir blaðamaður skrifaði þetta viðtal sem er Úr safni Lifðu núna.

 

 

Ritstjórn apríl 28, 2023 07:00