Elskendurnir í Rauðu skikkjunni hjákátlegir?

Kvikmyndin Rauða skikkjan var framleidd árið 1967 í samvinnu Svía, Dana og Íslendinga. Þetta var ástarsagan um Signý og Hagbarð og voru Gitte Hænning og Oleg Vidov í aðalhlutverkum hinna ógæfusömu elskenda. Þetta var mynd um ástir og örlög – bardaga og dauða. Fyrir Íslendinga var það einna merkilegast að hún var tekin á Íslandi og að hún var í lit. Það þótti spennandi. Það var til að mynda heilsíða í blaði þegar verið var að „skjóta“ myndina í Kelduhverfi. Þrír íslenskir leikarar voru í myndinni. Þeir Borgar Garðarsson, Gísli Alferðsson og Flosi Ólafsson.

Féll á frumsýningunni

En svo var myndin frumsýnd í Kaupmannahöfn, að viðstaddri sjálfri drottningunni. Það er skemmst frá því að segja að myndin olli verulegum vonbrigðum. Talmálið þótt heldur einkennilegt og var lýst þannig í einu blaðanna að það væri „fornyrðatal“ sem skapaði engin tilfinningatengsl við áhorfendur. Þá olli það hneyksli að bardagamenn sáust berrassaðir í baði og ástersena milli hinna ungu elskenda þótti alltof djörf. Menn sáu brjóstin á Gitte Hænning og bönnuðu því myndina innan 12 ára.

Blátt áfram hjákátleg

Alþýðublaðið skrifar í janúar árið 1967 um þau gríðarlegu vonbrigði sem myndin olli frumsýningargestunum í Kaupmannahöfn, en myndin var sögð sú dýrasta sem Danir hefðu ráðist í.

Þó að efni myndarinnar sé einföld ástarsaga, er ekkert gert til að lýsa tilfinningum aðalpersónanna, eða ást þeirra og þrá. Gitte og Oleg eru blátt áfram hjákátleg. Verst er atriðið það sem Hagbarður og Signý eiga sína einu nótt saman. Það er áreiðanlegt að áhorfendur munu æpa af hlátri, þegar þeir sjá það atriði. Það er svo hjákátlegt“.

Úrklippa úr Tímanum í janúar 1967

Úrklippa úr Tímanum í janúar 1967

Sýnd til upprifjunar og gamans

Árið 1993 var Rauða skikkjan sýnd í Háskólabíó, „til upprifjunar og gamans“. Sæbjörn Valdimarsson skrifaði þar um þessa hálf þrítugu mynd og taldi, eins og svo margir aðrir að textinn hefði verið hennar helsti akkilesarhætt. Leikarar hefðu heldur ekki sýnt mikil tilþrif. Í lok gagnrýninnar segir svo:

Maður greinir varla ástæðurnar í dag fyrir þeirri umræðu og írafári sem Rauða skikkjan olli hér á sínum tíma, en myndin var „marglofuð og löstuð“ – og stranglega bönnuð innan 12 ára, jafnvel í fylgd foreldra. Heykslunarhellurnar voru einkum sex berrassaðir karlmenn, sætu brjóstin hennar Gittu Hænning og afhausun vígamanna. Allt boðlegt fjölskyldufóður í sjónvarpi samtímans“.

 

Ritstjórn febrúar 19, 2015 14:07