Ég er svona hrædd við Gregory

Gunnar G. Schram alþingismaður

Gunnar G. Schram alþingismaður

Veðrið hefur verið mjög til umræðu meðal fólks að undanförnu og á bloggsíðu Trausta Jónssonar veðurfræðings blandaðist rigningarsumarið 1955 inní umræðuna og fylgdi sögunni að þá hafi verið lesin í útvarpið framhaldssagan Hver er Gregory? Þessi sakamálasaga var svo vinsæl að fáir sáust á ferli þegar hún var lesin og var haft á orði að vinsældir hennar nálguðust sjálfan Bör Börsson. Það var Gunnar G. Schram 24ra ára laganemi, síðar lagaprófessor og alþingismaður sem las. Sigurður Þór Guðjónsson rifjar upp á bloggsíðu Trausta.

 

Ég man vel eftir rigningarsumrinu 1955 og ekki síður eftir útvarpssögunni um Gregory sem Gunnar G. Schram þýddi og flutti.  Það hlustaði bókstaflega allt landið  og orðin “með kveðju frá Gregory“ voru á allra vörum, fylgdu jafnvel blómvöndum sem menn sendu þeim sem áttu afmæli! Á þessum árum hlustuðu allir á útvarpið og þetta var fyrsta spennusagan sem þar var lesin.

Þann 10. Ágúst árið 1955 er sagan mjög til umræðu í Morgunblaðinu. Þannig skrifar einhver sem kallar sig Kráku, eftirfarandi texta.

Kæri Velvakandi! Finnst þér hún ekki svakaleg sakamálasagan í útvarpinu „Hver er Gregory?“ Hún er svo æsandi að maður er blátt áfram af sér genginn á taugum eftir hvern lestur. Ég segi fyrir mig að ég hefi ekki hingað til verið myrkfælin, en nú þori ég varla um þvert hús að ganga að hverjum lestri loknum. – Ég er svona hrædd við Gregory. Hvers vegna lætur útvarpið lesa svona hrollvekjandi sögu? Eru ekki til nógar rólegar – og þó spennandi sögur?   Ef til vill eru þetta óþarfa aðfinnslur hjá mér, en mér finnst ég samt mega til með að koma þeim á framfæri, því mér eru töluvert annt um sálufrið minn og líkt staddra samborgara minna.

Í dálkinum Úr daglega lífinu, skrifar Almar þennan sama dag.

Gunnar G. Schram fer sérstaklega vel með sögu þá sem hann les. Er lestur hans lifandi og blæbrigðaríkur og gefur ekki eftir því bezta sem heyrzt hefur hér í úrvarpinu af þessu tagi. Sagan er bráðskemmtileg og spennandi, enda hefur hún hlotið miklar vinsældir í útvarpi erlendis. Hefur hún verið lesin í danska og norska útvarpið og einnig í BBC í Englandi og hvarvetna hlotið miklar vinsældir meðal hlustenda og í blöðum – Hér hafa lítilssigldir karlar verið að hrista úr klaufunum út af þessari sögu, en allt er það marklaust hræsnishjal gert af pólitískum naglaskap.

Enn aðrir óttuðust áhrif sögunnar á íslenskt samfélag og í Bæjarpósti Þjóðviljans kom eftirfarandi klausa.

Bæjarpóstinum hafa borist frásagnir af ýmsum óþokkabrögðum sem greinilega virðast unnin undir sterkum áhrifum frá glæpasögum og glæpamyndum. Einkum virðist hin fræga Gregorí-saga sem lesin var í útvarpið hafa orðið áhrifarík, og gæti maður af því dregið þá ályktun að útvarpið hefði með henni einni saman lagt fram drjúgan skerf til vaxandi skrílmenningar.

 

 

 

Ritstjórn mars 12, 2015 12:08