Í febrúarmánuði árið 2019 kom út á vegum forsætisráðuneytisins skýrsla með yfirskriftinni „Ísland og fjórða iðnbyltingin“. Hún hefur að geyma niðurstöður úr starfi stjórnskipaðrar sérfræðinganefndar, sem var falið að greina hver áhrif hinnar svonefndu fjórðu iðnbyltingar kunni að verða á íslenskt samfélag. Í þriggja hluta greinaflokki ætlar Lifðu núna að rýna í hvað þessi fjórða iðnbylting mun hafa í för með sér, einkum og sér í lagi hvernig vænta má að eldra fólki á Íslandi muni reiða af í henni.
Í þessari fyrstu grein rifjum við upp hvað átt er við með hugtakinu fjórða iðnbyltingin og að hvaða niðurstöðum fyrrnefnd sérfræðinganefnd komst í skýrslu sinni fyrir þremur árum. Formaður téðrar nefndar var Huginn Freyr Þorsteinsson, en hann er með doktorspróf í vísindaheimspeki. Í næstu grein fræðumst við um það sem kom út úr spjalli blaðamanns við hann, en þar er vöngum velt yfir þeirri spurningu hvernig fjórða iðnbyltingin horfi við eldra fólki á Íslandi; hvaða afleiðingar hún muni væntanlega hafa á líf þess, störf, heilsu og frístundir o.fl. Í þriðju og síðustu greininni verður talað við meðlimi framtíðarnefndar Alþingis, sem tók til starfa eftir síðustu alþingiskosningar, en henni er ætlað að halda áfram kortlagningu áhrifa fjórðu iðnbyltingarinnar á íslenskt samfélag á komandi árum og áratugum.
Niðurstöður sérfræðingaskýrslu
En byrjum á að rifja upp niðurstöðurnar sem höfundar sérfræðræðingaskýrslunnar komust að árið 2019:
Þær öru tæknibreytingar sem orðið hafa síðustu ár og kenndar eru við fjórðu iðnbyltinguna hafa hrundið af stað umræðu víða um lönd um hver áhrif hennar kunni að verða á samfélag og efnahagslíf á næstu áratugum. Í aðra röndina hafa tæknibreytingarnar ýtt undir óvissu og jafnvel vakið ugg um að með tilkomu nýju tækninnar muni störfum fækka stórlega og þannig verði lífsafkomu milljóna manna ógnað, en hins vegar hafa þær vakið vonir um að tækifærum til að skapa ný og betri störf muni stórfjölga og lífsgæði geti aukist á mörgum sviðum samfélagsins. Umræða um áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á íslenskt samfélag er enn skammt á veg komin. Íslenskt atvinnulíf hefur þó lengi verið opið fyrir tækninýjungum og tileinkað sér í auknum mæli þær nýjungar sem einkenna fjórðu iðnbyltinguna. Mikilvægt er að skipuleg umræða fari fram hér á landi um þessar nýjungar og er skýrsla nefndar forsætisráðherra um fjórðu iðnbyltinguna innlegg í hana. Nefndin lagði eyrun við alþjóðlega umræðu um fjórðu iðnbyltinguna, þar á meðal nýlegar rannsóknir á tækniþróun undanfarinna ára og þau áhrif sem hún kann að hafa, jafnframt því sem nefndin leitaðist við að meta stöðu Íslands í þessari tækniþróun og hver hugsanleg áhrif hún kann að hafa á samfélagið.
Hér á eftir fer nánari lýsing á sjö atriðum sem nefndin tefldi fram sem aðalniðurstöðum sínum:
- Fjórða iðnbyltingin: Öflug ný tækni með víðtæk áhrif. Framþróun gervigreindar og tengdrar tækni á síðastliðnum árum mun leiða til umbyltingar á fjölmörgum sviðum samfélagsins. Áhrifanna er þegar farið að gæta í vinnu og framleiðslu í mörgum geirum atvinnulífsins. Ólíkt sjálfvirknivæðingu fyrri iðnbyltinga, þ.m.t. upplýsingabyltingarinnar, er nútímagervigreind svo til óháð tegund gagna og býður upp á fjölbreytta sjálfvirknimöguleika í gagna- og iðnaðarferlum. Tækni sem þegar er í notkun, svo sem vélmenni, samskiptamiðlar, gistinga- og ferðabókanir svo fátt eitt sé nefnt, hefur þegar notið góðs af áhrifum nýrrar tækni en mun breytast enn meira á komandi árum eftir því sem sjálfvirknin verður öflugri. Tilkoma nýrrar þekkingar á sviði líftækni, nanótækni, Hlutanetið (e. Internet of things), o.m.fl. á næstu áratugum mun skapa samlegðaráhrif sem mun hafa víðtæk áhrif á daglegt líf okkar og þjóðfélag.
- Ný tegund sjálfvirknivæðingar leiðir til uppbrots. Fram að fjórðu iðnbyltingunni kom tækni yfirleitt í stað verkefna sem unnin voru með handafli og einkenndust af endurtekningu. Sú þróun mun halda áfram en með fjórðu iðnbyltingunni mun ný tækni í síauknum mæli leysa verkefni sem einungis hugarafl mannsins hefur getað leyst hingað til. Þróunin mun ekki bara auka hraða sjálfvirknivæðingar fyrri iðnbyltinga heldur gera algjörlega nýja sjálfvirknivæðingu mögulega. Í kjölfarið verður óumflýjanlegt uppbrot (e. disruption) þar sem tæknin breytir verulega skipulagi samfélaga. Í því felast margar áskoranir en jafnframt umtalsverð tækifæri.
Dæmi um verkefni sem hér um ræðir eru ákvarðanir um lánveitingar. Nefndarformaðurinn fyrrverandi, Huginn Freyr Þorsteinsson, tjáði Lifðu núna að það sé nú þegar fyrirséð að gervigreind muni til að mynda taka yfir staðlaða afgreiðslu greiðslumats og lánaumsókna viðskiptavina fjármálastofnana. Afleiðingin: fækkun bankastarfsfólks.
- Verulegar breytingar á vinnumarkaði í vændum. Með aukinni sjálfvirknivæðingu verða sum störf óþörf en jafnframt verða til ný störf. Nefnd um fjórðu iðnbyltinguna fékk aðstoð frá Hagstofu Íslands við að reikna út möguleg áhrif sjálfvirknivæðingar á grundvelli aðferðafræði OECD. Þær niðurstöður sýna að á Íslandi eru miklar líkur á að um 28% íslensks vinnumarkaðar verði fyrir verulegum breytingum eða að störf hverfi alveg vegna sjálfvirknivæðingar. Þetta eru um 54.000 einstaklingar á vinnumarkaði miðað við árið 2017 og svipar þessu hlutfalli til áætlaðra áhrifa tækniframfara annars staðar á Norðurlöndunum. Einnig er því spáð að 58% starfa (rúmlega 113.000 einstaklingar) taki talsverðum breytingum vegna áhrifa tækni en aðeins 14% starfa (tæplega 27.000 einstaklingar) breytist lítið. Út frá þessari spá er líka hægt að sjá að hópar í samfélaginu verða fyrir mismiklum áhrifum af þessum breytingum og skoðuð eru áhrif út frá menntun, kyni, aldri, búsetu og ríkisfangi.
- Ísland er tæknilega vel í stakk búið til að taka þátt í fjórðu iðnbyltingunni. Íslendingar þekkja vel til samfélagslegra breytinga af völdum tækni. Stórstígar tæknibreytingar hafa gengið í bylgjum yfir íslenskt samfélag síðan á öndverðri 20. öld og valdið miklum samfélagslegum breytingum eins og í öðrum löndum. Rauður þráður í iðnbyltingum fyrri tíma er sjálfvirknivæðing þar sem vélarafl leysir vöðvaafl manns og dýra af hólmi. Á Íslandi hefur á mörgum sviðum tekist ágætlega að innleiða tækni þriðju iðnbyltingarinnar (farsíma, net, tölvur og upplýsingatækni). Ísland er enginn eftirbátur hinna norrænu ríkjanna, sem standa mjög framarlega þegar kemur að tæknilegum innviðum.
- Opinber stefna hefur mikil áhrif á hvernig samfélög aðlagast og nýta sér tækni. Uppbrot af völdum tæknibreytinga mun reyna verulega á skipulag samfélags okkar. Tryggja þarf að framleiðniaukning af aukinni sjálfvirknivæðingu dreifist með sanngjörnum hætti í samfélaginu. Styrkja þarf þjónustu og stuðningskerfi fyrir þá sem verða fyrir áhrifum sjálfvirknivæðingar, hvort sem þau eru talin jákvæð eða neikvæð. Velferðarkerfið gegnir mikilvægu hlutverki við að styðja einstaklinga í gegnum þær breytingar sem verða af völdum tækni. Einnig þarf að ræða hvernig tæknibreytingar geta skilað okkur annars konar ábata en bættri framleiðni eða auknum efnislegum gæðum. Þjóðfélagslegar breytingar í kjölfar aukinnar sjálfvirknivæðingar ættu að hafa í för með sér aukin lífsgæði, t.d. með því að auka sveigjanleika í atvinnulífinu þannig að fólk eigi auðveldara með að ákveða sjálft hvernig tíma þess er best varið.
- Nýr stuðningur við færni í grunntækni fjórðu iðnbyltingarinnar nauðsynlegur. Án færni í grunnþáttum fjórðu iðnbyltingarinnar er nánast sjálfgefið að Ísland dragist aftur úr öðrum þjóðum. Margar þjóðir bjóða fólki með ákveðna sérþekkingu að setjast að án mikilla vandkvæða. Stjórnvöld þurfa að huga að þessu til að ekki flytji stór hluti sérmenntaða fólks til landa sem bjóða betur, hvort sem er á sviði skóla eða atvinnuvega. Fyrsta skrefið í þessa átt er kerfisbundið mat á færni-, menntunar-, og mannaflaþörf á vinnumarkaði til lengri tíma. Í kjölfarið þarf skipulagðar aðgerðir til að ýta undir uppbyggingu, viðhald og hagnýtingu þekkingar hérlendis á sviðum tengdum fjórðu iðnbyltingunni, þá sérstaklega sjálfvirknivæðingu. Menntakerfið og vísindastarf mun gegna lykilhlutverki í að nýta tækni frá útlöndum og stuðla að öflugri staðbundinni færni í þróun nýrrar tækni. (…)
- Uppbrot vegna tæknibreytinga fjórðu iðnbyltingarinnar skapar siðferðileg álitamál. Hröð tækniþróun og uppbrot skapar oft togstreitu milli siðferðilegra verðmæta og þess ábata sem við teljum að tæknin færi okkur. Þannig getur upplýsingasöfnun og hagnýting ógnað frelsi og sjálfræði einstaklinga. Með aukinni sjálfvirknivæðingu og framþróun verða æ flóknari ákvörðunarferli í höndum vélmenna og tölvukerfa. Spurningar um siðferðilega ábyrgð vegna þeirra ákvarðana sem teknar eru verða flókin álitamál. Frekari úrvinnsla á erfðafræðilegum upplýsingum og hagnýting þeirra reyna á mannréttindi okkar og mannskilning. Misnotkun á upplýsingaveitum getur ógnað lýðræðisskipulagi með skipulagðri dreifingu rangra upplýsinga sem hefur það að markmiði að afvegaleiða fólk. Þróun og beiting nýrrar tækni á ekki vera á hendi einsleitra hópa heldur þarf að endurspegla fjölbreytta flóru fólks og jafna kynjaskiptingu. Samfélagsleg sátt þarf að ríkja um hvaða markmiðum á að ná fram með hagnýtingu nýrrar tækni.
Áhrifin mjög mismikil á störf fólks
Það sem talað er um í þessum niðurstöðum og snertir hag eldra fólks einna mest er það sem sagt er um áhrif sjálfvirknivæðingar á störf fólks eftir aldurshópum. Yfirlit yfir þessi áhrif er gefið í þessari skýringarmynd:
Myndin sýnir glöggt hve mikill munur er á áætluðum áhrifum sjálfvirknivæðingar fjórðu iðnbyltingarinnar á störf fólks eftir aldurshópum – og eftir kyni! Þannig eru miklar líkur á að þessi sjálfvirknivæðing muni hafa áhrif á störf meira en þriðjungs allra karla á aldrinum 55-74 ára, en aðeins 19% kvenna í sama aldurshópi. Skýringin kvað vera sú að konur í þessum aldurshópi eru í meiri mæli en jafnaldra karlar í umönnunar-, uppeldis- og kennslustörfum, en slík störf eru ólíklegri til að verða fyrir áhrifum af sjálfvirknivæðingu í bráð. Karlar í þessum aldurshópi eru í meira mæli í framleiðslu- og tæknistörfum sem líklegra er að sjálfvirknivæðingin úreldi.
Í næstu grein verður nánar fjallað um áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á hagi eldra fólks á Íslandi og talað við Huginn Frey Þorsteinsson.
Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar