Sýningin Kvennablóminn í Borgarbókasafninu Spönginni í fyrra var afskaplega áhugaverð. Þar gaf að líta verk eftir Þórunni Elísabetu Sveinsdóttur. Margir tengja nafnið við búningahönnun en Þórunn er margfaldur Grímuverðlaunahafi á því sviði. Þessi verk snúast hins vegar um kvenlegar blúndur, endurvinnslu og fíngerðu verkin sem konur sinntu eftir að börnin voru sofnuð á kvöldin.
Sýningin samanstendur af verkum sem Þórunn Elísabet eða Tóta vinnur úr arfleið formæðranna, handavinnunni. Þessi þörf fyrir að gera fallegt í kringum sig er ekki ný af nálinni og konur lögðu oft mikð á sig til þess að prýða heimili sín. Hvernig kom það til að listakonan fór að skoða þessa tilteknu vinnu?
„Þetta byrjaði allt á handavinnu,“ segir hún. „Bæði hvernig mynstur geymast og hvaða tími er notaður til þess að gera þetta. Það er alltaf farið vel með svona handavinna, í það minnsta af þeim sem búa hana til. Þeirra upplifun af tímanum geymist í vinnunni.“
Handíðar eina leyfða sköpunin
Í raun voru handíðar eina leiðin fyrir konur til að fá útrás fyrir sköpunargáfuna og listræna þörf. En þær eru háðar tísku eins og annað, bæði hvað varðar hvort og þá hvernig handavinna er móðins í það og það sinn.
„Ég er búin að safna töluverðri hrúgu af alls konar handvinnu. Þetta eru allt dúkar, klæði eða afgangar sem eru í verkunum á sýningunni í Spönginni. Ég nota nagla, trélím og spýtur til að negla þetta í tímann og einhvers konar tilfinning fyrir mínum fegurðarsmekk kemur í gegn. Svo heita þær allar þessum kvenmannsnöfnum. Þegar maður hefur lesið sögur og upplifað konur, listfengi þeirra og líka þessa þörf til skreyta og gera sér einhvers konar altari heima hjá sér. Mig langaði líka að gæða verkið einhvers konar tilfinningu fyrir því nafni sem myndin hefur eða gefur af sér. Maður veit heldur ekki hvað stjórnar því að maður rýkur af stað og gerir þessa vitleysu,“ segir hún og hlær. Eins og kom fram bera öll verkin nöfn kvenna, m.a. tengdamóður Tótu og ömmusystur og að auki nöfn eins og Hallgerður, Snæfríður, Bríet og Sigríður.
Hugmyndir koma úr kosmosinu
Og víst eru verkin áhrifamikil. Bakgrunnurinn hart tré og síðan eru fínlegar blúndur og viðkvæm efni negld á það. Eflaust væri hægt að lesa margvísleg tákn út úr því en það er aðeins hluti þessara verka til sýnis í Spönginni, sýningin er mun stærri en Tóta hefur brotið hana upp og farið með hana víða. Á Húsavík voru líka sýnd verk þar sem útsaumur fékk nýtt hlutverk og sagði sögu. En sýningin er í aðra röndina óður til formæðranna og kannski er það tilviljun en undanfarið hafa komið út þó nokkrar sögulegar skáldsögur sem íslenskar konur skrifa og byggja á raunverulegu lífi formæðra sinna. Er þessi áhugi á þeim konum sem á undan gengu og þeirra arfi eitthvað sem liggur í loftinu núna?
„Ég get ekki svarað þessu,“ segir Tóta. „Ég held að þetta sé svolítið eins og með tískuna. Maður veit ekki hvaðan hún kemur eða hvers vegna hún sprettur fram eins á mörgum stöðum, ekki bara hér á landi heldur út um allan heim. Stundum er sagt að fólk fái sömu hugmynd á sama tíma og lög verða eins frá mismunandi tónlistarmönnum. Ég held að þetta sé bara þannig í alheiminum, rétt eins og flóð og fjara. Það flæðir að og þá verða einhverjar hugmyndir til á fleiri en einum stað. Bara eitthvað sem gerist í kosmosinum. En hvað veit ég?“
Sýningin heitir Kvennablóminn en þær konur þóttu blómi kvenkynsins sem voru leiknar í höndunum og lengi fram eftir öldum var það ekki góður kvenkostur sem ekki kunni að sauma, prjóna, spinna, hekla og vefa.
Tóta stundaði myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Ísland og hefur haldið fjölda sýninga víða um land. Sennilega þekkja hana þó flestir gegnum starf hennar í leikhúsunum en þar hefur hún bæði unnið við sýningarstjórnun og búninga -og sviðsmyndahönnun. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir leiksýningarnar Sjö ævintýri um skömm, Rómeó og Júlíu Vesturports og Leg. En þetta er ekki allt Tóta hefur líka komið að mörgum íslenskum kvikmyndum og þar á meðal eru 101 Reykjavík, Ikingut og Hafið.
Tóta segist vera rómantísk í sér og merki þess sjást oft í klæðaburði hennar. Hún er ein þeirra kvenna sem skapar eigin stíl og er óhrædd við að klæðast eingöngu því sem hentar henni á tilteknum stað og stund. En með sýningunni vill hún hylla konur, sýna þakklæti sitt og tjalda kærleikanum á hvern þann hátt sem hún getur. Kvennablóminn stendur yfir til 7. desember og um að gera að drífa sig upp í Borgarbókasafnið í Spönginni til að skoða hana.