Aldur er fyrst og fremst heilsa, ekki fjöldi ára

Ögmundur og Valgerður með barnabörn sem hafa fengið inngöngu í leshringinn.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, hætti fyrir 2016 á þingi en ætlaði alls ekki að hætta að taka þátt í málefnum samfélagsins þótt hann hætti í flokkspólitík. Og nú, fimm árum síðar, er hvergi nærri hættur.

„Þótt ekki sé hægt að alhæfa um fólk þá ætla ég samt að gera það og segja að aldur sé fyrst og fremst heilsa,” segir Ögmundur sem er kvæntur Valgerði Andrésdóttur sameindaerfðafræðingi. „Ég fullyrði að besta og skemmtilegasta tímabil lífsins geti verið áratugurinn á milli sjötugs og áttræðs,” segir hann galvaskur og það er óneitanlega hressandi að heyra.

„Áttræður einstaklingur getur nefnilega verið betur á sig kominn en fimmtugur ef hann heldur heilsu. Við starfslok geta öll efni verið til þess að þetta verði skemmtilegasti hluti ævinnar. Þá höfum við skilað ákveðnu dagsverki og ný verkefni eru hafin. Þau snúa að barnabörnum, heimili og fjölskyldu og kannski að sjálfum okkur að einhverju leyti.”

Ætlum ekki að minnka við okkur

Ögmundur segist ungur hafa gert sér grein fyrir því að þegar verið var að tala um að unga fólkið þyrfti að búa rúmt á meðan börnin væru ung og hafa rýmri

Frá fréttamannafundi í Istanbúl til stuðnings mannréttindabaráttu Kúrda 2019,

fjárráð en þeir eldri hafi hann alltaf verið á gagnstæðri skoðun. Hann gat alveg hugsað sér að búa þröngt sem ungur maður  og tilbúinn að leggja ýmislegt á sig í efnalegu tilliti en vildi búa rúmt sem fullorðinn. „Ég sá fyrir mér að ég vildi geta tekið á móti gestum, börnum og barnabörnum og þá væri betra að hafa aðeins rýmri fjáráð og meira pláss.”

Gerði uppreisn gegn skynsemishyggjunni

 „Ég gerði í raun uppreisn gegn skynsemishyggjunni strax ungur að árum,” segir Ögmundur og brosir.

Á hádegisfundi í Þjóðmenningarhúsinu þar sem 3. orkupakkinn var ræddur.

Alla mína ævi hef ég verið að sinna áhugamálum mínum. Þau hafa runnið saman í eitt með vinnunni. En fókusinn tekur breytingum og vissulega get ég nú sinnt ýmsu sem minni tími var fyrir áður. „Áhugamál mitt númer eitt tvö og þrjú er fjölskylda mín,” segir hann. „Ég hef sinnt barnabörnunum eins og kostur hefur verið og haft geysilega gaman af því. Ég er á þeirri skoðun að í hraða nútímans séu rólegheit eitt af því dýrmætasta sem við getum gefið börnunum og það sem þau þurfa á að halda. Að fara í hæga gírinn hjá afa og ömmu held ég að sé mikils virði.” Í sama bili  kom lítil hnáta skoppandi með klippimynd sem hún hafði verið að dunda sér við að búa til hjá ömmu og afa. Þegar sú stutta var viss um að hafa náð athygli blaðamanns svaraði hún spurningum greiðlega og sagði frá því að klippimyndin væri nefnilega byssa sem hún hafði verið að búa til. Þetta stangaðist aðeins á við yfirlýsingar Ögmundar um rólegheit hjá ömmu og afa. Amman bætti hlæjandi við að rólegheitin við að útbúa heimatilbúna byssu úr pappír væri samt í þeim anda þótt fyrirmyndin kallaði fram aðrar  hugrenningar. Þetta megi svo ræða við barnið eins og annað.

Líf og fjör við dagleg störf

“Svo hef ég komist að því að auðvitað er svo margt að gera utan hefðbundinnar vinnumennsku,” segir Ögmundur.

Þau Ögmundur og Valgerður eiga sumarbústað fyrir austan fjall sem hann segir að þau hafi verið að bjástra við í langan tíma og þar séu næg verkefni. Þau eru ekki á leiðinni að minnka við sig húsnæði af

Hreiðrað um sig í kaffistofunni í Gerðarsafni en þangað fer Ögmundur gjarnan með leshringinn.

fyrrgreindum ástæðum en þau búa í húsi sem þau byggðu á lóð afa Ögmundar og ömmu. „Héðan ætla ég helst að vera borinn út láréttur ef heilsan leyfir,” segir hann brosandi. „Við búum hér á bletti þar sem afi minn og amma reistu húsið Hólabrekku 1906 þar sem þau voru með lítið sveitabýli. Við Valgerður erum í rabarbaragarðinum og bróðir minn í fjósinu við hliðina. Hér fyrir neðan voru miklir kartöflugarðar og svo reri afi út á Skerjafjörðinn þar sem grásleppuna og rauðmagann var að finna.  Amma mín féll frá áður en ég fæddist og þróaðist atvinnureksturinn í Hólabrekku úr búskap yfir í akstur, fyrst með hestvögnum og síðar vörubílum. Þessi þróun hélst í hendur við borgarmyndun sem gerðist hratt þegar komið var fram um miðja síðustu öld. Ég man eftir kúm á beit þar sem nú er Neskirkja. Merkilegt að hugsa til þess að okkar samtíð eigi eftir að verða börnum uppvaxandi kynslóðar eins fjarri og þessi tími okkar bernsku er ungviðinu nú.”

Stofnaði leshring með barnabörnunum

Ögmurndur virkjar barnabörnin heima í stofu.

Áður en Valgerður fór á eftirlaun var Ögmundur hættur á þingi og stundum einn heima. Þá fékk hann þá snjöllu hugmynd að stofna leshring með barnabörnunum. „Þau fá inngöngu í leshringinn góða eftir því sem þau útskrifast úr leikskóla. Þá komu þau á hverjum degi hingað til mín og lásu. Svo er ég búinn að þræða söfnin á höfuðborgarsvæðinu með þeim og kynntist sjálfur mjög skemmtilegri safnamenningu í borginni enn betur. Við höfum líka farið saman að skoða styttur, til dæmis styttuna af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli. Eftir það fórum við að velta fyrir okkur af hverju væri ekki líka stytta af Hallveigu Fróðadóttur konu hans. Afi var þá gerður út af örkinni að skrifa grein um þetta mál í Morgunblaðinu. Þannig lögðum við til að minnismerki um Hallveigu yrði reist sem myndi kallast á við Ingólf bónda hennar. Svona höfum við leikið okkur í þessum skemmtilega heimi leshringsins.

Þetta er hluti af því sem ég hef verið að gera til að hafa áhrif á þankaganginn í samfélaginu. Það sem gerist innan sala alþingis er afleiðing af því sem gerist í leshringjum þessa lands.” segir Ögmundur, ánægður með að geta á þennan hátt haft áhrif á ræturnar sem eru auðvitað börnin.

Fylgist vel með atburðum á alþjóðavettvangi     

Ögmundur segist hafa reglulega verið tilbúinn að breyta um vettvang í gegnum tíðina en hafi þó verið nokkuð staðfastur í verkefnum sem hann tók að sér. Hann var í fréttamennsku í 10 ár og formaður BSRB í 20 ár

Kúrdar ávarpaðir í Strassborg.

að hluta samhliða þingmennsku og var síðan á þingi einnig í rétt rúm 20 ár. Ögmundur var heilbrigðisráðherra 2009 en  sagði af sér um haustið út af ágreiningi um Icesave samningana. Haustið 2010 varð hann ráðherra að nýju, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og dómsmálaráðherra sem var svo sameinað í eitt ráðuneyti um áramótin 2011 og kallað innanríkisráðuneytið. Þar starfaði Ögmundur til vors 2013. Hann sat á þingi út næsta  kjörtímabil og var þá formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Hann var jafnframt þingmaður á þingi Evrópuráðsins í Strassborg og segir að það hafi veitt sér mikla ánægju að fá innsýn í þann heim líka. Þar sköpuðust ýmis tengsl sem hafi nýst honum áfram.

Ögmundur hefur líka fylgst vel með því sem hefur verið að gerast  á alþjóðavettvangi. Hann hefur tekið þátt í mannréttindabaráttu Kúrda, hefur sótt fundi í Tyrklandi og Kúrdistan eða þar sem Kúrda er að

Frá Borgarafundi 2017 þar sem staða aldraðra sem búa heima var rædd.

finna, í þeim tilgangi. Nú í seinni tíð hafa þeir fundir farið fram með fjarfundabúnaði vegna covid. Hann hefur  horft víðar þar sem mannréttindi eru fótum troðin eins og t.d. til Palestínu. Hann hefur síðan setið í einni nefnd á vegum Evrópuráðsins sem er kölluð ECRI en það er nefnd sem vinnur gegn kynþáttamisrétti og umburðarleysi. Síðan skrifar hann enn pistla og greinar í dagblöðin og á heimasíðu sína um það sem honum þykir umhugsunarvert.

Opnir borgarafundir

Fyrir covid tímabilið var Ögmundur með skipulagða, opna borgarafundi, fyrst í Iðnó og svo í Þjóðmenningarhúsinu. „Þar  tók ég fyrir mál sem mér þóttu brenna á samfélaginu, eða ættu að gera það,” segir Ögmundur. „Þar tók ég til dæmis fyrir málefni Kúrda, Palestínu og Grikklands. Svo tók ég fyrir innflutning á

matvælum, áfengi í verslanir og heimaþjónustu aldraðra. Markmið mitt er að hafa áfram áhrif á það sem mér þykir að stjórnmálin eigi að snúast um. Með þessu er ég  að reyna að hafa áhrif til góðs á það hvernig samfélagið hugsar.

Ég vildi áfram taka þátt í samfélagsumræðunni en á allt öðrum forsendum en ég hafði áður gert. Við vorum komin vel af stað með röð sem ég kallaði „kvótann heim” á borgarafundunum en það var um sjávarútvegsmálin og kvótakerfið. Þá kom fundabannið vegna covid en ég færði fundina þá yfir á netið. Þar var ég með eina tíu þætti um kvótann heim, ræddi við bátasjómenn o.s.frv.” Svo nú bíður Ögmundur bara eftir að geta tekið þann þráð upp að nýju. Hann er  því hvergi nærri hættur þótt þingstörfum sé lokið. Hann er þakklátur fyrir að hafa nú meiri tíma til að sinna stækkandi fjölskyldunni fyrir utan að geta komið hugðarefnum sínum á framfæri, bæði í rituðu máli og á opnum fundum.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 12, 2021 08:46