Helgi Pé kominn aftur í atið

“Ég lít á það sem sérlega brýnt mál að ná sátt á milli kynslóða,” segir Helgi Pétursson sem margir tengja við hið landsfræga Ríó tríó enda á það tríó eina lengstu ferilssögu íslenskrar dægurlagasögu. Nú er Helgi orðinn eldri borgari en hann er fæddur 1949 og 2016 var hann einn af stofnendum Gráa hersins. Nafnið eitt sendir önnur skilaboð en “eldri borgari” sem Helga þykir minna sig of mikið á orðið “hamborgari” en er sannarlega aðdáandi þess mikla starfs sem fari fram hjá félögum eldri borgara. “Ég er nú kominn í hóp eldri borgara og er í fullu fjöri og vil að á okkur sé hlustað,” segir Helgi. Hann sjálfur, og margir fleiri, eru búnir að tala við fjölmarga stjórnmálamenn sem allir hafa horft  djúpt í augun á þeim og sagt: “við munum breyta þessu” en ekkert hefur gerst. Við erum að tala um virðingu, umhyggju og mannréttindi. Kröfur okkar liggja fyrir í meginatriðum úr samþykktum frá síðasta landsfundi LEB, þ.e. að lífeyrir fylgi lágmarkslaunum og að skerðingar og jaðarskattar verði teknar til endurskoðunar,” bætir hann við.

Fóru til Danmerkur

Helgi og eiginkona hans, Birna Pálsdóttir, fluttu sig um set fyrir rúmum þremur árum og fóru til Danmerkur. Þau komu nýverið heim með Norrænu og eru nú í sóttkví. “Það var að hluta til ævintýramennska og að hluta til gleðin af því að geta rétt eldri dóttur okkar hjálparhönd og verið “au-pair” hjá henni og eiginmanni hennar sem bæði voru í framhaldsnámi með þrjú börn.” Þau Helgi og Birna seldu húseign sína hér og keyptu yndislega íbúð í Horsens á Jótlandi þar sem dóttir þeirra og fjölskylda býr.

Kominn til baka

Helgi segir að tíminn í Danmörku hafi verið dýrmætur en nú togi Ísland, fyrst og fremst af því þau Birna eigi þrjú önnur börn sem búa hér og þar séu sjö barnabörn. “Við fundum svolítinn þrýsting úr þeirri átt sem okkur þykir afskaplega vænt um,” segir Helgi og brosir. “En þar að auki kallar Grái herinn á mig.” Helgi hefur ritstýrt Facebook síðu Gráa hersins frá eldhúsborðinu á Jótlandi allan tímann því auðvitað skipti engu máli lengur hvar í heiminum maður er staddur við að sinna slíkum störfum í gegnum tölvuna.

Einn af stofnendum Gráa hersins

Helgi var einn af stofnendum Gráa hersins árið 2016 og var áberandi í fjölmiðlaumfjöllun um félagsskapinn.  Siðan halda margir að hann sé þá formaðurinn. “Nei aldeilis ekki því allir sem koma að störfum fyrir Gráa herinn gera það í sjálfboðavinnu. Nú hafa til dæmis rosalega margir lagt lóð á vogarskálina með okkur í sambandi við fyrirhugaða málsókn gegn ríkinu og þar munar mest um stuðning VR en þar á bæ áttar fólk sig á mikilvægi málsins.”

Sátt milli kynslóða og viðhorfsbreyting

“Fram undan er geysileg vinna í að ná sátt milli kynslóða,” segir Helgi. “Við megum ekki skipta okkur svona mikið upp í fylkingar. Ég og mín kynslóð tilheyra hugtakinu “þriðja kynslóðin”. Svo er fjölmennasta fólkið í stjórn samfélagsins af “annarri kynslóðinni”. Þessar tvær kynslóðir verða að vinna meira saman. En svo verðum við að gera okkur grein fyrir því að fyrir ofan við þriðju kynslóðina er fjórða kynslóðin sem verður sífellt fjölmennari en það eru hinir eiginlegu “eldri borgarar” sem eru sannarlega búnir að skila sínu og með sinni vinnu gerðu okkur kleift að lifa lífinu sem við lifum í dag. Önnur og þriðja kynslóðin verða að vinna saman, ekki síst til að sjá til þess að þriðja kynslóðin finni fyrir virðingunni, umhyggjunni og mannréttindunum sem hún á skilið.

Ekki má bíða lengur

“Á þessum þremur árum sem liðin eru frá því Grái herinn var stofnaður er komin mun meiri alvara í málin,” segir Helgi. “Þess vegna var niðurstaðan sú á endanum að hefja lögsókn gegn ríkinu vegna skerðinga á lífeyri eldra fólks. Sú lögsókn  er núna í farvatninu og ég segi eins og er að þótt ég gæti sinnt ýmsu frá eldhúsborðinu heima þá vildi ég ekki missa af “slagsmálunum” sem eru í vændum,” segir Helgi og brosir og segir að hann hafi eðlilega ekki viljað skorast undan hvatningunni að vera með því honum þyki vænt um fyrirbærið Grái herinn.

Eldri borgarar þessa lands eru augljóslega komnir í vígahug og þá veitir ekki af að kalla alla að borðinu. “Nú höfum við tækifæri til að “sýna klær” og munum gera það,” segir Helgi ákveðinn.

Segir meira um samfélagið en okkur

“Það að þurfa að fara í mál við samfélagið til þess að ná fram sjálfsögðum rétti okkar segir meira um samfélagið en okkur,” segir Helgi. “Það er svo rétt að halda því til haga að ef við náum ekki fram breytingum með breyttri stefnu stjórnvalda, sem við erum margbúin að tala við, verðum við að gera þetta sjálf. Og við erum 45.000 kjósendur!” segir Helgi Pétursson sem nú er kominn í vígahug.

Hægt er að skrá sig í Gráa herinn á Facebook síðunni.

 

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn október 9, 2020 07:19