Tveir viðburðir verða á Listahátíð sem ætlaðir eru eldri borgurum sérstaklega en það eru Fögnuður fullorðinna sem verður í Iðnó 13. júní kl. 17-19. Hinn er Rokkað og dansað með Sæma Rokk sem verður einnig í Iðnó frá kl. 20-22 þann sama dag. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis. Markmiðið er að hvetja til lýðræðislegrar þátttöku og virkni á listrænum viðburðum og er ókeypis á viðburði á vegum Klúbbs Listahátíðar. Á viðburðunum er stuðlað að samtali og tengingu milli fólks.
Þórey Sigþórsdóttir leikkona er ein skipuleggjenda hátíðarinnar í Iðnó. „Þetta eru tveir samhangandi viðburðir þótt það sé vel hægt að fara bara á annan. Við Rebekka A. Ingimundardóttir, Ásdís Skúladóttir og fleiri, höfum skipulagt þessa dagskrá en viðburðirnir verða báðir í Iðnó 13. júní næstkomandi,“ segir Þórey.
Fagna þriðja aldursskeiðinu og sameina kynslóðir
Viðburðirnir eru stílaðir inn á eldri borgara, segðu mér aðeins frá þessu og aðdragandanum? „Aðdragandi þessa viðburðar er sá að Rebekka A. Ingimundardóttir, ég o.fl. leikkonur settum upp sýninguna Ég lifi enn – sönn saga í Tjarnarbíói, en Klúbbur Listahátíðar er með alls konar viðburði fyrir ýmiss konar hópa, m.a. jaðarsetta, og vill gera eldri borgara sýnilega á hátíðinni og lyfta þeim. Í framhaldi af því hafði Aude Busson sem er önnur þeirra sem skipuleggur Klúbb Listahátíðar samband við okkur Rebekku og spurði hvort við værum til í að leiða dagskrá eða viðburð fyrir þennan hóp.
Við sögðum já við því og höfum verið að móta þetta og fá fólk til að koma inn í þennan viðburð út frá kjarnahópnum okkar í Ég lifi enn – sönn saga ásamt fleira fólki sem kom að þeirri sýningu, sem voru margir. Sýningin var upptaktur að þessari samvinnu. Þau í Klúbbi Listahátíðar vilja skapa vettvang fyrir kynslóðirnar til að hittast, dansa og fagna saman. Svo verða þarna líka óvæntir gestir,“ segir Þórey.
Fögnuður fullorðinna
„Eftir að hafa lagst yfir þetta verkefni ákváðum við að hafa stemninguna eins og í brúðkaupsveislu, þar sem við gefumst þriðja aldursskeiðinu á hönd; hafa gaman, hylla þetta skeið og fagna gleðinni, bjartsýninni og því að njóta. Þannig að formið á gjörningnum milli kl. 5 og 7 er veisla. Fögnuður fullorðinna varð niðurstaða á heiti viðburðarins. Viðburðurinn verður með margbreytilegu sniði og tilgangurinn verður að lyfta okkur upp á þessum bjartasta tíma ársins. Fólk er hvatt til að mæta í björtum litum í þessa sumarveislu. Við sköpum ákveðið andrúmsloft og svo verður þarna gjörningur sem allir taka þátt í, þar sem við gefumst þriðja skeiðinu á hönd og fögnum því, hendum út því neikvæða og tökum inn það jákvæða. Þarna verða eins og í öllum góðum veislum tækifærisræður sem veita innblástur í það hvernig maður getur notið þessa tíma og þess að eldast. Ef fólk vill taka þátt getur það sett sig á mælendaskrá. Það getur líka bara notið þess að vera vitni að gjörningnum sem er nokkurs konar þakkargjörð, þakkarstund og töfrar og Tjörnin verður hluti af því.
Gjörningurinn verður leiddur af þekktum listamanni en gestgjafarnir erum við þrjár, Rebekka A. Ingimundardóttir, Ásdís Skúladóttir og svo ég, þ.e. systurnar úr sýningunni Ég lifi enn –sönn saga. Við drögum fram skemmtilega þætti en sumt á að koma á óvart. Þarna verður andrúmsloft gleði, að fagna lífinu og hverju nýju ári,“ segir Þórey.
Ball og lifandi tónlist
„Það verður matur eða veitingasala á 2. hæðinni milli 7 og 8 en þá verður ball með hljómsveitinni Karl og mennirnir, sem er skipuð flottum hljóðfæraleikurum. Þeir eru ekki alltaf allir þeir sömu sem spila en þarna verða m.a. verða Hilmar Örn Agnarsson á bassa, Kristján Freyr útvarpsmaður og svo meðlimur úr hljómsveitinni Sniglabandinu. Það verður góð sveitaballastemning en dansað verður til kl. 10. Þá lýkur dagskránni og fólk fer út í bjart kvöldið og gerir það sem það vill.“
Þórey segir að boðið verði upp á danskennslu á undan ballinu – línudans, sem Anna Alfreðsdóttir sér um, og jafnvel eitthvað fleira. „Sæmi Rokk mun vonandi koma en margir sakna þess að ekki sé hægt að fara á dansiball í Reykjavík og þar á meðal Sæmi en hann var líka með okkur í Ég lifi enn. Hér er ballið komið í þessu yndislega samkomuhúsi sem Iðnó er og það kostar ekkert inn og allir velkomnir. Það hafa verið haldin böll í Iðnó á síðasta vetrardegi og ég hef farið þegar ég hef komist og það er ótrúlega gaman,“ segir Þórey með áherslu.
Óhætt er að segja að gleði og skemmtilegheit verði ríkjandi á viðburðunum en húmorinn verður heldur ekki langt undan. „Það verður opinn bar og boðið upp á sérstakan drykk af þessu tilefni, bæði áfenga og óáfenga útgáfu, sem kallast Ellismellur, hann verður á sérstöku tilboðsverði. Það verður dyravörður og krafist nafnskírteina við innganginn, fólk þarf að vera orðið 67 ára en það verða fölsuð nafnskírteini í boði við innganginn fyrir þá sem hafa ekki aldur til,“ segir Þórey og hlær.
Maður er manns gaman
Á þessum tveimur viðburðunum skapast tækifæri til að hittast, tjá sig og taka þátt fyrir þá sem vilja. „Rannsóknir hafa sýnt að félagslegi þátturinn skiptir jafnvel meira máli en að borða hollt fyrir fólk sem er komið á þriðja æviskeiðið, samskipti styrkja lífslöngunina og hér er upplagt tækifæri til að rækta þau og bjóða vinum að koma. Þetta er tími til að njóta, svo er aldrei að vita til hvers þetta leiðir.“
Á hamingjustundinni, „happy hour“, verður kokteillinn Ellismellurinn á sérstöku tilboði í tilefni dagsins.
„Dagskráin er á fimmtudegi og þetta er góður upptaktur inn í helgina,“ segir Þórey og hlær „og upplagt að tengja kynslóðirnar saman, margir sem yngri eru hafa lítið upplifað svona böll eins og verður um kvöldið, nema kannski skólaböll, en böll eru alltaf jafn skemmtileg.“
Hvort áframhald verði á böllunum veit Þórey ekki en segir að það væri gaman ef hægt væri, nú sé búið að kasta þessu í loftið. „Þetta hefur verið heilmikil skipulagsvinna en mjög skemmtileg og margir sem leggja þessu verkefni lið. Þetta verður mikil gleðistund.“
Eldri borgarar eru alls konar fólk
Viðburðirnir eru ekki bara ætlaðir eins og áður sagði eldri borgurum, þeir eru einnig liður í því að tengja kynslóðirnar saman. „Eldri borgarar eru alls konar fólk, hámenntað, listafólk, gamlir hippar, rokkarar og fleira. Það eru of miklir aldursfordómar í samfélaginu og því þarf að breyta. Þetta er eitt af því sem fjallað var um í verkinu Ég lifi enn – sönn saga.“
Hvað gerir svona verkefni fyrir eldri borgara og okkur öll? „Hér er tækifæri til að skemmta sér og gleðjast saman. Fá innblástur fyrir því hvernig við veljum það að lifa hvern dag. Tíminn er núna. Við vitum ekki hversu lengi við fáum að njóta hvert annars.
Eldir borgarar í dag eru svo allt annar hópur en t.d. þegar ég var að alast upp en hvernig við tölum um þennan hóp litast enn af raunveruleika sem er horfinn. Allir vilja vera séðir og fá að taka þátt í lífinu sem lengst. Það er það sem gerir okkur að manneskjum. Einmanaleiki er raunverulegur fyrir marga og hér er tækifæri til að fara út og hitta fólk. Kynnast nýju fólki jafnvel, dansa og gleðjast saman. Maður er manns gaman.“
Aldurshópurinn sem heldur menningunni uppi en fær ekki að spegla sig í henni
Er þörf á að setja upp sérstök verkefni eins og leiksýningar eða aðra gjörninga um mál eldri borgara? „Við fengum mjög sterk viðbrögð á sýninguna okkar Ég lifi enn – sönn saga þar sem nálgunin þótti óvenjuleg og fersk á þetta viðfangsefni. Það segir okkur að það sé þörf á því að taka eldra fólk og þeirra raunveruleika meira inn í allt samhengi. Þetta er aldurshópur sem heldur að mörgu leyti menningunni uppi en fær ekki svo oft að spegla sig í leikhúsinu. Því miður eru aldursfordómar miklir í samfélaginu og þó að þeir séu ekki alltaf mjög áberandi birtast þeir í ýmsum myndum, ekki síst í samskiptum fólks við heilbrigðiskerfið. Gamalt fólk er líklegast eini jaðarhópurinn sem enn má gera grín að. En gamalt fólk er ekki endilega minnihlutahópur lengur, hann leggur mikið til þjóðfélagsins. Umræðan er hins vegar á þann veg að fólk sé ekki þátttakendur lengur og það „taki því varla“ að hafa það með í ráðum. Þessu viljum við breyta. Við viljum að við getum öll upplifað að hvert og eitt okkar skipti máli og sé séð, á meðan við lifum enn.“
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.