Í nýlegri könnun í Bandaríkjunum kom fram að einn af hverjum fjórum þátttakenda var ekki í sambandi við fjölskyldu sína. Um það bil 6% þeirra hafði lokað á öll samskipti við móður sína en 26% voru ekki í neinu sambandi við föður sinn. Nokkrir höfðu ákveðið að loka á fjölskyldur sínar vegna samskiptaörðugleika við systkini eða stjúpforeldra. Það virðist verða sífellt algengara að fólk ákveði að slíta öll tengsl við fjölskyldumeðlim eða fjölskylduna alla til að vernda tilfinningalíf sitt.
Foreldrar eru fullorðni aðilinn í sambandinu meðan börnin eru að vaxa upp og þeirra er ábyrgðin á velferð þeirra og vellíðan. Flestir gera sitt besta en taka með sér margvísleg áföll úr eigin bernsku eða verða fyrir alvarlegum skaða á fullorðinsárum sem koma niður á börnum. Meðal þess sem þátttakendur í bandarísku könnuninni tilgreindu sem ástæðu fyrir því að hafa slitið sig frá fjölskyldunni var eftirfarandi:
Alvarleg vanræksla í uppvextinum
Fíknisjúkdómur foreldris
Stjórnsemi og yfirgangur foreldris
Andleg veikindi foreldris
Yfirgangur systkina eða stjúpforeldris sem blóðforeldri styður
Ofverndun
Allt byrjar í æsku
Allt eru þetta góðar og gildar ástæður fyrir að halda sig fjarri og samkvæmt könnuninni sleit enginn fullkomlega á böndin fyrr en hann taldi fullreynt að laga sambandið. En samkvæmt sálfræðingunum sem rannsökuðu sundraðar fjölskyldur er stundum hægt að laga ástandið. Einkum og sér í lagi ef foreldrið er tilbúið að líta í eigin barm og reyna að rjúfa skaðlegt hegðunarmynstur eða viðurkenna tilfinningar barns síns og biðjast í einlægni afsökunar á því sem gerðist meðan það var að vaxa upp.
Margar rannsóknir sýna fram á að þegar fólk ákveður að slíta tengsl innan fjölskyldna á það í langflestum tilfellum rætur að rekja til aðstæðna í æsku eða atburða sem áttu sér stað meðan barnið var að alast upp. Mikill sársauki og sorg er undirrótin að sundrun fjölskyldunnar og enginn kemst óskaddaður frá því. Mæður sem elska börn sín af öllu hjarta og myndu gera hvað sem er fyrir þau og barnabörnin verða að sætta sig við að hafa enga möguleika á að umgangast þau. Hið sama gildir um feður. Foreldrunum finnst oft að verið sé að refsa þeim fyrir syndir sem þau drýgðu fyrir löngu, eitthvað sem þau hafa oft margbeðist fyrirgefningar á eða réðu ekki við á sínum tíma. En fyrir barninu er sárið of djúpt til að hafa náð að gróa og iðrun foreldranna ekki nægilegt smyrsl á opna und.
Því fylgir mikil skömm að barn þitt eða börn hafi hafnað þér og mjög margir leyna því hvenrig ástandið er. Láta sem sambandið sé gott að allt sé í lagi. Þess vegna hikar fólk við að leita sér hjálpar eða blanda fagaðilum í málið, bæði óttast það að þá frétti allir hvað er í gangi og að ástandið verði jafnvel enn verra. Hugsanlega er eitthvert samband við einhvern hluta fjölskyldunnar eða barnabörnin og viðkomandi má ekki til þess hugsa að líka verði klippt á það.
Betur komin án móður
Lifðu núna fékk sendar sögur tveggja kvenna sem báðar búa við það að fullorðin börn þeirra tala ekki við þær.
„Ég missti manninn minn og bað sannarlega ekki um að verða ekkja. Börnin okkar voru orðin fullorðin þegar pabbi þeirra féll frá og ég átti í mjög góðu sambandi við þau. Ég kynntist öðrum manni í gegnum sameiginlegt áhugamál og mér datt aldrei í hug að það myndi valda vandamálum í fjölskyldunni. Í fyrstu var allt í lagi en svo fór að bera á því að mínum börnum þætti ég gera of vel við börnin hans. Æ oftar fékk ég athugasemdir varðandi gjafir sem ég gaf og eitt sinn lét ég einu stjúpbarna minna í té muni úr mínu búi sem ég var hætt að nota og datt ekki í hug að nokkur annar hefði áhuga á að eiga. Það varð mikil sprenging og börnin mín helltu sér yfir mig. Þau tíunduðu ýmis atvik úr æsku sem áttu að sýna að ég hefði ávallt tekið aðra framyfir þau og eins og þau orðuðu það, sleikt mér upp við Pétur og Pál meðan þau skiptu engu máli. Síðan þetta var hefur hvorugt þeirra talað við mig. Eitt barnabarna minna heldur sambandi en hin þrjú hafa kosið að fylgja foreldrunum. Ég gekk í gegnum gífurlegt sorgarferli eftir þetta og enn hellist söknuðurinn reglulega yfir mig. Ég hef margoft reynt að biðjast fyrirgefningar og beðið um samtal til að byggja brýr til baka en annað hvort er mér ekki svarað eða sagt að það sé of seint.“
„Dóttir mín hefur ekki talað við mig í fimm ár. Hún segir að ég hafi brugðist henni þegar hún hafi leitað til mín vegna kynferðisofbeldis þegar hún var barn. Ég man ekki eftir atvikinu sem hún lýsir og í fyrstu gat ég ekki trúað að ég hefði virkilega svarað henni eins og hún segir að ég hafi gert. Hún stormaði út eftir eitt af mörgum rifrildum okkar um þetta efni og svarar mér ekki reyni ég að hringja í hana eða hafa samband eftir öðrum leiðum. Ég hef boðið henni að mæta með henni til sálfræðings og ræða málin og beðið fyrirgefningar á að hafa brugðist henni þótt ég í einlægni muni ekki eftir að hún hafi sagt mér þetta. Hún lét færa mér þau skilaboð að það sé henni of sársaukafullt að vera í samskiptum við mig vegna þess að ég vilji ekki viðurkenna brot mitt gagnvert henni og hún sé því betur komin án mín.“
En eru fullorðnir betur komin án foreldra sinna og samskipta við þau? Það er erfitt að dæma því hvert tilfelli er einstakt. Hver og einn verður þess vegna að finna sína leið til baka. Nýlega fjallaði Lifðu núna um bókina Tengdamamman eftir Mou Herngren en þar er á næman og einstakan hátt fjallað um sundrungu í fjölskyldu.
Hvað er hægt að gera til að laga ástandið?
- Láttu vita að þú sért alltaf tilbúin/n í samtal og taka upp samband aftur.
- Haltu sambandi við aðra í fjölskyldunni eða þá sem vilja rækta tengsl við þig. Sýndu að þú sért tilbúin/n að vera til staðar og munir ekki flýja vilji viðkomandi gera upp ykkar mál.
- Leitaðu þér hjálpar. Talaðu við sálfræðing eða fjölskylduráðgjafa og reyndu að finna leið til að takast á við sorgina sem óhjákvæmilega fylgir svona ástandi.
- Gættu þess að láta ekki vaða yfir mörk þín.
- Ekki bera út sögur um barn þitt eða tengdabarn til að réttlæta ástandið hvað þig varðar, jafnvel þótt þau geri það. Haltu öðrum í fjölskyldunni utan við vandann og ræddu hann aldrei við aðra eða gerðu þá kröfu að þeir taki þínu svari gegn barninu þínu.
- Vertu fyrirmynd.
- Skapaðu þér gott líf óháð börnunum þínum.
- Þegar og ef þau hafa samband hlustaðu þá vandlega á það sem þau hafa að segja. Ekki fara strax í vörn eða hafna þeirra upplifun, sýndu þeirra tilfinningum þá virðingu að viðurkenna þær.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.