Fullorðin börn og foreldrar þeirra

Eldra fólki er mikilvægt að eiga í jákvæðum tengslum við fjölskyldur sínar, sérstaklega uppkomin börn. Það getur hreinlega verið heilsubætandi. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birtar voru í Journal of Alzheimer’s Disease fyrir rúmu ári kom fram að þeir sem voru í góðu sambandi við börn sín fengju síður heilahrörnunarsjúkdóma, og mun síðar á ævinni en þeir sem áttu í slæmum samskiptum við uppkomnu börnin. Þarna spilar margt inn í. Fólkinu sem fannst það eiga í erfiðleikum í samskiptum við uppkomnu börnin og upplifði sig eitt í tilverunni, einangraði sig gjarnan, hreyfði sig lítið, borðaði næringarminni mat en hinir sem upplifðu góð tengsl við börn sín. Þeir glímdu líka gjarnan við þunglyndi og þeir sögðu að þeim fyndust þeir einskis virði. Margir skömmuðust sín auk þess fyrir að geta ekki átt í eðlilegum samskiptum.

Sálfræðingurinn Kathy McCoy segir í grein á vef Huffington Post að þó foreldrar eigi í slæmum samskiptum við börn sín sé oft hægt að laga ástandið. Hún segir að fyrsta skrefið sé að segja „fyrirgefðu“ jafnvel þó foreldrunum finnist þeir ekki hafa gert neitt á hlut barnsins og finndist sem börnin ættu að biðjast fyrirgefningar. Að taka þetta skref, segir Kathy, getur eytt misskilningi og hjálpað til að leysa hnútinn. Þetta er hins vegar ekki auðvelt skref að stíga, segir hún og bætir við að það kosti að fólk líti yfir farinn veg og skoði hvað fór úrskeiðis í samskiptunum, hvenær og við hvaða aðstæður.

Kathy segir líka að foreldrar verði að virða það að þeir séu ekki númer eitt í lífi fullorðinna barna. Þau eignist maka og börn og vilji eiga sitt sjálfstæða líf. Foreldrarnir ættu að fagna þessu nýja fólki í lífi barnsins í stað þess að hengja sig í það sem einu sinni var. Virðið sjálfstæði barna ykkar og ekki koma með óumbeðnar ráðleggingar, ekki segja þeim hvernig þau eigi að lifa lífinu eða gagnrýna þau fyrir þær ákvarðanir sem þau taka.

Ekki fara í einhvers konar valdaleiki við börnin, til dæmis með því að hjálpa þeim fjárhagslega og halda í kjölfarið að þið hafið rétt á að skipta ykkur af því hvernig þau lifa lífinu. Það getur leitt til ýmisskonar vandræða og líka til þess að börnin kjósi að hafa sem minnst samskipti.

Kathy segir að tímabundin fjarlægð geti oft bætt samband foreldra og fullorðinna barna. Þá fái bæði foreldrarnir og börnin tíma til að vega og meta ástandið og hugsa málin upp á nýtt. Það sé svo ekki úr vegi að leita til sérfræðinga ef ekkert gengur að bæta sambandið á mill fullorðinna barna og foreldra þeirra.

 

Ritstjórn júní 13, 2018 09:38