Fullorðin börn í betra sambandi við foreldra sína en áður

Samkvæmt nýjum bandarískum rannsóknum er miðaldra fólk í dag nátengdara börnum sínum en foreldrakynslóð þeirra var.  Samkvæmt nýrri rannsókn AARP og greint er frá á vefnum aarp.com ræðir miðaldra fólk oftar við börn sín, eyðir meiri tíma með þeim, hittir þau oftar og á nánara trúnarðarsamband við börn sín en foreldrar þeirra áttu við sín börn. Miðaldra fólk, í dag, hjálpar börnum sínum talsvert meira en foreldrar gerðu um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Sem dæmi um þetta má taka hina 25 ára Ariyon sem er með meistaragráðu frá virtum háskóla, eins og Conrad 59 ára faðir hennar. Ólíkt því sem gerðist með föður hennar býr hún ennþá heima. „Mig hafði alltaf langað til að vera farin við 25 ára aldur en hef nú ákveðið að vera ekkert að streitast við eitthvað sem ég hef varla efni á“, segir hún. Ariyon metur tímann með föður sínum mikils. „Við tölum um alla hluti, jafnvel um ástarsambönd“ segir hún og bætir við „hann skilur mig,“. Faðir Conrads var húsvörður og foreldrar hans lögðu mikla áherslu á menntun. Fimm barna húsvarðarins luku háskólanámi og hófu strax störf að námi loknu.

Nálægð er góð.

Prófessorinn Karen Fingerman í Texas segir að samkvæmt rannsóknum hennar á sambandi barna og foreldra sé samband foreldra og barna að verða nánara og því beri að fagna. Það má hins vegar spyrja hvort það sé ekki slæmt fyrir börn og foreldra þegar börnin búa heima langt fram á fullorðins ár. Fingerman segist sjálf hafa verið þeirrar skoðunar að börn ættu að flytja að heiman snemma. „Upphaflega var ég sama sinnis en eftir að hafa rætt við yfir 3.500 manns, foreldra og börn úr öllum stéttum, á síðast liðnum tuttugu árum komst ég að því að börnum sem eiga náið samband við foreldra sína vegnar betur í lífinu. Í raun var kynslóðabilið sem þekktist á áratugunum eftir síðari heimsstyrjöld frávik frá því sem áður þekktist um allan heim. Í flestum menningarheimum var samband barna og foreldra náið, Bandaríkin um miðbik 20. aldar voru undantekning og þeir sem eru miðaldra nú eru afbrigðið frá reglunni“ segir hún.

Að bjarga sér á eigin spýtur

Fyrir þessu eru réttmætar ástæður. Að verða fullorðinn þegar efnahagur er í lægð þýðir að erfitt getur verið að fá vinnu og bjarga sér á eigin spýtur. Robert Huber greinahöfundur segir að báðir synir hans búi enn heima og hann njóti þess að hafa þá svona nálægt sér. „En ég hef jafnframt vissar áhyggjur af því hvort við séum að gera þeim ógagn með því að halda þeim svona nærri okkur? Erum við að koma í veg fyrir að þeir verði að mönnum, spyr Huber. „Tvítugum lá mér á að komast að heiman og gilti þá engu hvernig ég sæi mér farborða. Á þeim árum hringdi mamma kannski einu sinni í mánuði og pabbi sárasjaldan en það var vegna þess að hann vildi að ég hætti að selja úr mér blóðið en hann hafði komist að því að ég gerði það, nokkuð sem hann taldi ekki heilnæmt. Ég hafði ráð hans að engu. Vinir mínir voru á svipuðu róli, vildu eins og ég, fá að brjótast áfram sjálfir og vildu fá að gera sín eigin mistök. Þetta var gamla aðferðin við það að fullorðnast.“

Fullorðinsár í sjónmáli

Sálfræðiprófessorinn Jeffrey Arnett við Clark háskólann í Massachusetts telur að ungt fólk á aldrinum 18 til 29 ára gangi í gengum skeið, áður óskilgreint, en það sem nú mætti kalla „fullorðinsár í sjónmáli“, tímabil leitar og sjálfskönnunar. „Í dag blasir talsvert flókinn heimur og flókinn atvinnumarkaður við unga fólkinu, flóknari en sá heimur sem foreldrar þeirra kynntust“, segir prófessorinn. Ný starfssvið eins og tölvur og tækni standa unga fólkinu til boða en störfin í þeim greinum geta einnig krafist mun meiri menntunar og þjálfunar heldur en þau störf sem foreldrar þeirra gengu í. Þá eru persónulegir möguleikar mun fjölbreyttari og hömlur færri varðandi hluti eins og hjónaband og kynhneigð. Á sviðum einkalífs geta góð ráð foreldra verið ómetanleg. Fjölmenning á hugsanlega þátt í þessu afturhvarfi. Hinn 55 ára gamli Carlos Berrios ólst upp í New Jersey en hugnaðist aldrei sú hugmyndafræði að: „Fólk yrði að flytja að heiman hvað sem það kostaði“. „Í mínum heimi snýst allt um fjölskylduna“ segir þessi kjólfataleigu- eigandi, en fjölskylda hans er upprunnin á Puerto Rico. Tuttugu og eins árs gömul dóttir Carlosar, Jenna, flutti að heiman til að fara í háskóla fjarri heimahögum en skipti síðar um skóla og flutti aftur heim. Þannig gat hún einnig aðstoðað við ummönnun langömmu sinnar sem bjó í nágrenninu. Jenna ætlar að flytja að heiman þegar hún lýkur námi en segir að ekkert liggi á flutningum.

Að ala önn fyrir börnunum

Huber greinahöfundur, segir að sumir foreldrar eigi vissulega í erfiðleikum með að ala önn fyrir uppkomnum börnum sem ekki geta af einhverjum ástæðum séð sér farborða. „En því meir sem ég lít í kringum mig, því fleiri ungmenni sé ég sem eru nákomin foreldrum sínum en eru samt mjög sjálfstæð þrátt fyrir að búa enn heima. Þetta virðist vera þverstæða en er það samt ekki eða eins og rannsóknarniðurstöður Fingerman benda til þá leiðir gott uppeldi bæði til kærleika og sjálfstæðis. Nánara samband gerir börnum okkar kleift að blómstra í sífellt flóknari heimi. „Sonur minn er útskrifaður úr kennaraháskóla og hefur fengið stöðu sem aðstoðarkennari. Hann segir að ég eigi ekki að hafa þessar áhyggjur af ungu kynslóðinni og því hvort fólk fullorðnist nógu hratt. Sjálfur er hann að safna fyrir útborgun í íbúð og ég stend sjálfan mig að því að langa til að segja honum að honum að það liggi ekkert á. Taktu þinn tíma Sam,“ segir Hubner ennfremur.

 

Ritstjórn febrúar 10, 2016 11:10