Sambandsslit

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Hver man ekki eftir ástarsambandinu milli viðskiptavinar og sjálfsafgreiðsluvélar í ónefndri matarverslun í Áramótaskaupinu. Ógleymanleg sena. Við sambýlingarnar áttum öðru vísi senu fyrir framan sambærilega vél í dag.

Staðan var þessi. Ein manneskja var að afgreiða á „gamaldags kassa“ og að minnsta kosti tíu manneskjur að bíða eftir afgreiðslu, flestir með fullar kerrur. Við ákáðum því að herða okkur upp og leggja í talandi sjálfsafgreiðslukassa enda virtust þeir vera mjög vingjarnlegir og ástleitnir í Skaupinu. Ég var með burðarpokana og karlinn að leita að strimlamerkingunum, gleraugnalaus. Fyrstu vörurnar, eldhúsrúllur og klósettpappir, fylltu snarlega  pokasvæðið. Af gömlu vana byrjaði ég að fjarlægja þessa pappírsvöru ofan í poka enda ekki pláss fyrir allt sem átti eftir að bætast við. En þá var fjandinn laus. Vélin hrópar hátt á okkur og segir að við þurfum aðstoð. Drengur í merktri peysu kemur og fer að tala við okkur á ensku. Ég sagði honum að við töluðum enn ágæta íslensku og eftir það muldraði hann eitthvað sem hvorugt okkar skildi. En ég held að hann hafi verið að segja okkur að við mættum ekki taka neitt af pokasvæðinu fyrr en að aðgerðinni væri lokið. Fólkið í röðinni eftir gamaldags afgreiðslu fór að fylgjast með þessu atriði við vélina og augnaráðið var fullt af samúð.

Aflestur á nánast öllum vörunum sem á eftir komu tilkynnti okkur að við þyrftum að leita aðstoðar.  Drengurinn varð líka pirraður og henti vörunum á pokasvæðið. Loks kom að skarlott lauknum, þrír í poka sem eiga að vera með fiskinum í kvöld. Það var enginn mynd af slíku fyrirbæri í grænmetismyndasafninu en að lokum fundum við mynd af venjulegan lauk og létum slag standa. Sennilega svipað verð, en kannski verð ég sektuð fyrir svind ef ég kem þarna aftur. Drengurinn ætlaði að fara að útskýra hvað við ættum að gera næst. Ég sagði honum að það væri óþarfi, það yrði ekkert næst og maðurinn minn tilkynnti þolinmóða fólkinu í biðröðinni að hingað kæmum við aldrei aftur.  Ég geri ráð fyrir að við verðum að standa við þessa yfirlýsingu. Sem sagt, sambandsslit við gömlu uppáhaldsbúðina mína. Þannig er lífið á tímum tækniþróunar og uppsagna starfsfólks.

Sigrún Stefánsdóttir febrúar 10, 2020 22:25