Þegar haustlitirnir breiða sig yfir gróðurinn og kvöldin verða dimm er kominn tími til að taka fram prjónana og fitja upp á að nýju. Tvær nýjar prjónabækur rak nýverið á fjörur ritstjóra Lifðu núna. Þær eiga það sameiginlegt að innihalda óvenjulega falleg föt sem er spennandi og skemmtilegt að prjóna.
Ullaræði 2 er litrík og fjölbreytt bók en íslenski lopinn var finnsta hönnuðunum Heli Nikula en hönnuðarnafn hennar er Villahullu, innblástur að skemmtilegum mynstrum og litasamsetningu. Hér að finna frábær tilbrigði við þessa hlýju og góðu skjólflík sem reynst hefur okkur Íslendingum notadrjúg í um það bil öld sem og fallega vettlinga, húfur, sokka og annað sem er ómissandi í snjónum í vetur. Áður hefur komið út bókin Ullaræði, með flíkum frá sama hönnuði en það er Guðrún Hannele Henttinen sem þýðir þessar bækur. Villahullu nýtur mikillar hylli víða um heim og frábært að hún skuli breiða út það fagnaðarerindi að íslenski lopinn er frábært efni að prjóna úr.
Yndislegar flíkur fyrir þau allra minnstu
Ljúflingar: Uppáhaldsföt á yngstu börnin er ekki bara skemmtileg prjónabók heldur einstaklega falleg ljósmyndabók. Þau eru svo yndislega falleg litlu krílin í sem hér sitja fyrir í flottum handprjónuðum flíkum að það er gaman að fletta bókinni bara þess vegna. En handóðir prjónarar og aðrir sem hafa gaman af að munda prjóna finna hér sjötíu uppskriftir að gullfallegum prjónaflíkum og fylgihlutum handa börnum frá fæðingu og upp í fjögurra ára. Sumt er einfalt og á færi allra en annað flóknara og aðeins fyrir lengra komna. Nokkrar villur slæddust inn í bókina en leiðréttingar á þeim má finna á heimasíðu Forlagsins. Það eru þau Hanne Andreassen Hjelmås og Torunn Steinsland sem eru höfundarnir að baki þessari bók en þau standa að Klompelome en það er bæði vefsíða og netveslun. Áður hafa komið út á íslensku eftir þau bækurnar Ljúflingar: Prjónað á stóra og smáa og Ljúflingar: Prjónað fyrir útivistina.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.