Breytingaskeið kvenna hefst yfirleitt um 45-50 ára aldur og stendur yfir í um 5-7 ár þar sem dregur verulega úr framleiðslu líkamans á kvenhormónum. Þetta er þó ekki einhlítt en líkamlegar breytingar byrja oftast nokkrum árum áður en blæðingum lýkur. Líkamlegar breytingar, og andlegar, eru margvíslegar samhliða þessu ferli. Húðin þynnist, konur þyngjast og vöðvastyrkur minnkar svo eitthvað sé nefnt. Margar konur gefa gaum að fæðunni á þessu skeiði, auka inntöku prótíns, grænmetis og ávaxta en það er vitað og gott að hafa í huga að vítamín, steinefni o.fl. er alltaf best að fá úr hreinum afurðum og beint úr fæðunni fremur en bætiefnum.
Sem betur fer upplifa ekki allar konur breytingaskeiðið sem erfitt tímabil. Margar konur eru fullar orku og finnst þær frjálsari en áður, börnin farin að heiman, meiri tími fyrir þær sjálfar, fjárhagurinn rýmri o.fl. í þeim dúr. En fyrir aðrar fylgir þessu skeiði slæm hitakóf, aukakíló, svefnvandi, minnkað sjálfstraust, skert minni og þunglyndi. Því ættu flestar konur að huga að ákveðnum þáttum á þessu skeiði til að auka lífsgæði sín í nútíð og framtíð. Einn af þeim er hreyfing. Henni er stundum líst sem allra meina bót og það er margt til í því. Hreyfing getur verið félagsleg, í gönguhóp, eða göngutúrar með vinum, golf í vinahóp – maður er jú manns gaman.
Ákveðin hreyfing getur seinkað alvarlegum sjúkdómum eins og alzheimers
En þó svo að þessi hreyfing sé góð þá dugar hún ekki til að vinna á móti breytingum sem verður á þessu skeiði, eins og vöðvarýrnun eins og oft fylgir alvarlegum veikindum t.d. Það þarf að gera ákveðnar æfingar þar sem m.a. ákefð kemur við sögu.
Líkamsrækt sem virkaði vel fyrir konur áður hentar ekki eins vel lengur og því þurfa konur að hugsa hlutina svolítið upp nýtt. Flestar konur kannast við það að fitna á breytingaskeiðinu og að lítið sem ekkert gerist þótt þær striti á hlaupabrettinu, gangi daglega eða hugi vel að því hvað þær láti ofan í sig. Konur á þessu skeiði ættu bæði að hreyfa sig rösklega í 75-140 mín. í viku en auk þess er nauðsynlegt að erfiða og lyfta lóðum. Þá sýna rannsóknir að hreyfing þar sem ákefð kemur við sögu, eins og tennis, að taka spretti á hlaupabretti o.fl. getur seinkað ýmsum alvarlegum sjúkdómun eins og alzheimer-sjúkdómi, en konur eru líklegri til að fá hann en karlar, svo það er til mikils að vinna enda er það að eldast vinna en þess virði að rækja til að halda sem mestum lífsgæðum.
Líkamsræktarþjálfarar segja að karlmenn séu mun fljótari að ná af sér aukakílóunum en konur, þær þurfi að hafa töluvert meira fyrir því.
Lyftingar og ákefðarþjálfun eru lykilatriði
Fyrir konur á breytingaskeiðinu er lykilatriði í líkamsrækt að lyfta lóðum tvisvar til þrisvar sinnum í viku og taka spretti á hlaupabrettinu, sem sagt erfiða svolítið. Þetta þurfa þær að gera til að mæta minnkuðu estrógeni í líkamanum sem hefur áhrif á vöðvastyrkinn, beinþéttni og taugaboðefni í heila sem stjórnar minni og einbeitingu, fyrir utan að þetta er besta leiðin vilji konur stjórna þyngdinni eins og áður sagði. Öll hreyfing er góð og hefur áhrif á líkamlega og andlega vellíðan. Hún losar endorfín, sem oft er kallað gleðihormónið, út í líkamann en með styrktaræfingum eins og lyftingum eykst vöðvastyrkur og beinþéttni hins vegar og þannig minnka líkur á beinþynningu. Lyftingar hafa einnig mjög góð áhrif á brennslu í líkamanum, og betri en t.d. göngur, en stærri vöðvar brenna fleiri hitaeiningum.
Í þessu sambandi hefur verið talað um HIIT-þjálfun eða High Intensity Interval Training en það er einnig talið að slíkar æfingar hafi góð áhrif á blóðsykur, hjarta og æðakerfi og fitubrennslu. Æfingar, 20 mínútur í senn, fela í sér nokkrar lotur af sprettum á móti rólegri æfingu og þetta er endurtekið út tímann. Í byrjun er mælt með að rólegi hlutinn sem lengri en sá hraði, t.d. 60 sek. hægur á móti 30 sek. Síðan er hraði hlutinn aukinn smám saman og hægi hlutinn verður styttri. Þessar æfingar má gera í ræktinni, t.d. á þrekhjóli eða hlaupabretti en tækin þar hafa HIIT-kerfi innbyggt, eru tölvustýrð og þar má fá aðstoð ef þarf. Svo er að sjálfsögðu hægt að gera þetta úti fyrir þá sem það kjósa en þá og nota úr eða púlsmæli ef fólk á slíkt í Garmin-úri. Ekki er mælt með að gera þessar æfingar daglega heldur tvisvar til þrisvar í viku og því upplagt að hafa með hreyfingu sem fólk hefur ánægju af, göngur, golf, jóga eða sund.
Gott að næra sig fyrir og eftir æfingar
Mælt er með að næra sig sem fyrst eftir æfingar og líkamsrækt því þá er brennslan enn hraðari en annars. Konur ættu hins vegar líka að næra sig fyrir æfingar og helst að hafa prótín og kolvetni þar. Það sama gildir um næringu eftir æfingar, prótín og kolvetni ættu að vera í næringunni, sem þarf að vera helst innan 30 mínútna. Næringin tekur þátt í að byggja upp vöðva, koma í veg fyrir fitusöfnun á kviði og til að koma í veg fyrri of mikið af kortisóli, sem er streituhormón í líkamanum.
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna