Ferðalagið úr lífinu í dauðann

Sigrún Sveinbjörnsdóttir

Á bílastæði sjúkrahússins mæti ég góðri kunningjakonu, hún á leið til maka síns sem þar lá sína hinstu legu, ég á leið frá mínum maka sem beið uppskurðar vegna krabbameins. Við föðmumst og hún segir: ef ég má gefa eitt ráð þá er það það að þið hafið samband við Heimahlynningu. En – segi ég – Brynjar er enn í vinnu – Breytir engu – trúðu mér – það gerir gæfumuninn. Full efa hringdi ég í Heimahlynningu Akureyrar og spurði varfærnislega hvort ég hafi ratað rétt og hvort við ættum möguleika á heimsókn.

Þannig lýsir Sigrún Sveinbjörnsdóttir, sálfræðingur, fyrstu kynnum sínum af heimahlynningunni og þeim liðstyrk sem þangað var að sækja við síðasta undirbúning hjónanna saman – í ferðalagið – úr lífinu í dauðann. Annað þeirra færi og hitt yrði eftir. Þau yrðu að skilja eftir 50 ára ferðalag saman í gegnum lífið. Hvernig undirbýr maður þannig ferðalag ? Hvar var handbókin?

Heimahlynning er teymi  hjúkrunarfræðinga sem skipta með sér verkefnum. Einn hjúkrunarfræðingur er aðaltengill hvers sjúklings en teymið heldur utan um alla hluti sem viðkoma heilsu og þjónustu við þann sjúka – allt til lífsloka. Hringir út um víðan völl, hefur milligöngu um hvaðeina, lætur vita til hægri og vinstri hvað gera þarf – hvernig og hvers vegna, ber skilaboð milli, tekur á sínar herðar að tryggja aðgang sjúklings að hverju sem þörf er á hverju sinni.

„Strax eftir fyrstu heimsókn var eins og heilu bjargi hefði verið lyft af herðum mér. Það var sama sagan með makann. Í næstu heimsókn orðaði ég þennan létti við heimahlynningarengilinn. Kannske er þessi léttir vegna þess að við berum ábyrgðina með ykkur. Og það var lóðið. Við höfðum fengið liðsauka, fagmenn með þekkingu. Kröftum okkar hjóna var eftir þetta ekki eytt í það að velkjast í vafa – hafa áhyggjur af framvindu meðferðar…. hvað ef… hvað ef…  Við fengum ráðrúm til að verja kröftum okkar í allt annað, því svo vel róaði englavaktin okkur að við hringdum sjaldan eftir hjálp og spöruðum sjúkrahúsheimsóknir. Bryngjar lagðist reyndar aldrei inn eftir að heimahlynning mætti til leiks.“

Þegar Sigrún lítur til baka segist hún  ekki átta sig á því hvort þeirra hjóna hafi elskað englasveitina meira eða heitar. Hún segir að þau hafi líka áttað sig á því að þessi gerð þjónustu sé ekki sjálfgefin Hún kosti peninga og húsnæði svo sveitin geti sinnt samhæfingarhlutverkinu og haldið út sem brúin á milli allra sem snerta mál þess sem stendur frammi fyrir lífslokum.

„Eitt það síðasta sem Brynjar megnaði í lifenda lífi, örfáum stundum áður en lífsandinn hvarf úr líkama hans og þorrið var þrek til máls, að hann lyftir hönd sinni og strauk vanga þess engils sem síðust var með okkur – eins og til að þakka heimahlynningu sem gerði honum kleift að kveðja með reisn og mér með sömu reisn að lifa það af. Í bókstaflegri merkingu hélt englasveitin í hendur okkar og leiddi okkur rólega og fumlaust í átt til dauðans sem smám saman missti framandleikann og varð hluti af okkar lífi,“ segir Sigrún Sveinbjörnsdóttir að lokum.

( þessi grein er byggð á fyrirlestri sem Sigrún Sveinbjörnsdóttir flutti á málþingi á vegum Hollvinasamtaka líknarþjónustu á Akureyri, Heimahlynningar á Akureyri, Sjúkrahússins á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Oddfellowreglunar á Akureyri)

Ritstjórn mars 12, 2020 08:10