Að kyrra hugann og finna innra jafnvægi og vellíðan

Auður Bjarnadóttir.

„Það geta allir stundað jóga sama á hvaða aldri þeir eru. Eina sem maður þarf að gera er að ákveða að hreyfa sig ævina á enda. Ef fólki dettur í hug að það sé of stirt til að fara í jóga þá er það regin firra. Það hafa allir gott af því að teygja á líkamanum og viðhalda liðleika,“ segir Auður Bjarnadóttir jógakennari og bætir við að æfingarnar miðist við getu hvers og eins.

Hún segir að jógaiðkun sé sérlega góð  fyrir fólk sem farið er að eldast. Því jóga sé miklu meira en hreyfing hún sé líka hugleiðsla. „Mörgu fólki finnst erfitt þegar líkamleg geta minnkar, það hægir á öllu nema huganum. Þess vegna er svo mikilvægt gera æfingar og kyrra hugann um leið. Læra að mæta sjálfum sér með góðum hugsunum. Við þurfum að hugsa vel til okkar sjálfra,“ segir hún.

Einn þáttur þess að líða vel er að kunna að draga djúpt andann. „Um leið og við drögum andann djúpt fáum við meira súrefni, blóðflæðið í líkamanum eykst og okkur líður

Úr tíma hjá 60 plús.

strax betur,“ segir Auður og bætir við, að fólk þurfi að læra að kyrra hugann og komast í innra jafnvægi. Það sé sérlega mikilvægt þegar líkaminn sé að byrja að hrörna. Andleg og líkamleg heilsa haldist í hendur. Að geta samþykkt sig  og líðan sína í núinu er óendanlega mikilvægt. Og að þjálfa jákvæðan huga alla leið.

Það var í fyrrahaust sem Auður hélt sitt fyrsta námskeið sem var ætlað þeim sem eru 60 plús. „Þetta var mjög skemmtilegt. Það var svo mikil gleði á námskeiðunum að við dönsuðum stundum. Við vorum með einn tíma í viku og svo fengu allir heimanám. Við kenndum teygju- og hugleiðsluæfingar sem fólk gerði jafnvel daglega heima hjá sér. Jóga fyrir 60 plús er að mestu á stólum en líka standandi æfingar og slökun. Það voru heilmiklar framfarir hjá þeim sem komu á námskeiðin til okkar. Allt gott skilar sér. Í vetur verða tímar tvisvar í viku og við hlökkum til að efla þetta starf og styrkja þennan aldurshóp enn frekar.

„Ég á mér einn draum. Hann er sá að við getum farið inn á félagsmiðstöðvar og dvalarheimili og kennt fólki jóga þar. Það eru ekki allir sem geta keyrt og það væri svo gaman að geta nálgast fólk þar sem það er. Kannski verður þessi draumur að veruleika innan tíðar,“ segir hún að lokum.

Allar nánari upplýsingar um joganámskeið Auðar er hægt að fá á heimasíðu Jogasetursins slóðin er hér http://jogasetrid.is/

 

 

Ritstjórn ágúst 22, 2017 12:24