Eðli ofbeldis er samt við sig hver sem öldin er

Er hægt að gera sér í hugarlund angist ungra stúlku sem veit að eiginmaður hennar ætlar að drepa hana? Maggie Farrell tekst það ljómandi vel í Brúðarmyndin. Hún ferðast með lesandann aftur í tímann, til áranna 1550-1561, dregur upp myndir af andrúmslofti hirða tveggja ítalskra hertoga, Cosimo Medici og Alfonso Ferrara. Konur eru ekki annað en hlutir í hugum þessara manna, tól til að fæða þeim börn og tæki til að tryggja sér aukin völd gegnum mægðir.

Brúðarmyndin af Lucrzíu Medici hertogaynju af Ferrara.

Lucrezía er yngsta dóttir Cosimos og konu hans, Elenóru. Hún sker sig úr barnahópnum. Hefur frá upphafi verið ævintýragjarnari, forvitnari, fróðleiksfúsari, djarfari og listrænni en hin systkinin. Hún hefur aldrei leitt hugann að hlutverki sínu í lífinu fyrr en María systir hennar deyr og Lucrezíu er gert að fylla skarð hennar, heitbindast hertoganum af Ferrara. Hún er aðeins þrettán ára en með hjálp Sofiu fóstru sinnar tekst henni að seinka brúðkaupinu um ár og fjarvera Alfonsos í stríði seinkar því síðan um ár í viðbót. Lucrezía er því fimmtán ára þegar hún fer úr foreldrahúsum gift kona og gengur inn í nýja hirð þar sem andinn er allur annar en á æskuheimili hennar.

Foreldrar hennar eru að því leyti sérstök að á milli þeirra virðast hafa tekist raunverulegar ástir, vinátta og virðing. Lucrezía gerir sér fljótt ljóst að þannig mun það ekki verða í hennar hjónabandi. Alfonso er maður sem stjórnar með harðneskju og líður engar mótbárur eða málamiðlanir.  Þegar hún hefur ekki orðið þunguð eftir ár í hjónabandi og maður hennar fer með hana frá hirðinni til afskekkts sveitaseturs veit hún að hann ætlar að drepa hana. Það er hefð fyrir því að konur verði fyrir óvæntum slysum í svefnherbergjum sínum nái þær ekki að uppfylla kröfur manna sinna og Lucrezía er enginn kjáni. Hún skynjar hverjum klukkan glymur.

Ljóð Robert Browning innblásturinn

Hugmyndinni að bókinni Brúðarmyndin fékk Maggie Farrell eftir að hún las ljóðið, My Last Duchess, eftir Robert Browning.  Í kvæðinu reynir Browning að setja sig inn í hugsunarhátt ofbeldismanns. Manns sem hefur stórmennskubrjálæði, elskar vald sitt og segir sendimanni fjölskyldu konunnar sem hann ætlar að gera sína næstu brúði hversu óþolandi það hafi verið að fyrri kona hans brosti til annarra, þakkaði þeim, talaði hlýlega til þairra og gladdist yfir hrósi annarra. Allt slíkt átti að hans mati að tilheyra honum einum, enda hafði hann heiðrað hana með því að gefa henni henni níu hundruð ára nafn sitt. Já, heimilisofbeldi er alltaf eins í eðli sínu, samt við sig á sextándu öld og hinni tuttugustu og fyrstu. Augljóslega finnst hertoganum meira til um málverkið en konuna sjálfa og með því að hafa það bak við gluggatjöld getur hann tryggt að aðeins hann sjálfur og útvaldir fái að berja það augum.

Þetta er ekki fyrsta sögulega skáldsaga Maggie O’Farrell. Fyrri bók hennar Hamnet, náði metsölu í Bretlandi og gerist einnig á sextándu öld. Hún fjallar um hjón sem missa barn, annan tvíbura, og sorgin litar líf þeirra og hefur gríðarleg áhrif á hinn tvíburann sem lifir. Maggie hefur sérlega næmt auga fyrir smáatriðum og stíll hennar er mjög lifandi og myndrænn. Lýsingarnar hennar á dýragarði Cosimos í Flórens er unun að lesa sem og lýsingar á klæðnaði, mat, skarti og skemmtunum við hirðar hertoganna. Henni tekst að skapa trúverðuga og einkar athyglisverða mynd af lífi fólks á Ítalíu fyrir vel ríflega fjórum öldum.

Þótt sagan sé vissulega skáldskapur er í henni nægilega mikill sannleikur til að skilja lesandann eftir hugsi um stöðu kvenna á valdi stjórnsams karlmanns. Hún er einnig fangi stöðu sinnar. Getur ekki og má ekki treysta neinum. Elísabetta, önnur systra Alfonsos sem enn búa við hirðina, sýnir henni vináttu en móðir hennar varar hana við, aldrei sýna að hún taki einn ættingja eiginmanns síns fram yfir annan. Það er aldrei að vita nema verið sé að notfæra sér hana til að hafa áhrif á og komast inn undir hjá manni hennar. Lucrezía á sér engu að síður bandamenn, Sofia, fóstra hennar, Emilía þernan hennar og aðstoðarmaður málarans Il Bastianino sem málar brúðarmyndina reynist vinur í raun.

Maggie O’Farrell er skarpskyggn höfundur og texti hennar ljóðrænn og fallegur. Þessi saga er löng en þess virði að gefa sér tíma til að lesa hana til enda, njóta hverrar síðu, hverrar málsgreinar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 4, 2024 07:00