Ofbeldi gagnvart öldruðum

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi bæjarstjóri skrifar

Um daginn rakst ég á umfjöllun um ofbeldi gagnvart öldruðum. Ég varð satt að segja dálítið sjokkeruð þegar það rann upp fyrir mér að ofbeldi gegn öldruðum er staðreynd. Í framhaldinu fór ég að leita upplýsinga um það hvort slíkt ofbeldi hefði verið kannað hér á landi, en okkur hætti stundum við að trúa því að þó eitthvað misjafnt gerist með öðrum þjóðum þá eigi það ekki endilega við hér.

Á áttunda áratugnum fóru ríkisstjórnir margra ríkja, m.a. á hinna Norðurlandanna, að gefa út opinberar skýrslur sem sýndu að ofbeldi gegn öldruðum er hvarvetna til. Engar sjálfstæðar rannsóknir virðast hafa verið gerðar hér á landi, en ein erlend rannsókn sem náði til Norðurlandanna náði einnig til Íslands. Niðurstöður þeirrar rannsóknar sýndu að sama hlutfall virtist vera á ofbeldi gegn öldruðum hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Í erlendum rannsóknum kemur m.a. fram að ofbeldi gegn öldruðum mælist 2-10% og fer tíðni þess vaxandi með hækkandi aldri og lélegra líkamsástandi. Flestar rannsóknir fjalla um vanrækslu, andlegt-, líkamlegt-, fjárhagslegt- og kynferðislegt ofbeldi sem helstu tegundir ofbeldis gegn öldruðum, en þær algengustu virðast vera vanræksla og andlegt ofbeldi.

Veit almenningur að aldraðir eru beittir ofbeldi, eða viljum við ekki vita það? Það vantar vandaða íslenska rannsókn sem hægt væri að byggja á, því tölur úr þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið erlendis eru nokkuð misvísandi. Og ef vilji er til þess að koma í veg fyrir eða minnka ofbeldi gegn öldruðum er betra að styðjast við rannsóknir sem gerðar hafa verið hér, þó ljóst sé að við virðumst í engu frábrugðin öðrum þjóðum í þessum efnum.

Í Bretlandi fara tveir þriðju hlutar ofbeldisins fram innan veggja heimilisins, um 22% á elliheimilum, 5% á sjúkrahúsum, 4% í þjónustuíbúðum og 2% annars staðar. Gerendur ofbeldisins voru í flestum tilvikum makar og uppkomin börn hins aldraða, sem sáu um umönnun hans. Einangrun og þung umönnunarbyrði virðist auka líkurnar á því að umönnunaraðilinn gripi til ofbeldis. Einnig hefur komið í ljós að álag á umönnunaraðila, geðræn vandamál, fjárhagslegir erfiðleikar og ófullnægjandi úrræði fyrir hinn aldraða eru helstu áhættuþættir gerenda ofbeldisins. Í ljósi þessa koma eðlilega upp vangaveltur um það hvort sú stefna stjórnvalda að aldraðir búi sem lengst heima byggi á nægjanlega traustum grunni, en svo virðist sem stjórnvöld hafi ekki sett fram stefnu sem tekur mið af því að ofbeldi gegn öldruðum sé staðreynd.

Ástæðurnar fyrir því að farið var að fjalla um ofbeldi gegn öldruðum eru annars vegar þær að mannréttindi, jafnrétti kynjanna og heimilisofbeldi almennt hefur verið ofar á dagskrá en áður var, en einnig hitt að öldruðum fer nú mjög fjölgandi. Það á einnig við á Íslandi. En hvað er þá til ráða? Jú, einkum er bent á að auka þurfi þátttöku aldraðra í þjóðfélaginu og stjórn þeirra á eigin málefnum. Velferð og jöfnuður þarf að vera til staðar. Rannsóknir á ofbeldi gegn öldruðum þarf að efla og jafnframt vitund fólks um að það á sér stað. Hér á landi mætti virkja betur þjónustuhópa aldraðra. Það þarf að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði sem flestra aldraðra og að þeir sem þá annast hafi kjör sem jafnast á við kjör annarra í þjóðfélaginu. Listinn gæti orðið miklu lengri. En númer eitt er að ræða opið um vandamálið því í opinni umræðu felst mikil forvörn.

 

Svanfríður Jónasdóttir september 21, 2015 10:37