Landakotsbörnin njóti réttlætis af hálfu samfélagsins

Ögmundur Jónasson

Ögmundur Jónasson

„það er ánægjuefni að það skuli hafa myndast þverpólitísk samstaða um þetta mikla réttlætismál. Grunnvinnan  hefur þegar verið unnin í þessu máli með rannsóknarskýrslu, en eftir er að láta fórnarlömb ofbeldis og misnotkunar í Landakotsskóla njóta réttlætis af hálfu samfélagsins,“ segir Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna en hann ásamt þingmönnum úr öllum flokkum er að leggja fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að lögum um sanngirnisbætur verði breytt svo ríkið geti greitt þolendum ofbeldis í Landakotsskóla sanngirnisbætur. „Við skulum ekki gleyma því að Landakotsskóli var og er hluti af almenna skólakerfinu á Íslandi. Auðvitað hefði Kaþólska kirkjan átt að sjá sóma sinn í því greiða þolendum bætur í samræmi við þau viðmið sem sett hafa verið og aðrir fengið að njóta. En fyrst svo er ekki þá verður ríkið að stíga þarna inn. Þingmálið gerir það kleift,“ segir Ögmundur.

Ekki nýja rannsókn

Þeir sem voru misrétti beittir í Landakotsskóla eru flestir komnir á miðjan aldur og þaðan af eldri. Brotin gegn þeim voru framin á árunum 1959 til 1984. Eftir að nokkrir fyrrum nemendur Landakotsskóla stigu fram og lýstu ofbeldi sem þeir máttu þola af hálfu starfsmanna skólans var skipuð sérstök nefnd til að rannsaka starfshætti og viðbrögð kaþólski kirkjunnar á Íslandi vegna ásakana um kynferðisbrot og önnur ofbeldisbrot. Nefndin skilaði skýrslu í nóvember 2012. Í henni greindu þrjátíu manns frá ofbeldi sem þeir urðu fyrir í Landakotsskóla. Þar af sögðust átta hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Í frumvarpi Ögmundar og félaga er gert ráð fyrir að skýrslan geti orðið grundvöllur ákvörðunar ráðherra um að taka skuli kröfu um sanngirnisbætur til meðferðar og að ekki þurfi að láta fara fram aðra rannsókn á starfsemi skólans.

Kaþólska kirkjan neitar bótaskyldu

Fagráð kaþólsku kirkjunnar skoðaði þessi mál og tók til þess þrjú ár.Um miðjan nóvember árið 2013 sendi fagráðið frá sér tilkynningu og sagði kaþólsku kirkjuna á Íslandi ekki bótaskylda nema í einu tilviki. Þrátt fyrir það var ákveðið að greiða nokkrum þolendum bætur. Lægstu bæturnar voru 82 þúsund krónur en þær hæstu námu 300 þúsund krónum. Þetta voru mun lægri bætur en þeir fengu sem höfðu sætt illri meðferð á vistheimilum og stofnunum ríkisins. Lægstu sanngirnisbætur sem voru greiddar til þeirra námu 400 þúsund krónum og upp í 6 milljónir króna. Bótaupphæðin sem hver og einn fékk réðst af því hversu lengi fólk hafði dvalið í umsjá ríkisins.

Reynt að ná fram réttlæti

Landakotsbörnin hafa reynt að ná fram réttlæti í sínu máli og hafa leitað leiða til að fá fulltrúa Vatikansins til að rannsaka mál þeirra.  Þau telja að málið snúist ekki eingöngu um sanngirnisbætur heldur að kirkjan viðurkenni þessi brot og biðjist opinberlega afsökunar. Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Vatíkaninu, hefur rætt við æðstu embættismenn í Páfagarði um hvernig kaþólska kirkjan á Íslandi hefur tekið á málum einstaklinganna. Martin greindi Pétri Bürcher, kaþólska biskupnum á Íslandi, frá þessum viðræðum í febrúar í fyrra en biskup tald þá málinu lokið af hálfu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.

Ritstjórn febrúar 26, 2015 10:07