Andlegt ofbeldi algengast

Sigrún Ingvarsdóttir

Sigrún Ingvarsdóttir

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og forvarnarsamtök hafa skilgreint ofbeldi gagnvart öldruðum sem einstakt eða endurtekið athæfi sem veldur hinum aldraða andlegri þjáningu eða skaða, af hálfu þeirra sem viðkomandi hélt að hann gæti treyst,“ segir Sigrún Ingvarsdóttir, félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg. Hún og Líney Úlfarsdóttir, sálfræðingur hafa fengið styrk frá Öldrunarráði Íslands til að endurtaka rannsókn frá 2007 um ofbeldi gegn öldruðum. Rannsóknin byggir á spurningalistum sem lagðir eru fyrir starfsfólk í heimaþjónustu, bæði hjúkrunarfræðinga og ófaglærða.

Ofbeldi er nokkuð algengt

Í rannsókninni 2007 sögðust 44 prósent starfsfólks heimahjúkrunar og 22 prósent starfsmanna félagslegrar þjónustu hjá borginni hafa orðið vitni að eða grunað, að fólk 67 ára og eldra sem þeir sinntu um hafi orðið fyrir ofbeldi. Þeir sem eru orðnir veikir eru líklegri en aðrir til að vera beittir ofbeldi vegna þess að þeir eru háðir öðrum um aðstoð. Þeir sem beita ofbeldi geta t.d. verið aðstandendur eða starfsmenn sem eiga að vera að aðstoða og hinn aldraði ætti að geta treyst. Erlendar rannsóknir sýna að eftir því sem fólk verður eldra eða veikara eru líkurnar á ofbeldi meiri. Sömuleiðis hafa erlendar rannsóknir sýnt að 3-5 prósent eldra fólks verður fyrir ofbeldi en ekki hafa verið gerðar sambærilegar íslenskar tíðnirannsóknir.

Andlega ofbeldið alvarlegt

„Birtingarmyndir ofbeldis gegn öldruðum geta verið margvíslegar,“ segir Sigrún og bætir við að ein birtingarmynd ofbeldisins og sú algengasta sé andlegt ofbeldi. „Andlegt ofbeldi er svo lúmskt að þeir sem verða fyrir því átta sig oft ekki á hvað er að gerast. En orð særa og þegar fólk er að missa færni á ýmsum sviðum, missir það um leið getu til að gera hluti á sama hátt og það gerði áður. Ef til viðbótar er stöðugt verið að segja fólki hversu miklir aumingjar það er orðið og geti ekki gert hitt eða þetta minnkar sjálfstraustið og fólk lendir í vítahring sem það kemst ekki út úr. Fólk fyllist kvíða og óöryggi,“ segir Sigrún. Önnur birtingarmynd er einsemd. Það eru dæmi um karla og konur sem eru ein mest allan daginn, jafnvel heilabilað fólk.

Líkamlegt ofbeldi

Aldraðir eru líka beittir líkamlegu ofbeldi. Fólk getur verið með líkamlega áverka eftir aðra eins og mar eða beinbrot. Einnig eru dæmi um kynferðislegt ofbeldi gegn öldruðum einstaklingum. Röng lyfjagjöf er önnur birtingamynd ofbeldis þá fær fólk annað hvort of lítið af lyfjum eða of mikið af þeim og stundum „gleymist“ að fara með fólk til læknis. Vannæring og þurrkur geta líka verið einkenni vanrækslu eða ofbeldis og að persónulegri umhirðu og hreinlæti sé ekki sinnt sem skyldi.

Fjárráðin tekin af fólki

Enn ein birtingarmynd ofbeldis gegn öldruðum er fjárhagslegs eðlis. „Það eru dæmi um að börn taki fjárráðin af foreldrum sínum og fari með fjármuni þeirra sem sína eigin. Til eru dæmi um fólk sem heimsækir aldraða í því skyni að hafa af þeim fé. Þetta fólk býðst gjarnan til að kaupa inn fyrir hinn aldraða eða sinna bankaviðskiptum. „Þeir hjálpsömu“ kaupa stundum í leiðinni fyrir sjálfa sig eða taka út peninga af bankareiknum án þess að hafa til þess leyfi. Þeir reyna að gera viðkomandi háðan þessari aðstoð sem leiðir svo til þess að þeir eiga auðvelt með taka fjármuni þeirra ófrjálsri hendi,“ segir Sigrún.

Niðurstöður í árslok

Síðan fyrri rannsókn Sigrúnar var gerð eru liðin átta ár. Þær vonast til að niðurstöður síðari rannsóknarinnar liggi fyrir í lok árs. Fyrstu vísbendingar úr rannsókninni nú benda til að það hafi dregið úr að starfsmenn verði varir við ofbeldi gegn öldruðum á tímabilinu. Hins vegar er búið að vinna úr frekar fáum svörum og frá þeim sem eru í félagslegu heimaþjónustunni en þeir hitta færra og stundum hressara fólk en þeir sem sinna heimahjúkrun. Það eru mun fleiri sem sinna heimahjúkrun sem hitta hinn aldraða á sólarhring og því meiri líkur á að þeir verði varir við ofbeldi gagnvart þeim svo það er ekkert hægt að fullyrða að svo komnu hvort að dregið hafi úr ofbeldi gegn öldruðum.

 

Ritstjórn apríl 27, 2015 10:13