Tengdar greinar

Einstök saga óvenjulegrar konu

Ævi Auriar Hinriksson er ótrúleg. Kona sem fæðist inn í yfirstéttarfjölskyldu á Srí Lanka og hefði getað lifað við allsnægtir í heimalandinu kýs að fara gegn vilja fjölskyldu sinnar og giftast Íslendingi í óþökk þeirra, flækjast með honum víða um heim og kynnast mörgu misjöfnu en hefur alltaf hjálpsemina, greiðviknina og mannkærleikann að leiðarljósi, enda er titill ævisögunnar, Ég skal hjálpa þér.

Herdís Magnea Hübner skráir sögu Auriar, eða Aurangasi eins og skírnarnafn hennar er, og kemur vel til skila einstæðum persónuleika þessarar manneskju. Dugnaður hennar, bjartsýni, þekkingarþorsti, forvitni og velvild skín í gegnum allt. Þórir Hinriksson, eiginmaður Auriar, vann við þróunarhjálp bæði á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðlegra samtaka. Þannig kynnast þau fyrst og með honum flytur Auri til Barein, Indlands, Íran og Íslands. Alls staðar þar sem hún kemur lætur hún sig varða kjör fólksins og reynir að bæta þau á einhvern hátt. Hún eignast líka alls staðar vini.

Auri er hins vegar líka hreinskilin og segir kost og löst á hverju landi þar með talið Íslandi. Hún hefur ekki farið varhluta af kynþáttafordómum landans, tortryggni gagnvart útlendingum og miskunnarlausu bæjarslúðri. Hún kemur einnig inn á ömurlegt einelti á vinnustöðum hér bæði í fiskvinnslu á Ísafirði en þar þótti sjálfsagt að menn kæmust upp með kynferðislega áreitni og blygðunarlaust útlendingahatur. Ástandið var lítið skárra í framhaldsskólanum á Höfn í Hornafirði þar sem klíkuskapur réð andanum og mönnum var ýmist hampað eða þeir útilokaðir og niðurlægðir. Óhæfur stjórnandi reyndi hins vegar ekki einu sinni að takast á við ástandið. Því miður munu margir kannast við þessar lýsingar því andrúmsloft af þessu tagi er alls ekki óalgengt á íslenskum vinnustöðum og enda oftast með þolendur hrökklast úr starfi því bullurnar eru valdamiklar og ekki eingöngu fólk af erlendum uppruna sem verður fyrir þeim.

Auri og Þórir á brúðkaupsdaginn.

Glæpsamlegar ættleiðingar

En áhrifamesti hluti bókarinnar fjallar um þrotlausa vinnu Auriar við að hjálpa ættleiddum börnum að finna líffræðilega foreldra sína. Hún hlaut enda fálkaorðuna fyrir það starf sitt. Því miður er það svo bæði á Srí Lanka og víðar um heim er börnum rænt, mæður neyddar til að gefa þau frá sér eða til að ganga með þau og fæða því efnaðir vesturlandabúar eru tilbúnir að greiða vel fyrir börn. Stjórnvöld bæði hér og víðar hafa kosið að horfa framhjá þessu, látið hjá líða að rannsaka mál en aðeins stöðvað ættleiðingaferli frá viðkomandi landi þegar upp kemst um glæpina. Þetta er klárt brot á mannréttindum þessara barna. Það er hreinlega sorglegt til þess að vita að út um allan heim eru þúsundir barna sem aldrei munu fá að vita sannleikann um uppruna sinn vegna að þess yfirvöld bæði þeirra heimalands og í ættleiðingarlandinu brugðust þeim. Auri á allan heiður skilinn fyrir sitt ómetanlega starf.

Enginn lesandi kemst hjá því að sitja eftir lestur þessarar bókar nokkuð skekinn. Er ríkjandi siðferðisblinda að þessu leyti hjá okkur vesturlandabúum? Teljum við að börn séu svo mikið betur komin hjá okkur að einu gildi hver baksaga þeirra er þegar þau eru færð í hendur vestrænna mæðra? Nú og svo eru því miður ekki allir foreldrar vandanum vaxnir hvort sem börnin þeirra eru fædd af þeim á sjúkrahúsum í heimalandinu eða eru ættleidd erlendis frá. Væri kannski ekki nær að styrkja fátækar mæður til að þær geti haldið börnum sínum fremur en að neyðast til að gefa þau frá sér? Hver og einn verður að svara þessum spurningum fyrir sig en við getum ekki vikist undan þeirri ábyrgð að sýna þessum börnum sömu virðingu og umhyggju og börnum sem fædd eru hér á landi. Þau verða því miður fyrir kynþáttafordómum og mæta algjöru skilningsleysi og afskiptaleysi þegar þau vilja nýta sér þann sjálfsagða rétt sinn að fá upplýsingar um hvaðan þau koma.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar

Ritstjórn október 24, 2024 07:00