Boðskapur jólanna

Margir hafa af því áhyggjur í neysluhyggju nútímans að boðskapur jólanna fari fyrir ofan garð og neðan hjá ungum jafnt sem öldnum. Allir séu uppteknir af því að skreyta sem mest, kaupa sem mest og borða sem mest en það gleymist að jólin snúist um frið á jörðu, nýja von og fögnuð yfir sigri ljóssins yfir myrkrinu. Flestir Íslendingar þekkja vel jólaguðspjallið og söguna af Jesúbarninu sem lagt var jötu í fjárhúsinu vegna þess að ekki var pláss fyrir foreldrana í gistihúsum borgarinnar Betlehem. Samkvæmt Biblíunni var fæðing hans fyrirfram ákveðin til að tryggja frið á Jörðu og einingu meðal manna. Litla barnið fékk gjafir frá vitringum og fjárhirðum úr haganum því þeir skildu að frelsarinn var fæddur. Það er uppruni gjafanna sem við gefum til að gleðja hvert annað á þessum árstíma og þótt menn séu ekki kristinnar trúar hefur jólahátíðinni engu að síður sinn sess í huga margra.

Það er ekkert athugavert við það að rækta sína fjölskyldu og jákvætt hugarfar gagnvart öðrum í nokkra daga einu sinni á ári, í raun mætti segja að það væri beinlínis öllum hollt. Hins vegar kann að vera að þessi góði boðskapur sé tekinn að falla í skuggann af neysluhyggjunni og græðginni. Að í stað þess að vera hátíð ljóss, friðar og kærleika séu jólin orðin hátíð kaupmanna og gráðugra ofdekraðrar neytenda nútímans. Það kann að vera ýmislegt til í því en ef vel er að gáð gerist fleira á jólum en stressandi innkaup.

1. Hjálparstarf er aldrei öflugra

Það er föst venja hjá mörgum fjölskyldum að láta eitthvað af hendi rakna til góðgerðafélaga eða einhverra í sínu nánasta umhverfi á jólum. Mjög mörg góðgerðafélög senda út ákall á þessum árstíma og það er engin tilviljun, þeim er nefnilega mun betur svarað en aðra mánuði ársins og bæði fyrirtæki og einstaklingar telja það hluta af jólunum að styrkja góð málefni og leggja sig alla fram um að láta sem flesta njóta þess.

2. Úthugsaðar gjafir

Við leggjum oft mikla vinnu í að velja gjafir. Flestum finnst mikilvægt að gleðja þiggjandann, færa honum eitthvað sem hann virkilega langar í. Sumir eru líka svo heppnir að geta búið til jólagjafir og þá fylgir ekki bara góður hugur gjöfinni heldur ómæld umhyggja sem hefur farið í að búa hana til.

3. Heimsóknir á elliheimili og til eldri ættingja

Í desember aukast heimsóknir til eldra fólks oft mikið. Enginn vill að hinir eldri séu einmana um jólin og í mörgum fjölskyldum er það siður að sækja ættingja eða gamla fjölskylduvini í mat á jólunum. Þau eru líka tími til að minnast þeirra sem eru farnir héðan og fólk leggur leið sína í kirkjugarðinn til að tendra ljós á leiðum ástvina. Þessi siður sem tengist alllraheilagrar messu í kaþólskum sið hefur færst yfir á jólin hér á landi. Það gerir öllum gott að ylja sér við góðar minningar.

4. Börnin læra lexíur

Öll sú samhjálp sem við sýnum um jól, tillitssemi, gleði og gjafmildi er góð lexía fyrir börnin okkar. Það er siður sumra að börnin taki til í herbergjum sínum og safni saman fötum og leikföngum sem þau eru vaxin upp úr og fari með til hjálparsamtaka. Börnin fá líka að setja pakka undir trén í stórmörkuðunum eða koma færandi hendi inn á heimili vina sinna. Á sumum heimilum er alltaf bakað í aukalega og sett í bauka, soðið niður meira af rauðkáli, búin til meiri sulta eða annað góðgæti í meira magni en fjölskyldan þarf og farið með það á staði þar sem það kemur sér vel.

5. Gremjan kvödd

Hvort sem jólin eru trúarhátíð í þínum huga eða ekki finna flestir þessa hugarró og gleði sem færist yfir þegar jólalögin hljóma í útvarpinu. Allir eiga einhverja uppáhaldstónlist, annað hvort dægurlag eða klassískt verk, sem hringir inn jólin í þeirra huga. Þá er góður siður að sleppa allri gremju, gleyma gömlum ávirðingum og ef einhver staðar eru óleystar deilur eða bil sem þarf að brúa að gera það.

6. Heitstrengingar og loforð um betri tíma

Áramótin eru tímamót í hugum flestra og á þessum árstíma virðast hugir manna opnari fyrir því að breytast, batna en annars. Mjög margir strengja heit tengd áramótum og hafa jafnvel oft einsett sér hver þau muni verða þegar jólahátíðin gengur í garð. Mönnum gengur auðvitað misvel að halda heitin en þess eru engu að síður mýmörg dæmi að menn hafi náð að snúa við blaðinu og takist að ná markmiði sínu.

Ritstjórn desember 24, 2024 07:00