Með Covid í kjallaranum

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Hver man ekki eftir sögu Grimmsbræðra um Hans og Grétu og nornina sem lokaði þau inni, reyndi að fita þau og ætlaði svo að éta þau? Nornin kom upp í huga minn í gær þegar ég fór með einnota matardisk að kjallaraíbúðinni okkar, skildi hann eftir í tröppustiga, bankaði og lét mig svo hverfa hið snarasta. Mér leið eins og ég væri að fóðra hættulegan fanga en ekki yndislegan kærasta sonardóttur minnar. Átta ára barnabarn gaf mér það heilræði að reyna forða mér eftir matargjafirnar með því að hlaupa eins hratt og ég gæti. Skýringin á þessari andfélagslegu hegðan minni er sú að kærastinn er með Covid og verður í einangrun í kjallaranum fram yfir jól.

Þetta byrjaði með því að sonardóttirin hringdi og ég heyrði strax á röddinni að eitthvað mikið væri að. Amma, er kjallaraíbúðin enn tóm? Hún er svo sannarlega tóm. Ísskápur og eldavél eru einu tækin sem þar er að finna. En við fórum á stúfana. Við náðum í dýnu sem var geymd uppi á háalofti, náðum í garðhúsgögn úr skúrnum, fátæklegt jólaskraut, pott og pönnu og hnífapör, sjampó og fleira smáræði og yfirgáfum svæðið. Stuttu seinna renndi kærastinn í hlað með grímu, tölvu, sængurföt og fleira nauðsynlegt fyrir vikurnar löngu. Ég fékk SMS frá honum þar sem hann spurði um nettengingu. Sem betur fer virkar hún.

Þetta verða undarleg jól fyrir okkar fjölskyldu eins og fyrir svo margar aðrar sem eru í sömu aðstæðum. Ég geng um á efri hæðinni með ótrúlega vonda samvisku sem ég ræð ekki við. Ég hef ekkert gert af mér annað en það að hafa sloppið hingað til við Covid.

Samhliða því að skipuleggja næstu kvöldmáltíð fyrir unga manninn sem ekki finnur bragð af neinu þá erum við sambýlingarnir að reyna að undirbúa heimsókn norsku fjölskyldunar hans sem við höfum ekki séð í tvö ár vegna Covid. Hvenær verða þau búin að fá út úr Covid-prófunum á landamærunum? Hvar eiga þau að vera á meðan þau bíða? Getum við haldið fjölskylduboðið á annan í jólum og hvursu hvað? Kemst sonur minn sem ákvað að skreppa til útlanda heim aftur eða lendir hann í Covid-strandi einhvers staðar úti heimi fram á næsta ár?

Ég verð að játa að mér er farið að leiðast þetta ástand og væri eiginlega til í að fella jólin niður á meðan Covid heldur áfram að hrista heimsbyggðina til. Auðvitað þyrfti að gera það með góðum fyrirvara og góðu samkomulagi en ekki á síðustu stundu þegar væntingarnar eru komnar á suðupunkt. Í þessu Covid-ástandi finnst mér að jólin geri manni bara erfiðara fyrir. Það er nefnilega svo vonlaust að hlakka til með spurningamerki fyrir aftan allt sem er á döfinni. Og enn og aftur – það sem ég vorkenni kjallarabúanum okkar sem var að koma heim úr námi eftir margra mánaða fjarveru til þess að njóta jólanna með kærustunni.

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir desember 26, 2021 17:11