Heilsueflingu aldraðra þarf að setja í forgang næstu ár

Mikið hefur verið rætt um það hve hratt þjóðin sé að eldast, að eldri borgarar sitji fastir á Landspítala af því það vanti dvalarheimili. Þetta hafi verið vitað fyrir áratugum en að yfirvöld hafi sofnað á verðinum og ekki brugðist við með fjölgun dvalarheimila að sama skapi. Það sé bæði eldri borgurum í óhag að þurfa að dvelja á spítala eftir að meðferð lýkur og svo er það dýrt, auk þess sem aðrir veikir einstaklingar sem þurfa þjónustu á sjúkrahúsi komist ekki að. Talað hefur verið um að auka þjónustu við aldraða svo þeir geti verið lengur heima en þá þurfa að koma til úrræði og mannskapur sem er eitt helsta vandmál í allri heilbrigðisþjónustu í dag. Hins vegar sýna rannsóknir að markviss þol- og styrktarþjálfun eldri borgara geti leitt til lengri sjálfstæðrar búsetu og meiri lífsgæða. Dr. Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðingur, hefur unnið með eldri borgurum um áratuga skeið og gert rannsóknir á áhrifum heilsutengdrar þjálfunar á heilsu þeirra. Hann segir að það þurfi markvissa stefnu yfirvalda og heilsutengdar forvarnir á landsvísu byggðar á gagnreyndum aðferðum.

Janus segir að það mikilvægasta í þjálfun eldri borgara sé að ýta í framkvæmd fjölþættri heilsueflingu á landsvísu sem inniheldur heildræna nálgun á uppbyggingu andlegrar, félagslegrar og líkamlegrar heilsu með fjölbreyttum verkferlum. „Styrktarþjálfun þarf að vera leiðandi þáttur í þjálfuninni þar sem hún vinnur gegn hægfara vöðvarýrnun, eða Sarcopeníu eins og það kallast á fagmáli. Með því að viðhalda vöðvamassa og styrk vöðvanna þá má gera ráð fyrir að eldri borgarar geti sinnt athöfnum daglegs lífs lengur og búið í sjálfstæðri búsetu. Margir átta sig ekki á að aukinn vöðvamassi hefur gríðarlega jákvæð áhrif á efnaskipti líkamans og þar af leiðandi alla líkamsstarfsemina. Þá er mikilvægt að þessu fylgi heilsusamleg næring með próteinríku innihaldi, um 1,2 til 1,5 gr pr/kg líkamsþyngdar. Án próteinríkrar næringar verður lítil sem engin uppbygging í vöðvamassanum.“

Þá er þolþjálfunin einnig mjög mikilvæg til að styðja við hjarta og æðakerfið og auka þar með blóðstreymi um allan líkamann, m.a. til heilans en hann skreppur því miður saman af meiri krafti með árunum fái hann ekki nægilega næringu gegnum blóðrásina.

Hreyfing sem fær hjartað til að slá örar er góð

Hvað með aðra hreyfingu, eins og sund, göngur, hvað gerir hún fyrir fólkið? „Öll hreyfing er af hinu góða. Hreyfing sem fær hjartað til að slá örar og við mæðumst aðeins meðan við hreyfum okkar hefur jákvæð áhrif á heilsuna. Í okkar starfi hjá Janusi heilsueflingu nýtum við okkur sérstaka formúlu sem hönnuð var af Finnanum Karvonen til að finna út æskilegan hjartslátt meðan æft er. Þannig getum við reiknað út hvert álagið á að vera fyrir hvern og einn. Sjá má einnig á hvaða ákefð heilinn myndar endorfin eða við hvaða álag (hjartsláttarákefð) líkaminn brennir einna mestri fitu. Þá má finna út æskilegan þolþjálfunarpúls til að bæta afkastagetu hjartans á svipaðan hátt og afreksmenn í íþróttum eru að nýta sér. Öll hreyfing er því af hinu góða og æskilegt er að hún sé fjölbreytt. Aðalatriðið er að finna út álagið fyrir hvern og einn og huga að eigin heilsu og stigvaxandi uppbyggingu. Róm var ekki byggð á einum degi.“

Hægt að lengja búsetu fólks heima um 10-15 ár með markvissri þjálfun

Hvaða víðtæk áhrif hefur markviss og regluleg þjálfun eldri borgara og hve oft í viku þarf að stunda hreyfingu? „Það má geta þess að árið 2022 gaf OECD (Efnahags- og framfarastofnunin) út skýrsluna:  Heilsusamleg næring og virkur lífsstíll –  Helstu verkefni í lýðheilsu (Healthy Eating and Active Lifestyles – Best Practices in Public Health). Verkefni Janusar heilsueflingar; Fjölþætt heilsuefling 65+ – Leið að farsælum efri árum, var þar meðal verkefna en stofnunin tók út verkefnið og rannsóknarniðurstöður okkar auk þess að velja verkefnið það besta sinnar tegundar meðal þjóða OECD. Sérfræðingar stofnunarinnar komust að þeirri niðurstöðu að verði verkefnið innleitt hér á landi megi koma í veg fyrir 480 tilfelli langvinnra sjúkdóma og þar af 37% hjarta- og æðasjúkdóma. Ávinningurinn getur því orðið gríðarlegur, ekki aðeins lýðheilsulega séð heldur er það einnig fjárhagslega hagkvæmt fyrir bæði ríki og sveitarfélög. Að baki þessum niðurstöðum liggur þjálfun fólksins; um 30 mínútna dagleg hreyfing auk styrktarþjálfunar tvisvar í viku. Þessu til viðbótar kom til sögunnar markviss næring með áherslu á próteinríkt innihald samkvæmt lýsingum frá embætti landlæknis og fræðsluerindi um ýmsa heilsutengda þætti. Þess má geta að langvinnir sjúkdómar eiga rætur að rekja í óheilbrigðum lífsstíl eins og reykingum, óhollu mataræði, hreyfingarleysi og ofneyslu áfengis.“

Markviss þjálfun er lykill að lengri sjálfstæðri búsetu og til þess fallin að sporna við langvinnum sjúkdómum að sögn Janusar. „Hver og einn verður að gera það upp við sig hvort hann vilji flýta sér inn á dvalar- og hjúkrunarheimilin eða vera lengur í sjálfstæðri búsetu. Ef svarið er að vera lengur heima þá krefst það markvissrar þjálfunar; um 30 mínútna daglegrar hreyfingar eins og að ganga, hjóla, synda, dansa eða leika golf og hins vegar að stunda styrktarþjálfun tvisvar til þrisvar sinnum í hverri viku. Mér sýnist það á okkar rannsóknum í tengslum við fjölþætta heilsueflingu okkar að lengja megi sjálfstæða búsetu um allt að 10-15 ár með markvissri þjálfun. Það er alla vega mín tilgáta. Hver vill það ekki? Fyrir heilbrigðiskerfið þýðir það einfaldlega að ásókn í dvalar- og hjúkrunarheimili verður minni, þó að slíkt hverfi aldrei. Þá þýðir það um leið sparnað fyrir ríkið upp á tugi milljarða króna á hverju ári. Fyrir sveitarfélögin er þetta einnig eftirsóknarvert verkefni þar sem lengri sjálfstæð búseta tryggir sveitarfélögum áframhaldandi og stöðugar útsvarsgreiðslur þessa hóps sem er mikilvæg tekjulind sveitarfélaganna á komandi árum. Fyrir fólkið sjálft er þetta spurning um að vilja auka lífsgæði sín og bæta heilsu þrátt fyrir hækkandi aldur. En það þarf þá að láta á líkamann reyna og fjárfesta í eigin heilsueflingu. Það er von mín að nýr heilbrigðisráðherra, og fyrrverandi landlæknir, Alma Möller, setji heilsueflingu eldri borgara í algjöran forgang næstu árin.“

Þurfum að ýta úr vör þjóðarverkefni

Líklegt er að æ fleiri þurfi leiðsögn í hreyfingu, eða líkamsþjálfun, í ljósi þess að eldri borgurum fjölgar stöðugt.Hvernig er hægt að koma í kring? „Við þurfum markvissa stefnumörkun, að ríki og sveitarfélög séu samstiga sem tekur mið af þeim vísindalegu rökum og gagnreyndum aðferðum sem fyrir liggja. Þannig má draga úr ótímabærum dauðsföllum og veikindum af völdum þessara langvinnu sjúkdóma. Ef við viljum fækka þeim og bæta heilsutengd lífsgæði verðum við að ráðast að orsökunum vandans. Vandinn liggur utan heilbrigðiskerfis eins og það er skipulagt í dag. Hann liggur í vöntun á markvissu skipulagi gagnreyndra heilsutengdra forvarna á landsvísu.“

Janus segir mikilvægt að beita gagnreyndum lýðgrunduðum inngripum til að koma í veg fyrir þann faraldur sem nú geisar; langvinna lífsstílstengda sjúkdóma. „Við þurfum að ýta úr vör þjóðarverkefni sem nær til allra kynslóða, sér í lagi þeirra sem elstir eru. Þetta er nauðsynlegt til að þær kynslóðir sem nú eru að vaxa úr grasi fái aðgengi að góðu heilbrigðiskerfi. Á næstu 10 árum er eldri borgurum 67+ að fjölga úr tæplega 60 þúsundum í tæplega 80 þúsund sem er um 32,5% fjölgun samkvæmt spá Hagstofu Íslands. Fjölgunin mun halda áfram og árið 2050 verður um 25% þjóðarinnar komin á eftirlaunaaldur. Hvernig eigum við sem þjóð að ráða við þann fjölda eldri borgara og heilsu þeirra án þess að huga að heilsutengdum forvörnum?“

Styrktarþjálfun er ákveðinn lykill til að mæta öldrunarferlinu

Er hreyfingaraðstaða þá nægilega aðgengileg fyrir aldraða? „Aðstaða til hreyfingar, bæði þol og styrktarþjálfunar, er að verða betri og betri þótt gera megi betur víða. Við eigum orðið nokkuð af knattspyrnuhöllum þar sem við getum stundað hreyfingu innanhúss yfir vetrarmánuði auk þess sem einnig má nýta íþróttahúsin. Náttúran nýtist vel yfir vor-, sumar- og haustmánuði til þolþjálfunar. Þolþjálfun á vel útbúnum heilsuræktarstöðum er einnig til fyrirmyndar. Víða má gera betur varðandi aðstöðu til styrktarþjálfunar þar sem hún er ákveðinn lykill til að mæta öldrunarferlinu í dag. Við búum við góðar eða mjög góðar líkams- og heilsuræktarstöðvar, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu og einnig í þéttbýliskjörnum eins og til dæmis á Akureyri. E.t.v. má styðja betur við eldri borgara varðandi styrktarþjálfunina en meðan landinn getur farið í eða fjárfest í utanlandsferðum nokkrum sinnum á ári þá ættu eldri borgarar að huga að því að fjárfesta einnig í eigin heilsu. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og á því að vera í forgangi þegar kemur að fjárfestingum. Oft hefur verið nefnt að æskilegt sé að nýta 10% innkomu í heilsutengdar forvarnir.“

 Er hægt að tryggja reglubundna hreyfingu en á sama tíma að forðast að fólk detti þar sem að margir aldraðir hafa kannski ekki gott jafnvægi? „Jafnvægisleysi eða óstöðugleiki er einn af fylgifiskum öldrunar. Bæta má þessa þætti með markvissri þjálfun, bæði styrktarþjálfun en einnig með jafnvægisæfingum. Við eigum orðið góða sérfræðinga á þessu sviði eins og Dr. Berglindi Baldursdóttur sjúkraþjálfara svo einhver sé nefndur. Í minni doktorsrannsókn sáum við að jafnvægið varð betra eftir aðeins sex mánaða styrktarþjálfun tvisvar sinnum í viku og daglega þolþjálfun um 30 mínútur án þess að beita sérstökum jafnvægisæfingum. Þetta þýðir að fólkið verður styrkara og öruggara í sínum hreyfingum auk þess sem taugakerfið með sínar taugabrautir frá heila og niður um allan líkamann eflist með aukinni þjálfun.“

Sjúkdómar ættu ekki að vera fyrirstaða þess að hreyfa sig

Nú eru margir aldraðir með sjúkdóma sem eru ákveðinn þröskuldur. Er ástæða til þess að viðkomandi sleppi að hreyfa sig? Hvernig er hægt að koma til móts við það fólk? „Meðan við drögum andann er æskilegt að hreyfa sig reglulega. Fatlaðir einstaklingar, með sínar hreyfiskerðingar, hafa sýnt okkur fram á ótrúlega hluti í tengslum við sína uppbyggingu og íþróttaiðkun. Þar eru einstakar fyrirmyndir. Að sjálfsögðu fylgja ávallt þröskuldar ýmsum sjúkdómum eins og heilabilun, hjartasjúkdómum af ýmsum toga, liða- eða vefjagigt svo dæmi sé tekið. Fyrir öllum þessum sjúkdómseinkennum má finna leið til að færa hluti til betri vegar eða hægja á sjúkdómseinkennum. Sem dæmi sýna nýjar rannsóknir að koma megi í veg fyrir um 30% heilabilana með markvissri heilsutengdri þjálfun. Því er æskilegt að byrja sem fyrst. HL-stöðin er gott dæmi um heilsuræktarstöð eða endurhæfingarstöð þar sem fagfólk á sviðinu, sjúkraþjálfarar, íþróttafræðingar og læknar vinna með einstaklinga sem hafa gengið í gegnum hjarta- og æðavanda af ýmsum toga. Markmiðið er síðan að gera fólkið sjálfbært á eigin hreyfingu og ábyrgt á eigin heilsu. Sjálfbærni í eigin heilsueflingu ætti að vera lykilmarkmið heilsueflingar.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna

Ritstjórn janúar 22, 2025 07:00