May Morris var dóttir hönnuðarins og Íslandsvinarins Williams Morris. Hún var einkar fær útsaumskona og bjó til eigin mynstur en svo tók hún upp á að hanna eigin skartgripi sem í dag njóta mikilla vinsælda safnara og annarra sem unna fallegum gripum. Hún var einnig mikil kvenréttindakona, sjálfstæð og ástríðufullur fylgjandi hugsjónum föður síns og félaga hans.
May fæddist árið 1862 og ólst upp innan um listrænt handverksfólk sem vann við að skapa einstaka og fallega gripi. spent her childhood surrounded by people making beautiful things by hand. Móðir hennar, Jane og móðursystir, Elizabeth Burden voru báðar mjög færar í útsaumi en þær hönnuðu líka mynstur á efni sem framleitt var af fyrirtæki föður hennar, Williams. Þau þróuðu og notuðu náttúruleg litarefni til að ná fram þeim blæbrigðum sem þau vildu fá í teppum, mottum, gardínuefnum og áklæði. May og her systir hennar Jenny voru snemma farnar að vinna með konunum í að lita mynstur og setja þau saman.
Árið 1878 hóf May nám í útsaumi listaháskólanum sem nú nefnist the Royal College of Art. Pabbi hennar tók líka nemendur heim og kenndi þeim að teikna og hanna og May sat oft í tímum og vann með þeim. Hún kom sér því snemma upp þeirri venju að hafa með sér teikniblokk hvert sem hún fór teikna upp blóm, landslag og önnur fyrirbæri sem hún rakst á í náttúrunni og annars staðar í umhverfinu. Hún hélt áfram námi og lærði hönnun í the South Kensington School of Design.
Arts & Crafts-hreyfingin
Foreldrar hennar voru hluti af því sem kallað var arts and crafts movement en hugsjónir þeirra snerust um að snúa aftur til vandaðra vinnubragða fyrri tíma þegar handverksmenn gerðu einstaka hluti úr vönduðum efnum. Þeir höfnuðu ódýrum fjöldaframleiddum hlutum iðnbyltingarinnar og töldu þá afturför fremur en framför. Þeir töldu að fjöldaframleiðsla væri sálarlaus og einskis virði, enda myndi hún ekki einu sinni endast líftíma einnar kynslóðar. Þessum hugmyndum fylgdi May allt sitt líf.
Iðnbyltingunni fylgdi ekki bara hnignun á þekkingu á vönduðum hefðbundnum vinnubrögðum heldur einnig mikil fátækt. Verkafólki í verksmiðjum iðnjöfranna var boðið upp á ömurlegar og oft stórhættulegar vinnuaðstæður og kaupið var óheyrilega lágt. Samt flykktist fólk til borganna í leit að vinnu og fátækrahverfi spruttu upp þar sem fjölskyldur sultu heilu hungri í húsnæði sem varla var hægt að telja mannabústaði. Það gerði það að verkum að William Morris var sannfærður sósíalisti og hann trúði því að ef menn fengju að þroska hæfni sína og listfengi og skila af sér góðu handverki væri það einnig til hagsbóta fyrir þá efnahagslega.
Í kringum William Morris safnaðist hópur listamanna sem deildi þessum skoðunum. Í hópnum voru málara, leirkerasmiðir, glerlistamenn, heimspekingar og rithöfundar. Þeir lýstu í sameiningu yfir heilögu stríði gegn þessari öld vanhugsunar og vondra vinnubragða. Þeir töldu að samfélagið hefði ekki veitt góðpu handverksfólki þá viðurkenningu sem það ætti skilið. Þeir voru einnig hrifnir af miðalda list og sóttu sér gjarnan innblástur þangað. Einnig hvöttu þeir yfirvöld til að endurbyggja og viðhalda gömlum miðalda kirkjum með þeim aðferðum sem þá voru notaðar og fylla þær bekkjum og búnaði unnum á sama hátt, allt frá kirkjubekkjum, steindum gluggum til útskorinna predikunarstóla, hurðarskreytinga, kertastjaka og ljósakróna.
Hóf skartgripahönnun
Um aldamótin 1900 hóf May að hanna skartgripi. Innblásturinn fékk hún frá gullsmiðunum Arthur og Georgie Gaskin sem höfðu aðsetur í Birmingham og voru vinir foreldra hennar. May notaði mikið marglita steina, ofast lítið skorna eða unna. Hún skoðaði líka þjóðlegar hefðir í skartgripasmíði og hönnun í Evrópu og nýtti sér þær aðferðir og útlit í sinni hönnun. Hún stofnaði einnig árið 1907 og veitti forstöðu fagfélagi kvenna, the Women’s Guild of Arts, í tuttugu og átta ár. Þetta gerði hún vegna þess að félag karla útilokaði konur alveg fram til ársins 1968 en þá hafði May verið látin í þrjátíu ár.
May hannaði einnig og teiknaði eigin útsaumsmynstur og seldi bæði áteiknuð efni fyrir aðra að sauma út í og fullunnar vörur. Hún tók lærlinga í þjálfun og kenndi mörgum að sauma út í Morris-stílnum. Á þessum tíma var konum af miðstétt og efri stétt ætlað að búa hjá foreldrum sínum fram að giftingu og eftir það inni á heimili eiginmannsins og sinna hans þörfum. Þær unnu ekki utan heimilis en gátu í tómstundum saumað út, málað vatnslitamyndir eða spilað á hljóðfæri. Útsaumur var vinsæl leið fyrir þessar konur til að fá útrás fyrir sköpunarþrána og vörur May voru því mjög eftirsóttar. Hún var mjög fróð um sögu textíllistar og útsaums og oft var sótt til hennar eftir upplýsingum um þau efni og hún hjálpaði mörgum sagnfræðingum sem á þessum árum voru farnir að fá áhuga á sögu útsaums og annarrar textílvinnu.
May var kvenréttindakona og sá til þess að allar hennar verkakonur fengju sanngjörn laun fyrir vinnu sína. Hún talaði á alþjóðlegu þingi kvenna árið 1899 og fordæmdi þar hagkerfi sem hún sagði að seldu vinnu kvenna, þar með talin útsaumsverk á verði sem væri langt undir raunverulegu virði þeirra og niðurlægðu þar með verkakonurnar. Þótt May Morris þreyttist aldrei á að senda þessi skilaboð hvar sem hún kom fram meðan hún lifði virðast þau ekki hafa náð í gegn. Enn í dag eru vörur kvenna sem sauma út, knipla, vefa og skreyta alls konar textílvörur vanmetnar um allan heim þótt enn séu starfandi stórir hópar slíkra handverkskvenna. Margir gripa May Morris eru varðveittir í the Victoria & Albert Museum og í safni á verkum foreldra hennar í Kelmscott, húsi fjölskyldu hennar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.