Hlutur kvenna innan bókmenntaheimsins hefur ætíð verið rýrari en karla. Lengi þótti það ekki sæmandi konum að skrifa og þær sem gerðu það fengu iðulega ómaklega gagnrýni. Gert var lítið úr sögum þeirra, einkum þegar þær skrifuðu um reynsluheim sinn. Af þessum ástæðum hefur oft verið litið framhjá framlagi mjög færra höfunda þegar kemur að verðlaunaveitingum og karlarnir eru mun oftar á palli en konur. Að auki hafa margar einstakar skáldkonur hafið ferilinn með því að fela sig bak við karlmannsnöfn, bæði til þess að fá sanngjarna gagnrýni á verk sín og tryggja sölu þeirra.
Í skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, Ungfrú Ísland, er einmitt þetta til umfjöllunar, hvernig konur þurftu að bæla sköpunargáfuna og sköpunarþörfina og oft fela sig bak við karlmenn til að fá marktæk viðbrögð við verkum sínum. Á sviði Borgarleikhússins er einmitt verið að sýna leikgerð unna upp úr bókinni. En nefna má rithöfunda á borð við Brontë-systurnar gáfu allar sínar fyrstu bækur út undir karlmannsnöfnum, Currer, Ellis og Acton Bell, George Eliot var skáldanafn Mary Ann Evans, Elizabeth Gaskell notaði nafnið Cotton Mather Mills og sagan North and South kom fyrst út undir því nafni, Louisa May Alcott höfundur Little Women gaf þá bók fyrst út undir nafninu A M Barnard og George Sand var skáldanafn Armandine Lucie Aurore Dupin.
Þessir höfundar skrifuðu allir á nítjándu öld en fordómarnir náðu langt fram á þá tuttugustu og sumir telja þá ríkjandi enn í dag. Virginia Wolf er meðal þekktra rithöfunda til að gera tilraun til að skoða viðbrögð við bókum sínum undir eigin nafni og skáldanafninu E V Odle. Það kallaði einnig á sterk viðbrögð bandarískra kvenrithöfunda þegar netalfræðiritið Wilkipedia ákvað að skipta bandarískum rithöfundum í tvo hópa, bandaríska skáldsagnahöfunda og bandaríska kvenskáldsagnahöfunda. Þetta var árið 2013 og varð tilefni mikilla blaðaskrifa. Þar var iðulega vitnað í orð Charlotte Brontë; „Í ykkar huga er ég hvorki kona né karlmaður. Ég kem fyrir ykkur sem höfundur eingöngu og það er á þeim grunni sem ykkur ber að dæma verk mín.“ Wilkipedia féllst ekki á að hafa eingöngu eina síðu, bandarískir skáldsagnahöfundar en þess í stað eru síðurnar, bandarískir karlskáldsagnahöfundar og bandarískir kvenskáldsagnahöfundar til staðar í dag.
En það er ekki bara í alfræðiritum sem gerður er greinamunur á höfundum eftir kyni. Mjög margir telja að konur beri skarðan hlut frá borði þegar kemur að því að veita bókmenntaverðlaun. Karlmenn eru í meirihluta í öllum úthlutunarnefndum helstu verðlauna og karlar hafa mun oftar hlotið stærstu og þekktustu verðlaunin en konur. Víða hefur kveðið svo rammt að þessuu vanmati á konum að þær hafa stofnað til eigin verðlauna. Í þeim hópi eru íslensku Fjöruverðlaunin, BAYLAYS-verðlaunin í Bretlandi, Barbara Jefferies-verðlaunin í Ástralíu, Stella-verðlaunin í Ástralíu, Chommanard Book Prize í Tælandi, Janet Heidinger Kafka-verðlaunin í Bandaríkjunum, Rapallo Carige-verðlaunin á Ítalíu og Pat Lowther-verðlaunin í Kanada. Mismunandi er hvort þessi verðlaun bjóðast eingöngu innlendum höfundum eða hvort þau eru alþjóðleg.
Umdeilt hefur verið hvort virkilega sé nauðsynlegt að stofna til sérstakra verðlauna fyrir konur og sumir halda þvi fram að þær eigi jafnan aðgang að Nóbelsverðlaunum, Pulitzer og fleiri virtum listaverðlaunum. Ástæða þess að þær fái þau ekki sé eingöngu sú að karlkynshöfundar skrifa einfaldlega betri verk. Á móti hafa meðmælendur slíkra sérstakra verðlauna lagt fram rannsóknir máli sínu til stuðnings. Bent hefur verið á að bækur eftir konur nái metsölu, oft mun meiri sölu en bækur karlkyns kollega þeirra en samt séu þær mun sjaldnar á listum yfir tilnefnda til verðlauna og mun færri konur meðal verðlaunahafa.

Konur eru vanmetinn lesendahópur.
Vanmetinn lesendahópur
Sumir segja að hugsanlega skipti meira máli um hvað er skrifað en hvernig listræn hæfni manna sé. Karlar einbeiti sér oft að hetjusögum, stórum viðburðum, stundum sannsögulegum meðan konur skrifa um náin sambönd, stöðu kvenna í samfélaginu, barnauppeldi og önnur samskipti. Hvað sem veldur þá er víst að verðlaun fyrir listir breyta miklu fyrir þá sem hljóta þau. Verk þeirra fá meiri athygli og ýmsir möguleikar opnast sem áður voru lokaðir. Þetta á sannarlega einnig við um sérstök bókmenntaverðlaun kvenna.
Konur eru einnig vanmetinn lesendahópur ekki hvað síst vegna þess að á meðan karlar lýsa áhyggjum sínum af því að bókin sé í útrýmingarhættu og flestir séu hættir að lesa annað en stuttar greinar á netinu, kaupa konur bækur um allan heim. Þær gefa börnum bækur og lesa fyrir börn og leggja þannig grunn að framtíðarlesendum. Rannsóknir sýna að þótt konur lesi alls konar bókmenntir tengja þær flestar betur og meira við höfundaverk annarra kvenna, líklega vegna þess að þær deila svipuðum reynsluheimi.
Vanmetnar skáldkonur
Konur átti lengi ekki upp á pallborðið hjá bókaþjóðinni. Samt búum við að merkilegum bókmenntaarfi frá formæðrum okkar. Hér eru nokkrar vanmetnar skáldkonur.
Hulda eða Unnur Benediktsdóttir Bjarklind fæddist 1881 og dó 1946. Hún var afkastamikil og fjölhæf. Sendi fá sér tuttugu skáldrit, nokkur smásagnasöfn, ævintýri og sjö ljóðabækur. Hulda giftist Sigurði Sigfússyni og eignaðist fjögur börn. Eitt þeirra fæddist andvana. Heimilið var stórt og annir margar yfir daginn. Líklega er Hulda þekktust fyrir þulur sínar og ljóð en hún tók sér skáldanafn til að verja sig, enda einkenndist fyrsta gagnrýni um verk hennar af yfirlæti og hroka. Meðal annars kallar Þorsteinn Erlingsson hana „gáfað, góðlátlegt og óframfærið barn.“
Guðfinna Þorsteinsdóttir fæddist árið 1891 og lést árið 1972. Hún tók sér skáldanafnið Erla. Áreiðanlega af sömu ástæðum og Hulda. Það var þægilegra fyrir konur að skapa sér fjarlægð frá harðneskjulegum dómum á þennan hátt. Árið 1917 giftist Guðfinna, Pétri Valdimari Jóhannessyni. Þau hófu búskap á heiðarbýlinu Brunahvammi í Fossdal í Vopnafirði. Varla hefur verið auðvelt að skapa sér lífsviðurværi á slíkum stað og þau fluttu nokkrum sinnum. Lengst af bjuggu þau í Teigi í Vopnafiðri. Guðfinna og Valdimar áttu níu börn og í ljósi þess er eiginlega ótrúlegt að hún gaf út þrjár ljóðabækur, tvær bækur sem innihéldu þjóðlega sagnaþætti og þýddi skáldsöguna Slagur vindhörpunnar eftir William Heinesen. Nýlega tóku aðdáendur Erlu sig til og gáfu út ljóðasafn hennar.
Theodóra Thoroddsen fæddist á Kvennabrekku í Dölum árið 1863 og lést árið 1954. Hún náði mikilli leikni með þuluformið og fyrsta bók hennar var gefin út árið 1916 með myndum eftir Mugg, systurson hennar. Smásögur eftir hana, Eins og gengur, kom út árið 1920. Ritsafn hennar koom svo árið 1960. Kvæði, stökur og sagnir eftir hana birtust víða, meðal annars í Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna. Theodóra þýddi einnig sögur og ljóð og safnaði þjóðsögum. Theodóra var gift Skúla Thoroddsen lögfræðingi og þau áttu þrettán börn.
Guðrún frá Lundi hét fullu nafni Guðrún Baldvina Árnadóttir. Hún var fædd í Fljótum í Skagafirði árið 1887 og lést 1975. Hún ólst upp í Lundi í Fljótum. Þar var harðbýlt og fátækt mikil. Konur af kynslóð Guðrúnar áttu sjaldnast kost á að afla sér menntunar en Guðrún var sískrifandi strax í æsku. Hún giftist Jóni Þorfinnssyni árið 1910 og þau bjuggu lengi á Ytra-Mallandi á Skaga. Árið 1940 fluttu þau til Sauðárkróks og bjuggu þar síðustu ár sín. Guðrún skrifaði mikið eftir það og sendi frá sér sína fyrstu bók árið 1946 þá 59 ára gömul. Bækur Guðrúnar hlutu metsölu og mikinn lestur þegar þær komu fyrst út og voru nýlega endurútgefnar og fengu þá ekki síðri viðtökur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.