Atburðir þrettándu aldar skoðaðir með augum geðlæknis

“Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á Íslendingasögum. Ungur las ég barnabækurnar Kappa þar sem Marinó Stefánsson kennari endursagði nokkrar sögur á einföldu og skiljanlegu máli. Þessar bækur lærði ég meira eða minna utanað og varð við það sérfræðingur í Laxdælu, Gunnlaugssögu og Grettissögu. Árin liðu og ég las fleiri sögur og heillaðist af atburðarásinni og litríkum persónum sagnanna. Ég bjó þó alltaf lengst að Köppum og er þakklátur Marínó fyrir að veita mér innsýn í þennan spennandi heim,” segir Óttar.

Smám saman færir Óttar sig yfir í Sturlungu sem er mun erfiðari lesning en Íslendingasögur. Persónur Sturlungu virðast óteljandi, atburðarásin er ruglingskennd og ekki alltaf samhangandi. “Norræn siðfræði og drengskapur eru ráðandi eiginleikar í Íslendingasögum en í Sturlungu ræður fúlmennska ríkjum. Frændvíg eru bönnuð í Íslendingasögum. Ein undantekning er þegar Bolli Þorleiksson vóg Kjartan frænda sinn Ólafsson í Laxdælu. Eftir vígið lagði hann höfuð Kjartans í kjöltu sér og grét beisklega. Í Sturlungu eru víg náinna ættingja fremur regla en undantekning. Menn gráta ekki eftir að hafa drepið náfrænda sinn heldur miklast af víginu.”

Þessa dagana kemur út bókin Sturlunga geðlæknisins eftir Óttar sem fjallar um þessa tíma. Hann skoðar atburði 13du aldar með augum geðlæknis og reynir að greina helstu persónur sögunnar. “Sturlunga fjallar um ættarátök þar sem Sturlungar af Vesturlandi, Ásbirningar úr Skagafirði og Haukdælir úr Árnessýslu koma helst við sögu. Um tíma geisaði borgarastyrjöld í landinu með tilheyrandi mannvígum og ofbeldi. Í þessum grimmilegu átökum blómstra hvers konar skapbrestir og persónuleikavandamál. Tíðarandinn einkennist eiðrofum, svikum og siðblindu sem eru uppáhaldsviðfangsefni allra geðlækna. Sturlunga sýnir margþætt eðli mannsins. Bestu menn breytast í ákveðnum aðstæðum í illmenni og fauta. Þetta minnir mig á atvik úr eigin lífi. Ég kynntist mínum besta kennara á langri skólagöngu í Lauganesskólanum. Löngu síðar var hann afhjúpaður sem barnaperri. Aldrei reyndi ég hann að neinu misjöfnu og minnist hans alltaf með hlýhug og þakklæti. Við ákveðnar aðstæður virðist hann hafa breyst í annan mann sem var mér framandi. Hann var í raun tveir menn. Annars vegar frábær kennari og góðmenni en hins vegar níðingur sem áreitti þá nemendur sína sem minna máttu sín. Sturlunga er sneisafull af slíkum dæmum þar sem margir menn búa í sama manninum. Persónuleiki Gissurar jarls og Kolbeins unga er flókinn og margþættur þar sem valdafíkn og siðvilla takast stöðugt á við jákvæðari eiginleika. En innan um fúlmennsku aldarinnar leynast drengir góðir sem hafa í heiðri gömul siðalögmál. Sagan segir frá hetjudáðum einstakra manna sem ganga óhikað á móti óblíðum örlögum sínum og beiðast ekki vægðar. Upp skal á Kjöl klífa, kvað Þórir jökull áður en hann var leiddur á höggstokkinn. Björn Dufgusson hló framan í böðulinn þegar hann var hálshöggvinn.

Sighvatur frændi minn Sturluson var kominn hátt á sjötugsaldur þegar hjann féll ásamt tveimur jafnöldrum sínum að Örlygsstöðum. Enginn þeirra beiddist griða heldur gengu inn í óvinaflokkinn miðjan og sveifluðu vopnum sínum. Þetta er draumadauðdagi allra ellilífeyrisþega sem óttast hvað mest að deyja einir og afskiptir úr leiðindum á hjúkrunarheimili. Sturlunga á því fullt erindi inní samtímann. Hún kennir manni einkar vel að veraldargengið er valt. Þegar allt kemur alls er nauðsynlegt að standa með sjálfum sér og treysta engum öðrum fullkomlega og síst meintum vinum sínum og tengdasonum eins og Snorri Sturluson fékk að sannreyna.“

 

Ritstjórn nóvember 12, 2020 08:03