Árangurshefti maðurinn

thaettirafserakapafinalÞórarinn Eldjárn hefur sent frá sér bókina Þættir af séra Þórarinum og fleirum. Bókin skiptist í þrettán þætti  og er víða komið við og ólík viðfagnsefni reifuð: Við grípum hér niður í einum þætti bókarinnar þar sem sagt er frá Jónatani Vilhelmssyni.

Þannig var því háttað með Jónatan Vilhelmsson að hann var árangursheftur eða árangursblindur, naut aldrei neins sem áunnist hafði. Ekkert dugði honum alveg og aldrei gat honum fundist neitt vera nema rétt í áttina. Hann var óaflátanlega með hugann við það sem eftir væri, það sem koma skyldi en kæmi svo ef til vill ekki. Allt sem til bar snerti vart við honum öðruvísi en sem einhverskonar ávísun á annað og meira síðar. Sú ávísun var óútfyllt. Hann var sjálfur óútfylltur. Ekkert var nokkru sinni í höfn. Landfestar batt hann því aldrei.

-Til hvers spurði hann þá og horfði á okkur með sitt einkennilega samband af vonleysi og ákefð í augum, oft var annað vott en hitt þurrt.

-Til hvers að binda þær, já? hélt hann áfram. Til þess eins að þurfa að leysa þær aftur?

Og við gátum svo sem aldrei svarað honum neinu öðru en „af því bara“ þegar þetta umræðuefni bar á góma, sem ósjaldan kom fyrir.

Allt frá því hann fyrst lærði á klukku var honum tamara að segja að hana vantaði fimmtíu og átta mínútur í tíu frekar en hún væri tvær mínútur yfir níu. Hann las ekki bækur af því hann óttaðist að þeim lyki. Þrátt fyrir góð efni eingaðist hann aldrei nýjan bíl af því að hann vissi að ári síðar kæmi ný árgerð og betri. Heima í sveitinni hafði honum verið alveg fyrirmunað að standa í gróandanum og njóta þess sem fyrir augu bar, virða fyrir sér rækarleg tún og fylgjast með sprettunni. Hann var strax með allan hugann við að grasið ætti eftir að verða að heyi inn í hlöðu. Og þegar hann hafði fyllt hlöðurnar gat hann ekki eitt augnblik dokað við, lagst þar niður og látið fara vel um sig í ilmandi heyinu heldur var hugurinn strax tekinn við að umbreyta því í mjólk og kjöt fyrir milligöngu kúa.

-Ég nýt þess fyrst og fremst að vera búinn að einhverju, sagði hann samt sjálfur.

Svo var auðvitað alls ekki, hann hafði illilega misskilið sjálfan sig því varla hafði hann fyrr lokið einu verki en athyglin beindist að því næsta sem koma þyrfti frá. Á sama hátt og hann gat ekki hvílt í heyinu kunni hann með engu móti að hvíla í sjálfum sér. Hvorki láréttur né lóðréttur. Enda gerðist hann lúinn.

Jónatan kvæntist loks eftir langa mæðu, ætlaði hreint aldrei að geta valið þó margar væru tiltækar og þar kom um síðar að hann var valinn. Hún valdi hann.

-Nú hef ég sagt a, á, b, d, ð, e og é, sagði konan, og er það til of mikils mælst að þú reynir að segja f og jafnvel g ef þér er einhver alvara með þessu sambandi?

-Þ, sagði Jónatan.

Þá tók hún af skarið, sagði æ og síðan ö. En hann naut einskis með Rósu nema rétt í fyrstu. Varla einu sinni kynlífsins sem slíks, ekki til lengdar, því fyrst og fremst var hann með hugann við að eignast börn. Efinn nagði hann stanslaust, kannski var hún hreinlega ekki rétta konan. Hefði næsta árgerð verið betri? Börnin komu en það dugði ekki til, hann hafði enga ánægju af þeim eins og þau voru því öll hans hugsun snerist um hvað úr þeim yrði.

Öll urðu börnin eitthvað með tíð og tíma en þá varð hann bara heltekinn af hugsuninni um það hverju þau tækju upp á næst. Ef þeim gekk vel sagði hann að það tæki eflaust enda. Ef þeim gekk illa kvaðst hann óttast að lengi gæti vont versnað. Það væri aldrei að vita, sagði hann áhyggjufullur.

Á banabeði mælti hann þessi orð sem skráð voru eftir honum og færð til bókar sem eftir á að hyggja varð hans lífsbók:

-Ég hef lifað er með tjáð. Allt var það til þess eins að fá nú að ganga til móts við dauðann. Það er minn fyrsti áfangasigur eftir öll mín áfangatöp.

 

Ritstjórn desember 2, 2016 11:20