Á tímum þegar konur létu ekki að sér kveða á opinberum vettvangi og unnu flestar við heimilishald og barnauppeldi varð Emily Post ein af áhrifamestu manneskjum í Bandaríkjunum. Ekki voru það stjórnmál eða fyrirtækjastjórn sem gerði Emily svo valdamikla heldur afburðaþekking hennar á mannasiðum og því hvernig bera á sig til á opinberum vettvangi til að teljast siðprúð manneskja.

Ævisaga Emily Post ber mjög viðeigandi titil eins og sjá má.
Nú á tímum er nafn Emily skráð í alfræðiorðabækur og ritsöfn um merka samtímamenn vegna þessarar afburðaþekkingar hennar á siðaboðum samfélagsins. Í umræðum um mannasiði var áratugum saman vitnað í Emily Post og þótti málið venjulega til lykta leitt og útrætt þegar hún hafði kveðið upp sinn dóm. Kjörorð Emily var að það væri til rétt aðferð við að gera alla skapaða hluti, allt frá því að borða banana upp í að ala upp barn. Í New York Times var eitt sinn sagt að á tímum þegar flestir litu svo á að mannasiðir væru margbrotnir og flóknir væri frú Post sporgöngumaður þess að einfalda þá. Að mati Emily Post voru mannasiðir nefnilega eingöngu fólgnir í því að gera sér lífið léttara og sýna öðrum nærgætni og tillitssemi. Siðaboð snerust alls ekki fyrst og fremst um það hvaða gaffal ætti að nota í fiskinn.
Emily fæddist 3. október 1873 í Baltimore. Hún var einkabarn velstæðra foreldra og ólst upp við allsnægtir. Hún hafði barnfóstru frá því hún var pínulítil og þar til hún var send í einn hinna fínni kvennaskóla eða „finishing schools“ sem höfðu þann eina tilgang að þjálfa ungar yfirstéttarstúlkur í að vera fínar frúr. Árið 1891 var hún kynnt í samkvæmislífinu í New York og vakti strax mikla athygli. Hún var hávaxin (178 cm), glæsileg og gáfuð. Ríkur verðbréfasali, Edwin Main Post að nafni, heillaðist af henni og bað hennar. Emily var átján ára þegar þau giftu sig og með tveggja ára millibili fæddi hún manni sínum tvo syni.

Emily ætlaði sannarlega ekki að skrifa bók um mannasiði en lét tilleiðast fyrir þrábeiðni vinar síns.
Leiddist aðgerðarleysið
Líf Emily var um þessar mundir næsta líkt lífi annarra yfirstéttarhúsmæðra. Hún snæddi morgunverð í rúminu og gaf þjónustufólkinu fyrirmæli fyrir daginn um leið. Því næst tók við að svara bréfum sem henni bárust og taka á móti saumakonunni og hattagerðarmanninum. Venjulega snæddu tvær eða fleiri vinkonur hádegisverð með henni og í eftimiðdaginn fóru þær í heimsóknir. Konur af þeirri stétt sem Emily tilheyrði unnu alls ekki neina vinnu. Líf þeirra var svo sem oft og tíðum ánægjulegt en Emily fann fyrir ákveðnu eirðarleysi.
Vinur fjölskyldunnar sem var ritstjóri virts fjölskyldutímarits, hafði lesið bréf sem Emily skrifaði vinum og vandamönnum og hann hvatti hana til að skrifa. Það varð til þess að hún skrifaði söguna The Flight of a Moth sem sló í gegn. Bókin var ástarsaga en rómantíkin í lífi Emily var ekki mikil. Hún hafði ekki gifst Edwin af ást og þótt hann hafi verið heillaður af henni um tíma virðist það hafa verið fljótt að fjara út. Þegar ástarsamband hans við dansmey varð opinbert hneyksli skildi Emily við hann. Hún fór ekki fram á lífeyri frá honum, enda hafði hann tapað miklu í kauphöllinni skömmu áður. Hún taldi sig auðveldlega geta séð sér og sonum sínum farborða með skrifum, það kom líka á daginn.
Árið 1916 kom út ferðasaga eftir hana sem varð óskaplega vinsæl en vatnaskil urðu í lífi hennar árið 1921 þegar vinur hennar Robert Duffy stakk upp á því að hún skrifaði nokkurs konar alfræðiorðabók um mannasiði. Emily var treg til minnug þess að höfundar alls konar siðaleiðbeininga og bóka um mannasiði og samskipti kynjanna voru aðhlátursefni hennar og félaga hennar þegar hún var að alast upp. Fyrir þrábeiðni vinar síns lét hún undan og kvaðst ætla að skrifa örlítið kver. En það fór á annan veg. Eftir að hafa unnið sleitulaust að bókinni í eitt ár var hún loks tilbúin með 692 blaðsíðna handrit. Bókin hét Etiquette: in Society, in Business, in Politics, and at Home.
Hlýleg og jarðbundin í skrifum
Bókin kom út þegar efnahagsuppgangur eftir fyrra stríð var hvað mestur í Bandaríkjunum og varð umsvifalaust metsölubók. Jarðbundin viðhorf og hlýlegar leiðbeiningar Emily voru einmitt það sem nýríkir nonnar alls staðar þurftu á að halda til að olnboga sig í gegnum hafsjó siðaboða og óskráðra reglna fína fólksins. Emily gerði einnig sitt til að ýta undir sjálfstraust manna og benda þeim á að sá væri verri dóni sem tæki smávægilegum mistökum annarra af ruddaskap en hinn sem gerði mistökin. Hún fjallaði um alla skapaða hluti allt frá því hvernig best væri að fara úr hönskunum og til þess hvernig best væri að segja gestgjöfum sínum að flær væru í rúminu í gestaherberginu. Skrif hennar voru krydduð léttleika og í dæmisögum hennar komu fyrir persónur eins og Hr. Hlutur Verðbréf, Edda Veraldlega, Gyllingfjölskyldan og frú Upplofta.
Emily hafði mesta skömm á hrokafullu tali og gat ekki þolað að talað væri niður til fólks. Hún mælti sömuleiðis eindregið á móti allri tilgerð og ítrekaði margoft að einfaldleiki, einlægni og umburðarlyndi væru aðalsmerki hins vel siðaða manns. Sjálf hélt hún að þessar tæplega þúsund blaðsíður sem hún hafði skrifað nægðu til að segja allt sem segja þyrfti um mannasiði en raunin varð önnur. Bókin var varla komin út þegar fólk hóf að skrifa henni og biðja um ráð hvernig best væri að bera sig að við aðstæður sem hún hafði ekki tiltekið. Bók hennar var því margendurútgefin og endurbætt á því fjörutíu ára tímabili sem Emily lifði eftir þetta.
Hún naut sömuleiðis mikillar virðingar í samkvæmislífinu og frægum gestgjöfum þótti sér mikill heiður gerður ef hún fékkst til að sitja veislur þeirra og boð. Allt gekk henni því í haginn þar til hún missti yngri son sinn, Bruce, árið 1929 úr lífhimnubólgu. Sonarmissirinn olli Emily mikilli sorg sem hún reyndi að drekkja í vinnu. Árið 1929 var hún ráðin til að sjá um útvarpsþátt þrisvar í viku sem varð svo vinsæll að þegar Roosevelt byrjaði að útvarpa uppörvunarorðum til þjóðarinnar í kreppunni sagði hann að mesta hrós sem hann hefði fengið fyrir þættina hefði verið þegar einhver sagði við hann: „Þú ert bara jafngóður og Emily Post“.
Góður innanhússarkitekt
Emily vann sömuleiðis lengi við innhússarkitektúr og naut mikilla vinsælda sem slík. Hún gaf út bókina The Personality of a House árið 1930. Í henni segir hún að gluggarnir sé bros hússins og sé útihurðin falleg verði hún eins og velsnyrt útrétt hönd sem bjóði gesti velkomna. Hún gerði upp sumarhús sitt í Martha’s Vineyard sem er vinsæll sumarleyfisstaður fína fólksins í Bandaríkjunum. Þar varð hún fyrst til að innrétta vestrænt heimili í austrænum stíl. Vinir hennar náðu vart upp í nef sér fyrir hneykslun þegar þeir sáu hárautt veggfóður með kínversku mynstri í svefnherbergi hennar og öllu verra þótti að skáparnir voru í heiðgulum litum og ritvélin hennar sem stóð á skrifborði í svefnherberginu hafði verið máluð ljósblá.
Emily Post stofnaði eigið fyrirtæki árið 1946 og þjálfaði þar starfsfólk sitt til að aðstoða sig við að svara því ógrynni bréfa sem barst henni á degi hverjum. Fyrirtækið varð fljótlega stöndugt og Edwin sonur hennar hætti störfum hjá auglýsingastofunni sem hann vann hjá til að hjálpa móður sinni við reksturinn. Þau mæðginin skrifuðu síðan í sameiningu matreiðslubók sem kom út árið 1951.
Emily Post lést árið 1960 viku fyrir afmælisdaginn sinn. Hún var tæplega áttatíu og átta ára gömul. Þegar Emily dó var verið að endurútgefa mannasiðabók hennar í 89. skipti og var bókin í prentsmiðjunni þegar höfundurinn var borinn til grafar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.