Paradísareyjan sem Margrét prinsessa elskaði

Eygjan Mustique er lítil eyja í Karabíahafinu. Hún er hluti af eyjaklasanum St. Vincent og Grenadines. Margar nágranneyjanna eru frá náttúrunnar hendi dásamlegar en þessi eyðieyja hafði fátt með sér þar til framsýnn maður sá í henni möguleika.

Clenconner lávarður með Margréti prinsessu.

Árið 1958 höfðu Spánverjar yfirgefið sykurplantekrur sínar á þessum slóðum og eyjan var ekkert meira en eyðilegt kóralrif gróið harðgerðum runnum. Í raun hafði enginn áhuga á þessu skeri en þá kom Glenconner lávarður til sögunnar. Hann var breskur auðmaður og vissi varla aura sinna tal. Hann þráði að eignast eyju einhvers staðar þar sem hann gæti verið í friði með vinum sínum án þess að forvitin augu pressunnar eltu þá hvert fótmál. Hann keypti eyjuna fyrir það sem í dag þættu smáaurar en hann gerði sér grein fyrir að lega hennar gaf ótal möguleika til uppbyggingar.

Hann flutti til eyjarinnar ásamt konu sinni og þremur börnum og hóf þegar að planta pálmatrjám, leggja vegi og byggja hús. Hann lagði vatnsveitukerfi sem á örskömmum tíma breytti eyðimörk í gróðurvin. Glenconner var góður vinur Margrétar prinsessu, systur Elísabetar drottningar, og í eina tíð hafði jafnvel verið uppi orðrómur um að hann hefði beðið hennar. Um þetta leyti var prinsessan hins vegar trúlofuð Antony Armstrong Jones og brúðkaupið stóð fyrir dyrum.

Hús Margrétar, Les Jolies Eaux.

Glenconner datt í hug að gefa prinsessunni lóð á Mustique í brúðargjöf og slá þannig tvær flugur í einu höggi. Gefa vinkonu sinni góða gjöf og tryggja að fjárfesting hans í eyjunni myndi skila sér tífalt því þar sem Margrét prinsessa var mátti búast við stórum hópi þeirra fínustu og bestu í bresku samkvæmislífi. Margrét þáði lóðina með þökkum og byggði sér húsið Les Jolies Eaux (fallegu vötnin). Það var frændi brúðgumans leikmyndahönnuðurinn Oliver Messel sem hannaði húsið. Brella Glenconners tókst með miklum ágætum. Eftir að Margrét prinsessa hafði byggt sér hús á eyjunni hans fylgdi stór hluti breska aðalsins í kjölfarið. Lóðir á Mustique runnu út eins og heitar lummur og enn í dag er hún einna vinsælasti sumardvalarstaður hinna ríku og frægu.

Mick Jagger í kvöldverðarboði hjá Margréti á Mustique.

Fleiri frægir láta heillast

Armstrong Jones, sem reyndar hlaut jarlstign þegar hann giftist prinsessunni varð Earl Snowdon, og prinsessan fóru í brúðkaupsferð til eyjarinnar og Margrét var heilluð af friðnum og umhverfinu í þessari tilbúnu paradís. Þar dvaldi hún upp frá þessu hvenær sem hún gat í fríum og í hvert skipti sem hún þurfti að flýja undan bresku slúðurblöðunum. Þangað fór hún þegar hún skildi við Snowdon lávarð og þar var hún mikið eftir að heilsa hennar tók að gefa sig síðustu árin sem hún lifði. Nú dvelja þar oft Vilhjálmur krónprins og Katrín með börnum sínum.

Stofan í Les Jolies Eaux.

Eyjan er nú í eigu sameignarfélags, The Mustique Company, en allir lóða- og húseigendur eiga þar hlut. Þar eru nú á dögum mörg hótel sem hægt er að dvelja á og njóta hins besta sem völ er á í mat og drykk. En meðal þeirra sem eiga hús á Mustique má nefna Tommy Hilfiger, Mick Jagger og Lord Lichfield (frægur breskur ljósmyndari). Á hverju ári heimsækja eyjuna fólk eins og Pierce Brosnan, Johnny Depp, Jon Bon Jovi, Denzel Washington og Kate Moss. Raquel Welch var meðal þeirra sem heillaðist af eynni og til er saga af heimsókn hennar til eyjarinnar sem lýsir vel því nafnleysi sem hinir frægu búa við þarna. Raquel dvaldi á hóteli og kvöld eitt á barnum var hún beðin að skrifa undir reikninginn. Hún varð strax við því og skrifaði Welch á punktalínuna. Þegar þjónninn sá undirskriftina sneri hann sér að henni og sagði kurteislega: „Frú, ég verð að biðja þig að rita nafni þitt undir ekki þjóðernið.“ Þangað sótti einnig Amy Winehouse. Hún dvaldi þar í löngu fríi með pabba sínum  eftir að hún lauk meðferð við fíkni. Cheryl Cole hefur mikið uppáhald á þessum stað og Sir Paul McCartney sömuleiðis.

Amy Winehouse fann athvarf á Mustique eftir að hafa verið í meðferð við fíkn.

Hóteldvöl á Mustique er dýr jafnvel utan aðalferðamannatímans en hafa ber í huga að allt er innifalið í verðinu, matur, drykkur og fyrsta flokks herbergisþjónusta. Mörg af sumarhúsunum er einnig leigð ferðamönnum þegar eigendurnir eru þar ekki og nefna má að ódýrustu húsin kosta 6500 dollara vikan eða um 611.000 íslenskar krónur. Hafa ber í huga að flest húsin eru stór svo þar geta auðveldlega dvalið 12–20 manns í einu en hafa þarf í huga að þá er ótalinn kostnaður við að koma sér á staðinn. Veðrið á Mustique er yndislegt allt árið um kring og þar eru litlar sandvíkur og vogar sem eru nægilega afvikin og afskekkt til að þar er hægt að vera algjörlega í friði. Þetta er algjör paradís sem búin var til úr lítilli eyðieyju af framsýnum manni en sennilega verður aldrei á færi annarra en ríkasta fólks í heimi að dvelja þar.

„Í raun hafði enginn áhuga á þessu eyðilega skeri en þá kom Glenconner lávarður til sögunnar. Hann var breskur auðmaður og vissi varla aura sinna tal.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.