Ekkert jafnast á við raunveruleg samtöl

Steingerður Steinarsdóttir

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Samfélagsmiðlar eru frábærir á svo margan hátt. Til dæmis er ósköp gott að geta sent ættingjum og vinum skilaboð á facebook og líklega finnst öllum frábært að fá allar afmæliskveðjurnar sem sá miðill skilar þér. Ekki amalegt að finna streyma til sín hlýju og góðar óskir frá svo mörgum. Nú og svo er það síminn, öll smáskilaboðin sem við sendum daglega sem spara okkur sporin, símtölin og snúningana.

Það er líka ágætt að geta farið á netið og fengið upplýsingar um opnunartíma verslana og þjónustustofnana og leyst úr algengum vandræðum með hjálp snjallmenna. Þessi tækni er orðin sjálfsagður hluti af lífi okkar en hún getur verið jafn leiðinleg og hún er gagnleg. Gervimennin geta eingöngu svarað algengustu spurningum og þau eru ófær um að gefa leiðbeiningar eða veita aðstoð ef vandamálið reynist flókið. Margir sakna líka mannsraddarinnar og vita að þeir séu að tala við hugsandi veru

Og þótt fallegar kveðjur gleðji ávallt hlýtur að vera betra að fá þær beint í eyrað eða augliti til auglitis. Mjög margir sakna þeirrar nándar og að vera í beinni snertingu við aðra. Það er mönnum ekki eðlislægt að eiga dögum saman ekki í öðrum samskiptum en rafrænum. Við þurfum öll á umhyggju að halda, vera í samvistum við aðra og umfram allt eiga í djúpum og ánægjulegum samræðum.

Góð samtöl

Meðan Covid-farsóttin gekk yfir heimsbyggðina gripu margir til þess ráðs að hringja reglulega í ættingja sem þeir gátu ekki lengur heimsótt. Sumir stóðu fyrir utan glugga dvalarheimila til að geta veifað til afa eða ömmu. Þess voru dæmi að nágrannar færðu þeim sem búa einir heimabakað góðgæti eða annað til að gleðja meðan ekki mátti fara út á meðal fólks. Þannig dró veiran fram hið góða í mörgum og bætti í raun samskipti. Það að finna að einhver lætur sér annt um mann eða hefur áhuga á að hlusta á það sem þú hefur að segja gerir ótrúlega mikið fyrir andlega líðan fólks og getur glatt manneskjuna óendanlega mikið.

Að gefa af sér á þennan hátt skilar ekki síður vellíðan. Þegar góðir vinir hittast og eiga saman notalegt og líflegt spjall finna allir hversu mjög þeir hafa saknað þessa og hvað þeim líður miklu betur á eftir. Góð samtöl draga úr einmanaleika og hjálpa okkur að tengjast öðrum, samtöl þar sem menn hlusta á hvorn annan og leggja sitt til málanna. Samtöl geta snúist um hvað sem er en svo lengi sem allir fá sitt pláss, ná að tjá sig og taka þátt í umræðunum er tilgangnum náð. Það er til að mynda mjög gott að taka þátt í bókaklúbbum eða annars konar umræðuhópum því þar er gert ráð fyrir að allir fái sitt rými.

Annar ókostur samfélagsmiðlanna er að þeir draga oft upp ranga mynd af lífi fólks. Í mörgum tilfellum lítur út fyrir að einhver lifi einstaklega annasömu og skemmtilegu lífi en raunin kann að vera önnur. Þetta getur komið í veg fyrir að fólk setji sig í samband við viðkomandi og eins getur það valdið vanlíðan hjá öðrum að finnast líf allra annarra svo miklu mun fyllra en þeirra eigin.

Það hversu aðgengilegir ættingjar okkar og vinir eru á facebook og öðrum samfélagsmiðlum virkar einnig oft sem hindrun fyrir því að við leitumst eftir að hitta þá. Okkur finnst við vita hvað er að gerast hjá þeim og ekki þurfa að spyrja frétta. Samfélagmiðlar sýna hins vegar aldrei nema brot af raunveruleikanum og oft fegrað og ritstýrt. Það gleymist stundum að til þess að einhver láti sér annt um þig og þína vellíðan þarft þú að gefa hið sama á móti. Það að taka upp símann og hringja af og til er nóg til að minna á að þú ert til staðar, að þú er tilbúinn til að tala, hlusta og sýna stuðning, nú eða bara spjalla um daginn og veginn, kvarta undan veðrinu, mæla með góðri bók eða sjónvarpsþætti. Það er gott að heyra hlýja rödd og hringdi ekki Stevie Wonder bara til að segja að hann elskaði konuna sína.