Allt sem mótar og breytir

Nú hafa vísindamenn sannað að áföll setja mark sitt á erfðaefni mannsins. Sumir telja að gleði okkar og velmegun setji ekki síður svip á afkomendurna og margir hafa velt fyrir sér rótum okkar og tengslum við forfeðurna. Í nýjustu ljóðabók sinni, Einurð, tekst Draumey Aradóttir á við þetta viðfangsefni og byrjar þegar fóstrið er að mótast í móðurkviði.

Þitt nafn er sandkorn í hafsins hyl

og heimtist aldrei að landi.

Þú vissir ekki að ég yrði til

úr ættanna kynlega blandi.

Þannig orti Jón Helgason Til höfundar Hungurvöku og öll erum við kynleg blanda einstaklinga og ætta. En hver gengur með barn og hvernig búið er að móður á meðgöngu er ekki síður mótandi. Engin kona er eins, engin meðganga er eins og efnasamsetning og aðstæður í legi eru einnig einstakar. Þetta hafa rannsóknir sýnt og það hvort kvikni á ákveðnum hvötum eða erfðaeiginleikum getur verið háð því hvernig veröldin veltist í kringum þá konu sem gengur með barn. Mér varð óneitanlega hugsað til þessara áhugaverðu vísinda þegar ég las Einurð. Hún hefur legið á náttborðinu mínu undanfarið og verið gripin af og til.

Draumey er lipurt skáld og dregur upp öflugar og áhrifamiklar myndir. Okkur er tamt að hugsa um fóstrið umvafið hlýju móður, varið með vatnsbelgjum og nært með blóði. En hvað er varnirnar eru rofnar, öryggið ekki meira en svo að áhrif heimsins geti auðveldlega borist þarna inn og sett sitt mark á barnið? Hér er það barnið sem talar. Sagan er sögð frá sjónarhóli þess og rödd þess er sterk og trúverðug. Þetta er í senn mótunarsaga einstaklings og lýsing á sambandi hans við móður sína.

Hér er svo margt umhugsunarvert og krefjandi. Draumey skrifar meitlaðan texta og er agaður höfundur en jafnframt vekur orðgnóttin og heillandi myndmál athygli. Einurð er ein þessara bóka sem lifir lengi með lesandanum og opnar nýja sýn.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 3, 2024 07:00