Sálin er aldurslaus

Steingerður Steinarsdóttir

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Undanfarið hef ég velt mikið fyrir mér þeirri þversögn að líkaminn eldist en hið innra erum við söm, eða það finnst okkur. Ég vinn með fólki á öllum aldri, sumir eru jafnaldrar mínir, aðrir á aldur við börnin mín og nokkur þeirra gætu verið barnabörn ef börnin mín hefðu byrjað barneignir ung. Ég finn hins vegar aldrei fyrir aldursmuninum meðan ég á í samskiptum við þau. Mér finnst einhvern veginn allir vera jafnaldrar mínir að þau öll hafi sama skilning á veröldinni og ég.

Þess vegna kemur mér stundum á óvart að uppgötva að þau muna alls ekki eftir sjónvarpsefni sem mér finnst að allir eigi að þekkja nú eða kannast ekki við að ákveðið hús hafi staðið á þessu eða hinu horninu. En þá fæ ég tækifæri til að fræða þau, segja frá og það finnst mér ekki leiðinlegt. En ég nýt þess líka að hlusta á þau, læra af þeim. Þau hafa margt fram að færa og iðulega koma þau mér rækilega á óvart með því hversu skynsamleg, manneskjuleg og heilbrigð viðhorf þeirra eru til lífsins. Þá hugsa ég oft; vá ekki var ég komin svona langt á þroskabrautinni á þeirra aldri.

En hver aldur hefur sinn sjarma, sína kosti og það er dásamlegt að fá að vera akkúrat þar sem maður er í þroskaferlinu, í lífinu. Ég held að sálin sé aldurslaus, hún þroskist en hafi engan aldur. Það þarf að hugsa hlutina svolítið öðruvísi þegar aldurinn færist yfir. Hver og einn þarf að finna hið fullkomna jafnvægi milli hvíldar og hreyfingar. En hugurinn er jafn tilbúinn að vinna og áður og á hann má leggja margvíslegar þrautir, krefja hann um að vera opinn og tilbúinn að læra eitthvað nýtt. Sjá hlutina með augum annarra.

Sambandið við vini og fjölskyldu verður líka að taka stöðugum breytingum. Ef maður ber gæfu til að tilheyra samhentri fjölskyldu þar sem raunverulegan stuðning er að finna skapar það öryggi og vellíðan sem einstaklingurinn býr að alla ævi. Það er líka mikilvægt að eiga góða vini og þeir sem hafa fylgt manni lengst eru verðmætastir. Stundum gleymir maður að rækta þá, halda þeim eins nálægt sér og hægt er. Of oft finnst okkur að það megi nú bíða ögn að hittast því nógur sé tíminn þegar við hættum að vinna eða þegar umsvifin í kringum fjölskylduna minnka en þannig er það ekki. Allt í einu getur það verið orðið of seint. Ég sé alltaf betur og betur hversu mikilvægt það er að búa sér til sinn kjarna og halda honum eins þéttum og heilbrigðum og mögulegt er. Það er nefnilega lykilinn að heilbrigði sálarinnar. Hún fær næringu úr baklandinu, rótunum og fjölskyldan og vinirnir eru ræturnar. Það nægir engum að spjalla við gervigreindina því við þurfum á mannlegri nærveru að halda raunverulegum samræðum og örvandi samskiptum svo sálin haldist síung og fersk.