Tengdar greinar

Heimur sveppanna og mannlífið

Í desember leggst ég alltaf í lestur af krafti. Bæði fyllist ég keppnisskapi og vil lesa fleiri bækur en í fyrra en ég verð líka svo innblásin að fylgjast með umfjöllunum um allar bækur jólabókaflóðsins að ég get ekki annað en að hámað í mig bækurnar.

Nýverið las ég Flagsól eftir þær Melkorku Ólafsdóttur og Hlíf Unu Bárudóttur. Þar er blandað saman ljóðlist, myndlist og náttúrufræði á virkilega spennandi hátt. Hver opna í bókinni er þrískipt. Á vinstri síðu er fræðilegur texti sem lýsir eiginleikum þess svepps sem um ræðir, teikning af honum eftir Hlíf Unu og á hægri síðu ljóð eftir Melkorku.

Ljóðin og myndirnar búa til einstaka spennu sín á milli. Myndirnar eru í senn realískar og ævintýralegar. Ljóðin eru oft húmorísk eða tilfinningaþrungin og fá lesandann til að horfa allt öðrum augum á myndirnar. Hver og ein opna gæti staðið ein og sér því þar kynnist lesandinn eiginleikum sveppsins og útliti en ljóðið býr til heim sveppsins, tengir hann við hugmyndafræði eða persónugerir hann. Í ljóðinu Tjörusveppur t.d. túlkaði ég laufið sem sveppurinn leggst á sem ungling og sveppurinn varð táknmynd þessa gífurlega eftirminnilega tímabils í lífi manneskjunnar þar sem ráðist er á sakleysið með ábyrgð, skyldum og breyttum líkama. Í ljóðinu Gráspyrða er greinileg ádeila á yfirráð kapítalismans bæði í orðum ljóðsins en einnig myndinni sem því fylgir. Og sambland ljóðsins Rótbarða, fræðitextans og myndarinnar vekur hugrenningatengsl við missi vegna sjúkdóms líkt og krabbameins.

Samsetning og röð ljóðanna minna á framvindu þroskaferlis frá fæðingu til dauða. En ferlið er ekki bókstaflegt heldur tengja  okkur við hringrás lífsins, mikilvægi náttúrunnar og benda á að lífið er stútfullt af spennu, togstreitu og fegurð í bland. Einnig mynda sveppirnir samfélag og við sjáum hlutverk þeirra og tilgang en líka jafnframt galla þeirra og breyskleika. Flagsól ber kennsl á að margt getur verið satt á sama tíma og jafnvægið er það sem bindur okkur saman. Heimur sveppanna verður okkur nálægur og ná þær Melkorka og Hlíf Una að miðla þessari mögnuðu veröld á aðgengilegan en margræðan hátt. Þrátt fyrir að vera í kappi við að lesa allar bækur jólabókaflóðsins krafði Flagsól mig til að staldra við. Öll vitneskjan, tilfinningarnar og afar sterk tákn kveiktu í mér og naut ég þess að drekka í mig hverja síðu, hvert orð og hverja mynd.

Eva Halldóra Guðmundsdóttir sviðslistamaður skrifar fyrir Lifðu núna. 

Ritstjórn desember 12, 2023 17:18