Samhjálp hefur bjargað mörgum mannslífum

Dóra Sólrún Kristinsdóttir, djákni og lyfjatæknir, varð sjötug á árinu og ætlar að halda upp á það með einstökum hætti. Hún starfaði um tíma fyrir Samhjálp sem rekur Hlaðgerðarkot, Kaffistofuna og áfangaheimili og segir að þar sé unnið afar mikilvægt og gott starf, margir séu í vanda vegna fíknar, ekki síst unga fólkið okkar. Dóra hleypur 10 km núna á laugardag til styrktar Samhjálp og hlakkar til.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að hlaupa 10 km fyrir Samhjálp? „Ástæðan er fyrst og fremst sú að vinkona mín erum sjötugar  á árinu og það barst í tal hvort við ættum ekki að hlaupa 10 km að því tilefni og styrkja Samhjálp. Við ræddum þetta í febrúar og mér leist vel á þessa hugmynd. Svo byrjuðum við að æfa en við höfum báðar tekið þátt í Reykjavíkur maraþoni áður og höfum meðal annars farið í hálfmaraþon. Það bættust svo fleiri konur í hópinn en við æfum ekkert endilega saman en þekkjumst vel. Ég tók þá ákvörðun að hlaupa fyrir Samhjálp en ég þekki Samhjálp mjög vel og marga sem hafa notið þjónustu þar í meðferð.“

Hefur séð fólk blómstra eftir meðferð á Hlaðgerðarkoti

Hvað gerir Samhjálp fyrir fólk? „Samhjálp eru félagssamtök sem eru styrkt með framlögum frá einstaklingum til að styðja fólk sem er í þessari stöðu og til að reka Hlaðgerðarkot, Kaffistofuna og áfangaheimili, þannig að þau sjá um söfnun og allt utanumhald. Svo er meðferðarstofnunin það er að segja Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal en þar er tekið við fólki sem hefur verið í neyslu. Þar er margt ungt fólk sem hefur verið í harðri neyslu en einnig fólk á öllum aldri. Samhjálp og Hlaðgerðarkot eru rekin á kristilegum grunni, þetta er kristilegt starf og kristin trú er kynnt fyrir krökkunum og fólkinu sem kemur þarna í meðferð. Þarna eru bænarstundir og stuðst er við kristna trú í meðferðinni. Ég er menntuð sem djákni og í náminu var ég um tíma í Hlaðgerðarkoti, ég fylgdi þar ráðgjafa og var svo með sálgæslu líka. Mér þyki mjög vænt um Samhjálp, starfið sem er unnið þar er dásamlegt og hefur bjargað mörgum mannslífum. Ég hef séð það með eigin augum. Það er margt ungt fólk sem fer þangað þegar öll önnur úrræði hafa brugðist,“ segir Dóra Sólrún.

Hvernig er meðferðin? „Þetta er þriggja mánaða meðferð sem ég tel að sé mjög gott því margir þurfa á því að halda. Það er mikil uppbygging á þessum þremur mánuðum og ég hef séð krakka til dæmis fara að spila á hljóðfæri, syngja og taka þátt í tónlist.  Það eru Samhjálparsamkomur á fimmtudagskvöldum í Fíladelfíu og þar sér maður þetta unga fólk spila og syngja, fólk sem var í meðferð ári áður eða er nýkomið úr henni. Þarna eru mikil tækifæri til að blómstra sem er svo frábært og mér finnst svo frábært hvað fólk nær að blómstra og gera hluti sem eru gefandi.“

Mikil stemning í hlaupunum á Menningarnótt

Þetta er frábært framtak hjá þér að hlaupa og styrkja Samhjálp, var ekkert erfitt að taka þessa ákvörðun og henda sér í æfingar komin á þennan aldur? „Nei,“ svarar hún án þess að hika. „Á árunum milli 1993 og 2000 hljóp ég mjög mikið – ég hef fjórum sinnum farið hálft maraþon og oft 10 km hlaup eftir það. Ég hef líka alltaf stundað íþróttir og hreyfingu í gegnum lífið,“ segir Dóra Sólrún og það hefur sannarlega skilað sér. „En ég hef ekki hlaupið undanfarin fjögur til fimm ár. Við vinkonurnar hvöttum hins vegar hvora aðra og þetta er bara gaman. Hinar hafa töluvert verið í Crossfit og við æfðum saman fyrir nokkrum árum, þannig að þessar konur eru allar í fínu formi sem hlaupa fyrir Samhjálp.“

Finnst þér að þín vinna sé vel metin og skili sér til skjólstæðinga þinna? „Já, og ég held líka að þegar maður er kominn á miðjan aldur og búinn að upplifa ýmislegt í lífinu þá er það alltaf með manni í svona starfi, að geta sagt: „Ég veit hvernig þér líður“ af því ég hef verið í þessum sporum sjálf. Núna hefur verið bætt við sálgæslu námið  í djákna náminu og hefur námstíminn verið lengdur sem er mjög gott.

Þó að ég hafi ekki hlaupið svona langa vegalengd í nokkur ár, eins og ég geri á laugardag, þá hreyfi ég mig mikið og er ég í góðu formi. Ég er í fjallgöngum og öðrum göngum. Ég  hljóp 7 km síðastliðinn laugardag og það gekk vel og ég ætla að fara 9 km fyrir hlaupið á laugardag og þá kemur í ljós hvernig gengur. Ég hef engar áhyggjur, ég mun komast þetta. Ég ætla bara að njóta þess að hlaupa og er alveg afslöppuð gagnvart þessu.“

Dóra Sólrún segir að það sé mikil stemning á Menningarnótt þegar fólk hleypur fyrir góð málefni. „Samhjálp er að ég held komin yfir milljón í styrki, það munar um allt og það verður örugglega meira þegar upp er staðið.  Við höldum svolítið hópinn konurnar sem hlaupum, við ætlum að hittast og sækja gögnin fyrir hlaupið á föstudaginn og svo verður hópur einhvers staðar á leiðinni að hvetja okkur áfram,“ segir Dóra Sólrún og brosir.

Getur ekki slitið sig frá starfinu

Dóra Sólrún ákvað að fara í djáknanám upp úr miðjum aldri. „Ég lærði seint, fór 56 ára í Guðfræðideildina í HÍ til að verða djákni og útskrifaðist 59 ára. Ég er búin að vinna við þetta í 11 ár sem hefur verið frábær tími en fram að náminu vann ég sem lyfjatæknir. Ég var búin að ganga með það lengi í maganum að læra guðfræði og er ég mjög ánægð með að hafa látið þann draum rætast. Djáknastarfið hefur gefið mér mikið.

Ég er núna hætt að vinna og er á eftirlaunum en ég er í sjálfboðastarfi. Ég held að maður haldi áfram að þjóna meðan maður getur. Ég starfaði á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði í hlutastarfi síðustu tvö árin og ég er sjálfboðaliði þar og fer einu sinni í mánuði og er með helgistundir. Svo er ég með mína skjólstæðinga sem eru vinir mínir og sinni líka sálgæslu. Ég get ekki slitið mig alveg frá fólki, þetta er þannig starf.“

Svo lýkur þessu hlaupi, heldurðu að þú takir aftur þátt að ári? „Já, jafnvel, ég mun alla vega halda áfram að ganga, það eru ótal fallegar gönguleiðir í kringum Hveragerði þar sem ég bý. Það er bara opið hvort ég muni taka þátt næsta ár og hlaupa fyrir eitthvert málefni en ég held áfram að vera á þessum vettvangi. Ég hef alltaf verið virk og get ekki verið bara heima og dúllað mér þar, það er ekki fyrir mig. Maðurinn minn er mjög jákvæður gagnvart þessu og segir að ég eigi bara að halda áfram á meðan ég vil en hann er hættur að vinna. Að takast á við verðugt verkefni heldur manni við og heilsunni líka og ég ætla að haga mínu lífi þannig. Ég er þakklát fyrir að geta hlaupið fyrir þetta verðuga verkefni sem Samhjálp stendur fyrir og ætla að klára þetta.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna