Dagmar Viðarsdóttir heldur mörgum boltum á lofti í starfi sínu sem framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Póstinum, þar sem starfa um 500 manns á öllum aldri og frá ýmsum löndum. Dagmar hefur áralanga reynslu af mannauðsmálum og segir miklar breytingar hafa átt sér stað frá því hún byrjaði að vinna á þeim vettvangi. Til dæmis sé ekki lengur fussað og sveiað yfir því, eins og gjarnan var gert áður, að fólk sem komið er á miðjan aldur ákveði að fara í háskólanám eða skipta um starf. Þó virðist enn örla á aldursfordómum hjá sumum fyrirtækjum sem kjósi heldur að ráða yngra fólk heldur en eldra.
„Því miður hef ég heyrt umræðu um aldursfordóma innan fyrirtækja þegar kemur að ráðningum, og ég hef heyrt dæmi frá fólki sem hefur upplifað slíka fordóma. Ég er mjög ósammála þeirri nálgun því fólk sem komið er á fimmtudagsaldur til dæmis er oft komið fyrir vind með mestu fjölskylduábyrgðina og þarf ekki alla daga að hugsa um að skutla, sækja, drífa sig heim til að elda eða er undir miklu álagi vegna veikinda barna og svo framvegis. Auk þess hefur eldra starfsfólk víðtæka reynslu; ekki bara úr umhverfi dagsins í dag heldur einnig frá því hvernig tímarnir voru áður fyrr og það er verðmæt reynsla sem má alls ekki gjaldfella. Því finnst mér það miður ef stjórnendur horfa fram hjá mikilvægi fjölbreytileikans þegar kemur að samsetningu starfsmannahópa. Það er auðvelt að festast í bergmálshelli ef við tökum ekki tillit til allrar flórunnar sem er þarna úti; ekki einungis hvað varðar vinnustaðamenninguna heldur einnig hvað viðskiptaleg sjónarmið varðar, til dæmis þegar verið er að koma nýrri vöru á markað. Ef við hlustum á öll sjónarmið og hagnýtum og sameinum þekkingu hópsins verður útkoman án efa stórkostleg.“
Gaman að sjá fólk sigrast á eigin kreddum
Dagmar segir að oft hafi verið litið svo á að fólk sem komið var á fimmtugs- og sextugsaldurinn þyldi ekki breytingar, væri jafnvel með allt á hornum sér og gerði það ómögulegt að skapa góða vinnustaðamenningu. „Auðvitað getur fólk átt misjafnlega gott með að takast á við breytingar en eitt er víst að breytingar munu alltaf eiga sér stað á einhverjum tímapunkti og þá skiptir máli hvernig við sem manneskjur ætlum að fanga þær. Ætlum við að standa á móti þeim? Tökum við breytingunum með opnum huga? Viljum við gefa kost á okkur í mögulega breytt hlutverk innan fyrirtækisins? Við höfum alltaf val um það hvernig við ákveðum að bregðast við en þurfum einfaldlega öll, alltaf, að huga að því hvernig við viðhöldum hæfni á sem flestum sviðum og eldri starfsmenn þurfa að vera jafntilbúnir og þeir sem yngri eru fyrir því að breytingar geti orðið á vinnustaðnum.“
Heldur þú að þarna sé einhver munur á milli kynjanna?
„Kannski út á við, en reynsla mín er þó sú að innst inni séu kynin líkari en við stundum teljum, alla vega hvað þetta snertir. Ég hef oft orðið vitni að því við stjórnendaþjálfun að konur upplifi til dæmis ákveðið óöryggi í tengslum við breytingaskeiðið þó það sé alls ekki algilt. Til að nefna dæmi hef ég átt mörg samtöl við konur sem hafa náð langt á sínu sviði en hafa svo allt í einu farið að efast um eigið ágæti. Mín reynsla er samt sú að karlar séu oft að glíma við sömu fordóma gagnvart sjálfum sér og mögulegri atvinnuleit eða tækifærum sem bjóðast en þeir þyrftu að láta meira í sér heyra svo þeir viti að þeir séu ekki einir um þessa upplifun. Þeir virðast gjarnan lokaðri með sín mál en þegar kafað er dýpra kemur ýmislegt í ljós; til dæmis að þeir upplifa oft breytingar á sinni líðan á þessu aldursskeiði sem getur haft þau áhrif á þeir missi trúna á sjálfum sér, á framtíðinni og hvers þeir eru megnugir. Af og til þarf bara að minna fólk á að reynslan sem það hafi viðað að sér og árangurinn sem það hafi náð segi sína sögu. Ef viljinn er fyrir hendi eru allir vegir færir. Mér finnst svo gaman að sjá fólk átta sig á því hvað það kann og getur og veður síðan í að ganga á eftir draumum sínum og sigrast á eigin kreddum.“
Kann vel við sig þar sem er líf og fjör
Hjá Póstinum starfa um 500 manns og um 25% starfsfólks er af erlendu bergið brotið, frá sautján löndum. Dagmar svarar játandi þegar blaðamaður spyr hvort verkefni mannauðsstjóra Póstsins séu ekki mörg og fjölbreytt. „Ég er þannig gerð að ég kann vel við mig þar sem er líf og fjör og það er nóg af því hjá Póstinum ásamt ýmsum áskorunum sem gaman er að takast á við, frábærum samstarfsfélögum og skemmtilegu umhverfi. Ég hef gegnt starfi mannauðsstjóra Póstsins í rúm fjögur ár og á þeim tíma hafa orðið miklar breytingar, hjá Póstinum hér á Íslandi og póstþjónustufyrirtækjum um allan heim, bæði í tækni og háttum. Nú eru til dæmis bréfin, sem lengi vel voru aðaltekjustraumurinn, að hverfa en netverslun að aukast á móti sem breytir rekstrinum mikið. Pósturinn er með starfsemi um allt land og tengingar um allan heim. Mér finnst magnað að hugsa til þess að starfsfólk Póstsins snerti öll heimili landsins með einum eða öðrum hætti.“
Dagmar segir Póstinn geta státað af því að margt starfsfólk hafi unnið þar árum saman, jafnvel svo áratugum skiptir. „Til dæmis get ég nefnt Eyjólf Guðmundsson, sem í dag er teymisstjóri viðskiptakerfa en hann hefur starfað hjá Póstinum í 52 ár. Hann byrjaði sem sumarstarfsmaður við að flokka póst og hefur unnið í flestum deildum fyrirtækisins í gegnum árin; viðað að sér nýrri þekkingu og hæfni sem er lykillinn að velferð hans hjá Póstinum. Hvað starfsánægju varðar finnum við að viðhorfið skiptir miklu máli en við leggjum ríka áherslu á traust, vilja og framsækni í öllum okkar störfum og mælum til dæmis starfsánægju í hverjum mánuði með Moodup. Þá skiptir fjölbreytileiki einnig miklu máli og við höfum verið í samstarfi við Virk, Vinnumálastofnun og fleiri atvinnutengd úrræði.“
Viðhorf skiptir sköpum í atvinnuleit
Blaðamaður veltir upp spurningunni hvort það sé nokkurn tíma of seint fyrir fólk að hugsa sér til hreyfings á vinnumarkaði og sækja um vinnu á nýjum stað. „Ég man þá tíð þegar var fussað og sveiað yfir því að fólk sem var komið fast að fimmtugu væri að sækja sér háskólamenntun en í dag er það litið öðrum augum enda þarf fólk stöðugt að viða að sér nýrri þekkingu og hæfni til að staðna ekki. Hvort það sé endilega skynsamlegast í heimi að fara í fimm ára háskólanámi eigandi kannski sjö til tíu ár eftir af starfsævinni skal ég þó ekki segja til um,“ segir Dagmar kímin. „En þetta viðhorf, að fólk væri of gamalt fyrir nám, átti líka við um fólk sem ákvað að skipta um starfsvettvang seint á lífsleiðinni og gera eitthvað allt annað en það hafði gert áratugina á undan. Þetta hefur breyst og sem betur fer hafa margir kjark til að sækja fram og gera eitthvað sem skiptir þá máli. Svo vil ég meina að í dag sé fólk á fimmtugs- og sextugsaldri oft og tíðum í betra formi nú en áður var. Við erum miklu meðvitaðri um mikilvægi góðrar heilsu, bæði líkamlegrar og andlegrar, viðhorf okkar til lífsins og svo framvegis.“
Hvað ráðleggur þú atvinnuleitendum sem komnir eru á og yfir miðjan aldur?
„Viðhorf og það hvernig maður talar við sjálfan sig skiptir sköpum í atvinnuleit. Vil ég læra eitthvað nýtt, hagnýta það sem ég hef áður lært og sækja þannig fram? Eða ætla ég að gera það sem ég hef verið að gera fram til þessa og vona það besta? Ég mæli með því að fólk sé alltaf að skoða nýja hluti og reyna að nýta það sem gagnast í nærumhverfinu. Það er líka gott að sækja sér fyrirmyndir úr raunheimum sem okkur langar að samsama okkur við og það gefur oft góða raun.“
Ráðningarstjórinn varð henni fyrirmynd
Sjálf segist Dagmar hafa átt sér mikilvæga fyrirmynd í lífi og starfi. „Ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 1994 og leitaði til ráðningarfyrirtækisins Hagvangs þegar ég byrjaði atvinnuleit eftir námið. Þar hitti ég Katrínu Óladóttur, sem starfaði við ráðningar og sem framkvæmdastjóri hjá Hagvangi í mörg ár. Hún hafði mikil áhrif á mig, var svo hvetjandi og jákvæð, og ég man að hafa hugsað eftir spjallið við hana að mig myndi langa að starfa við það sama og hún í framtíðinni. Svo hugsaði ég ekkert um það næstu árin þar sem leiðin lá annað. Mörgum árum seinna var ég heima í fæðingarorlofi, búin að vera að vinna í tryggingabransanum í nokkur ár, og var að fletta í gegnum dagblöðin og lesa greinar um fólk sem var að gera það gott. Það voru allir að meika það, nema ég sem var bara heima í bleyjuskiptum,“ segir Dagmar og skellir létt upp úr. „En viti menn! Þarna rakst ég líka á auglýsingu um nýtt meistaranám í mannauðsstjórnun og ég hugsaði með mér að þetta gæti nú verið eitthvað fyrir mig. Ég ákvað að sækja um og þar með rættist þessi gamli draumur. Katrín hafði náð að sá þessum fræjum í huga mér og ég hef ekki séð eftir þeirri ákvörðun í eina mínútu að hafa farið í þetta nám í mannauðsstjórnun á sínum tíma. Ég elska það sem ég er að gera.“
Góð ráð fyrir eldra fólk í atvinnuleit
Það er komið að því að slá botninn í þetta skemmtilega spjall við Dagmar en blaðamanni finnst ótækt að kveðja hana án þess að spyrja hvort hún lumi á góðum ráðum fyrir lesendur Lifðu núna sem e.t.v. séu í atvinnuleit eða langi að breyta til í starfi. Það stendur ekki á svörum hjá Dagmar: „Gætið þess að uppfæra ferilskrána og vanda hana án þess að ofselja reynslu og afrek en gera ekki heldur of lítið úr þeim. Þegar hringt er í umsækjanda til að boða hann í viðtal skiptir fyrsta snerting miklu máli, þ.e. hvernig viðkomandi svarar í símann og hvernig hann hljómar. Virkar viðkomandi umsækjandi áhugasamur eða eins og honum sé alveg sama? Svo nefni ég aftur þetta með að horfa til fyrirmynda og samferðafólks í lífinu. Hverjir eru að gera góða hluti? Hvernig tala ég við þá? Hrósa ég þeim og veiti þeim innblástur? Hvar liggja styrkleikar mínir og hvernig get ég nýtt þá sem best? Svo mæli ég með því að við tökum okkur ekki of alvarlega; það getur verið leiðinlegt.“
Guðrún Óla Jónsdóttir blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.