BYKO vill ráða fleiri eldri starfsmenn

Sigurður Pálsson.

Við viljum gjarnan ráða fleira eldra fólk til starfa, bæði karla og konur. Ef það eru einhverjir á besta aldri sem langar að vinna ættu þeir að sæka um hjá okkur,“ segir Sigurður Pálsson, forstjóri BYKO.

BYKO hefur í nokkur ár verið í fararbroddi fyrirtækja sem vilja ráða fólk komið á miðjan aldur til starfa. „Fólk sem komið er um sjötugt er í fullu fjöri. Fyrir 30 árum var fólk á þessum aldri oft orðið slitið og heilsan farin að bila. Staða þess er allt önnur í dag,“ segir forstjórinn.

Sigurður segir ýmsar ástæður fyrir því að BYKO vilji ráða fólk á besta aldri. „Eldra fólk býr yfir mikilli þekkingu sem það hefur aflað sér í gegnum lífið. Krafa viðskiptavina okkar er um aukna þjónustu. Þetta fólk þekkir vel til þeirra vara sem við erum að selja og getur því gefið góð ráð og veitt góða þjónustu,“ segir hann og bætir við að þetta séu traustir starfsmenn. „Eldra fólk mætir í vinnuna af því það hefur gaman að því. Það ber virðingu fyrir vinnunni sinni og stendur við sínar skuldbindingar. Það sýnir fyrirtækinu trygglyndi. Við höfum svolítið verið að sjá það hin síðari ár að yngra fólk er ekki jafn trútt fyrirtækinu. Það ætlar kannski ekki að staldra svo lengi við í starfinu og því finnst sjálfsagt að nota veikindadagana sína sem frídaga eða mæta aðeins of seint.“

Flest eldra fólkið sem ræður sig til starfa hjá BYKO er í hlutastörfum. Tekur vaktir síðdegis og um helgar þegar mikið er að gera; „…sem hentar okkur afskaplega vel. Störfin sem eru í boði eru margvísileg en eðli málsins samkvæmt eru þau flest í afgreiðslu og þjónustu.  Margir eru iðnmenntaðir en það er þó engin forsenda þess að fá vinnu. „Sá sem hefur einhvern tímann á ævinni komið nálægt framkvæmdum veit ýmisilegt um byggingarefni, pípulagnir og raflagnir. Hann hefur öðlast verkvit sitt á þann hátt,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að það hafi mjög jákvæð áhrif á fyrirtækjamenninguna að hafa fólk á ólíkum aldri og með mismunandi reynslu.  Okkar reynsla er að fólk sem er komið á seinni hluta starfsævinnar lítur ekki síður á félagslega þáttinn sem vinnan gefur því, það að hafa tilgang, hitta fólk og samstarfsfélaga. „Við myndum að vísu vilja ráða fleiri konur til starfa. Það eru þó nokkrar konur sem hafa unnið hjá okkur og reynst okkur vel,“ segir Sigurður að lokum.

 

Ritstjórn nóvember 21, 2017 10:44